06.04.1973
Efri deild: 84. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3090 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það er orð að sönnu hjá hæstv. sjútvrh., að þetta frv. um tekjuöflun fyrir fiskveiðasjóð er seint á ferðinni. Okkur þm. er sagt, að þingstörfum skuli hætt nú fyrir hátíðar, og þá er þingi ætlaður um vikutími til þess að fjalla um þetta frv. Nú er það ekki svo, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki mátt vera ljós fjárþörf fiskveiðasjóðs fyrir langa löngu. Það var spurt um fjárþörf og fjáröflun til fiskveiðasjóðs við afgreiðslu fjárlaga á fyrri hl. þessa þings, en engin svör fengust. Það hefur æ ofan í æ verið rætt um þessa fjárvöntun, sem hér er um að ræða, en engin svör hafa fengizt fyrr en ef svar skyldi kalla með því frv., sem var lagt á borð þm. í gær. Hér er um slík vinnubrögð að ræða, að ávíta ber þau harðlega og gagnrýna. Hér er um hreina óvirðingu við þm. að ræða. Hæstv. ríkisstj, mátti vita af vandamálinu, en horfðist ekki í augu við það og hefur ekki haft úrræði fyrr en í tengslum við þetta frv., ef úrræði skyldi kalla.

Ég get ekki annað en minnt á, að þegar rætt var um ráðstafanir í efnahagsmálum hér í des. s.l., var lagt á borð þm. álit svokallaðrar valkostanefndar, þar sem tekið var fram, að auk tiltekinna leiða, sem þyrfti að fara í efnahagsmálunum almennt, væri nauðsynlegt að gera ýmiss konar hliðarráðstafanir. Meginþátturinn í þeim hliðarráðstöfunum var samdráttur í framkvæmdum ríkissjóðsins sjálfs og útlánum fjárfestingarlánasjóða. Engar slíkar till. hafa komið hér fram á Alþ., engar upplýsingar að einu eða neinu leyti, hvernig að slíkum samdrætti skyldi staðið. Ég hef ekki þessi skjöl við höndina, en ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að hér hafi verið um töluverðar upphæðir að ræða, eða 1.700 —2.000 millj. kr. samdrátt.

Það er ætlazt til þess, að Alþ. kveði á um fjáröflun til fjárfestingarlánasjóða, því að þetta er ekki eina frv. þar að lútandi, sem lagt hefur verið fyrir Alþ. þessa dagana og væntanlega verða lögð fyrir Alþ. á næstunni, án þess að nein heildarmynd sé í raun og veru gefin. Í fyrsta lagi: Hver er fjárþörf þessara sjóða? Í öðru lagi: Hvernig á að nýta fjármagn þessara sjóða? Og í þriðja lagi: Í hvaða tengslum er starfsemi þessara sjóða við efnahagsmál landsmanna almennt og þær ráðstafanir, sem gerðar voru í des. s.l.? Engin svör fást. Hér er um vinnubrögð að ræða, sem sýna aðeins, að þeir, sem með stjórn fara, eru ekki verki sínu vaxnir.

Ég minni á það, að milli jóla og nýárs mun hæstv. sjútvrh. hafa gert samkomulag við útvegsmenn í sambandi við ákvörðun fiskverðs, sem fól í sér útgjaldaauka fyrir ríkissjóð, þ.e. niðurfellingu tekna í sambandi við niðurfellingu launaskatts af fiskveiðum, er nemur um 160 millj. kr. á ársgrundvelli. Frv. þar að lútandi er fyrst að sjá dagsins ljós hér á Alþ. í þessari viku, nánar tiltekið, hygg ég, í gær eða dag. Það verður ekki skilið, hvers vegna tefja þurfti þetta mál allan þennan tíma, og enn óhönduglegar sýnist vera staðið að málum, þegar á það er litið, að niðurfelling útgjalda bátaútvegsins samkv. því samkomulagi, sem gert var í tengslum við ákvörðun fiskverðsins, nemur um 160 millj. kr. á ársgrundveili, en aukning álaga á sjávarútveginn samkv. þessu frv., 1% útflutningsgjald af fob.-andvirði sjávarframleiðslunnar, nemur sömu upphæð. Það er sem sagt verið að taka með annarri hendinni það, sem búið er að gefa með hinni.

Ég vek athygli á því, að núv. hæstv. ríkisstj. vildi slá sig til riddara í upphafi valdaferils síns með því að lengja lán til framleiðsluatvinnuveganna og lækka vexti. Efndirnar voru þær, að lánin til stóru skipanna frá fiskveiðasjóði voru lengd úr 15 árum í 20 ár og vextir lækkaðir úr 61/2% í 51/2%. Ég verð að segja það sem mína persónulegu skoðun, að lenging lánstíma til fiskiskipa úr 15 árum í 20 ár er í raun og veru játning á því, að ekki sé þörf á að endurnýja fiskiskipastólinn á styttri tíma en 20 árum. Ég tel mjög óeðlilegt og óheilbrigt, ef lengja þarf lán á fiskiskipum eins og þarna var gert. Það þýðir ekki að vera að tala um, að við Íslendingar höfum til skamms tíma búið við skipaflota, sem er gamall að árum og hefur skort endurnýjun, eins og t.d. togaraflotinn, ef það er blátt áfram gert ráð fyrir því, að því er snertir rekstrargrundvöll fiskiskipa, að þau greiði ekki lán sín niður á skemmri tíma en 20 árum. En þar að auki er um það að ræða, og það skiptir kannske mestu máli í sambandi við fjárþörf fiskveiðasjóðs, að auðvitað gerir þetta það að verkum, að afborganir og vextir til fiskveiðasjóðs af lánum verða minni og fjárþörf fiskveiðasjóðs verður þess vegna meiri. Þess vegna er þörf á aukinni skattlagningu á sjávarútveginn í staðinn fyrir lengingu þessa lánstíma. Það er sama sagan, það er verið að taka aftur núna það, sem áður var hrósað sér af, að verið væri að gefa sjávarútveginum. Að því er snertir lækkun vaxta úr 61/2 % í 51/2 %, er gæzkan ekki meiri en sú, að það mun vera gert að skilyrði fyrir lántökum í fiskveiðasjóði yfir 500 þús. kr., að 10% lánanna séu tekin með spariskírteinum eða spariskírteinakjörum, sem mun þýða um 61/4 % meðalvexti. Auk þess er hér, að því er mér skilst, og hæstv. sjútvrh. leiðréttir mig, ef ég fer ekki með rétt mál, um verðtryggingu að ræða. Ef þetta er sambærileg verðtrygging og á sér stað á öðrum sviðum að því er snertir spariskírteini ríkissjóðs, geta vextir af þessum lánum orðið, miðað við reynslu síðasta árs, eingöngu. um 17—18%. Þá er orðið lítið eftir af loforði hæstv. ríkisstj. um að lækka vexti framleiðsluatvinnuveganna.

Það var einnig loforð hæstv. ríkisstj. í upphafi stjórnarferilsins að létta gjöldum af framleiðsluatvinnuvegunum. Hverjar eru efndirnar? Þær, sem birtast í þessu frv., að það er lagður nýr skattur, 1% skattur, á fob.-andvirði útflutningsins. Það er ljóst mál, að þessi nýi skattur verður til þess að lækka fiskverðið til útvegsmanna og sjómanna, vegna þess að þessi skattur, eins og útflutningsgjöld almennt, er almennt dreginn frá, áður en fiskverð er ákveðið. Ef við lítum á, hvað hér er um að ræða, má gera ráð fyrir því, að 1% á fob: andvirði þýði 2% á verð fisks upp úr sjó. Hér er sem sagt um 2% fiskverðslækkun að ræða.

Og þá er spurningin, hvort ríkisstj. tefli hér eins og annars staðar á tæpasta vaðið, að hagstæð þróun á erlendum mörkuðum geti borið þetta uppi, eða hvort ríkisstj. treysti sjávarútveginum til að bera þennan skatt. Það er venja, þegar um fjáröflun til framleiðsluatvinnugreina er að ræða, eins og hér er á ferðinni, að hafa samráð við forsvarsmenn atvinnugreinanna. Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh., hvort hér hafi verið höfð slík samráð eða ekki. Og ef ekki hefur verið um slík samráð að ræða, tel ég einsýnt, að sú n., sem fjallar um þetta mál, hljóti að hafa samráð við forvígismenn sjávarútvegsins.

Ég vil taka það fram, að við gerum okkur það ljóst, að fjárþörf fjárfestingarlánasjóðs eins og Fiskveiðasjóðs Íslands er ótvíræð. Við höfum bent á þessa fjárþörf og bent á þá fjárvöntun, sem fyrirsjáanleg hefur verið hjá fiskveiðasjóði og öðrum fjárfestingarlánasjóðum. Hæstv. sjútvrh. og aðrir hæstv. ráðh. hafa yppt öxlum og ekki sinnt fyrirspurnum okkar og athugasemdum þar að lútandi. Með þessu frv. er ekki sýnt fram á, hvort búið er að brúa bilið eða ekki. Engar upplýsingar eða mjög ómerkilegar og tætingslegar þar að lútandi fást a.m.k. í frumræðu hæstv. sjútvrh.

Þá er á það að líta, að með þessu frv. og öðrum þeim frv., sem hent er á borð alþm. núna síðustu daga þingsins og ætlazt er til, að þeir afgreiði eins og á færibandi, er ekki eingöngu verið að leggja nýja skatta á framleiðsluatvinnuvegi landsmanna, heldur er einnig verið að leggja skatta til viðbótar á landsmenn með því að leggja byrðar á ríkissjóð. Og það er ekki verið að leggja byrðar á ríkissjóð frá og með næsta fjárlagaári, 1. jan. 1974, fellur á ríkissjóður strax að hefja greiðslur á þessu ári. Nú munum við það öll, að fjárlög voru afgreidd þannig, að ekki var gert ráð fyrir 500 millj. kr. útgjöldum þar til niðurgreiðslna. Það skorti algerlega tekjuöflun til þeirra. Ég hef getið um 160 millj. kr. útgjaldaauka, sem hæstv. sjútvrh. með einu pennastriki gekk frá í samningum í tengslum við fiskverðsákvörðun. Hér er á ferðinni hvert frv. á fætur öðru, sem leggur aukin útgjöld á ríkissjóð á þessu ári án þess að geta um tekjuöflun, sem þar komi á móti. Hæstv. sjútvrh. nefndi 60 millj. kr. útgjöld á þessu ári samkv. þessu frv. Hvernig er ætlun hæstv. ráðh. og ríkisstj. að afla fjár til að standa undir þessum útgjöldum? Hvaða vinnubrögð eru það að afgreiða slík útgjöld úr ríkissjóði nokkrum vikum eða mánuðum eftir að fjárlög eru afgreidd, og þrátt fyrir það, að bent var á við afgreiðslu fjárlaga, að ekki væri tekið tillit til fjáröflunar slíkra fjárfestingarútlánasjóða, sem hér er um að ræða?

Það ber allt að sama brunni. Vinnubrögð hæstv. ráðh. og ríkisstj. í heild, að því er snertir fjárfestingarlánasjóði, eru slík, að það er ekki bjóðandi Alþ. að einu eða neinu leyti. Úrræðaleysið hefur verið slíkt, að fyrst á síðustu dögum þingsins er slengt fram frv., sem þó, að því er virðist, leysa ekki vandann að fullu og langt frá því.9