06.04.1973
Efri deild: 84. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3103 í B-deild Alþingistíðinda. (2564)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið. Það var sérstakt atriði, sem ég vildi ræða um. Ég get þó ekki stillt mig um að vekja athygli á því, að þegar hæstv. sjútvrh. lét svo ólíklega að ætla hv. 2. þm. Reykv. þá skoðun, að hægt væri að taka fé án þess að taka það nokkurs staðar frá, fannst mér hann höggva nokkuð nærri sjálfum sér. Það hefur nefnilega verið einkenni á hæstv. ráðh. og raunar ekki frekar á honum en hans samflokksmönnum, að þegar þeir hafa verið í stjórnarandstöðu, hafa þeir ekki stillt kröfum sínum betur í hóf en svo, að það hefur ekki verið neinu líkara en þeir héldu, að það væri hægt að ráðstafa fé án þess að taka það nokkurs staðar frá.

En það er nú svo, að jafnvel þó að þessir menn, hæstv. ráðh. og hans flokksmenn, séu komnir í ríkisstj., eru þeir ekki lausir við þann hugsunarhátt, að hægt sé að ráðstafa fé, án þess að það sé tekið nokkurs staðar frá. Ég nefni í þessu sambandi dæmi, sem er ekki fjarlægara en gengislækkunin, sem gerð var í desember s.l. Þá var það yfirlýstur tilgangur með gengislækkuninni, að það ætti að yfirfæra fjármagn, á ársgrundvelli 800—1.200 millj. kr., til sjávarútvegsins honum til styrktar. Það þótti þá eitt aðaleinkenni þessarar gengislækkunar og kostur, að það átti enginn að verða var við það, að þetta fé væri tekið. Það átti ekki að taka það af neinum. Og það voru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess, að áhrif gengislækkunarinnar kæmu ekki inn í kaupgjaldsvísitöluna, til þess að undirstrika þetta. Nú er það hins vegar framför, þegar hæstv. ráðh. segir, að það sé ekki hægt að ráðstafa fé, nema það sé tekið einhvers staðar frá. Og auðvitað er ég honum sammála um það. Ég er honum sammála um, að það sé nauðsynlegt að efla tekjustofna fiskveiðasjóðsins. Þá geri ég auðvitað ráð fyrir, að það verði að taka fé einhvers staðar frá.

En mér fannst ábótavant við það, hvernig hæstv. ráðh. lagði þetta mál fyrir. Hann gerði hv. þm. ekki nógu skýra og glögga grein fyrir því, hvernig málin stæðu, þannig að þeir mættu meta það sjálfir að fengnum upplýsingum, hvort þær ráðstafanir, sem lagðar eru til með frv., sem hér er til umr., væru nægjanlegar. Hæstv. ráðh. gat um, hvað væri áætlað um útlán sjóðsins. Það er góðra gjalda vert. En það eru ekki nægilegar upplýsingar til þess að gera sér grein fyrir því, hvort þær ráðstafanir, sem frv. leggur til um tekjuöflun, séu nægilegar. Hæstv. ráðh. sagði, að mjög væri að gert. Ég vil ekki bera brigður á þá fullyrðingu hæstv. ráðh. að svo stöddu. En ég óska eftir því, að hæstv. ráðherra geri glögga grein fyrir því, þ.e.a.s. að hann upplýsi ekki einungis hv. þm. um það, hvað útlánin eru áætluð mikil á næsta ári, heldur einnig, hvað aðrar greiðslur sjóðsins eru áætlaðar. Ég á við, hvað eru áætlaðar afborganir af skuldum og vöxtum sjóðsins? Þetta þarf að koma fram annars vegar. Hins vegar þarf að koma fram, og það hefur ekki komið fram, hverjar eru áætlaðar tekjur sjóðsins á næsta ári. Hverjar eru áætlaðar tekjur af vöxtum af lánum og öðrum kröfum sjóðsins? Hverjar eru áætlaðar tekjur af útflutningsgjöldum, sem renna til sjóðsins samkvæmt núgildandi lögum? Þetta er nauðsynlegt að fá upplýst, til þess að hægt sé að sjá, hvað þessar tekjur nema miklu til viðbótar við þær 35 millj. kr., sem eru framlag ríkissjóðs, og hver er þá munurinn, þegar þetta dæmi er sett upp, annars vegar á tekjum sjóðsins samkvæmt tekjuáætlun og hins vegar á greiðsluskyldum sjóðsins. Hver er munurinn? Ég óska eftir að fá upplýsingar um það til þess að gera mér grein fyrir, hvort sú tekjuöflun, sem hér er gert ráð fyrir, nægir. Samkvæmt upplýsingum hæstv. ráðh. og eins og greinir frá í grg. frv. er hér um að ræða um 320 millj. á ársgrundvelli. Nú tel ég, að hv. þm. þurfi að vita, hvort þessi upphæð nægi til þess að mæta mismuninum á áætluðum útgreiðslum og inngreiðslum sjóðsins á þessu ári. Ég legg mikið upp úr þessu og mér finnst ekki hægt að ætlast til, að hv. þm. taki afstöðu til þessa máls, fyrr en þessar upplýsingar liggja fyrir.

Ég verð að segja það, að mér fannst það nokkuð veikja allan málflutning hæstv. ráðh. og tilgang þessa frv. um tekjuöflun til sjóðsins, þegar hann færði fram í ræðu sinni hér áðan ástæður fyrir því, að menn þyrftu ekki að óttast, að ríkissjóðnum yrði mikið ofboðið í ár. Hæstv. ráðh. sagði, að þessar tekjur, sem hann var áður búinn að segja að ættu að koma sjóðnum til góða á þessu ári, kæmu ekki til sjóðsins fyrr en á næsta ári. Mér finnst, að þetta sé ekki góð röksemdafærsla, og þetta veikir nokkuð trú mína á gagnsemi þessarar tekjuöflunar, a.m.k. fyrir sjóðinn á þessu ári, ef slík rök sem þessi halda. En ég sagði, hæstv. forseti, að ég ætlaði ekki að lengja mikið þessar umr. Ég stóð fyrst og fremst upp til þess að fá þær upplýsingar, sem ég óskaði eftir, og ég vænti þess, að hæstv. ráðherra gefi þær þegar við 1. umr.