06.04.1973
Efri deild: 84. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3111 í B-deild Alþingistíðinda. (2568)

104. mál, fangelsi og vinnuhæli

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um fangelsi og vinnuhæli hefur gengið í gegnum Nd., hefur verið athugað þar mjög rækilega í hv. allshn., og hún gerði á því nokkrar breytingar, sem samþ. voru í Nd. Þær breytingar voru þó ekki það veigamiklar, að ég geti ekki sætt mig við þær.

Ég gerði nokkuð ítarlega grein fyrir fangelsismálunum, þegar ég flutti framsögu fyrir þessu máli í hv. Nd. á sínum tíma, og ég vona, að mér fyrirgefist það, þó að ég fari ekki svo ítarlega út í það nú, þar sem sú ræða er tiltæk í þingtíðindum og menn geta kynnt sér þær upplýsingar, sem ég þá gaf.

Það er alkunnugt, að framkvæmd fangelsismála hefur verið gagnrýnd hér nokkuð, bæði af fjölmiðlum og jafnvel af hv. alþm. Þrátt fyrir það að ýmislegt hafi verið gert til úrbóta í því efni, eins og t.d. góð viðbótarbygging við vinnuhælið á Litla-Hrauni, fangelsi, sem nú hefur verið endurbætt og er verið að taka í notkun við Síðumúla, þá er það svo, að það má sjálfsagt með réttu segja, að það sé ýmsu ábótavant í þessum málum. Og það er einfaldlega af því, að það hefur ekki í sjálfu sér skort vilja til úrbóta í þessu efni, hvorki hjá mér né mínum fyrirrennurum, heldur hefur verið skortur á aðstöðu til þess að koma við þeim breytingum í þessum efnum, sem æskilegar eru. Þetta frv. er flutt til þess að reyna að skapa aðstöðu til þess, og má segja, að aðalatriðið sé það, að lagður er grundvöllur eða reynt að leggja grundvöll í frv. að því, að framkvæmdir geti hafizt í byggingarmálum þessara stofnana. Það er sem sagt gert ráð fyrir því, að á hverju ári skuli 15 millj. kr. lagðar til þessara bygginga, en eftir núgildandi lögum er það aðeins 1 millj, á ári, og það er auðvitað vegna þeirra breytinga, sem hafa orðið frá 1961, allsendis ófullnægjandi og hefur því þess vegna verið þröngur stakkur skorinn, hvað hægt væri að gera í þessu efni.

Það er ekki hugsað til þess að byggja eitt stórt fengelsi, heldur er gert ráð fyrir, að þarna geti verið um áfanga að ræða og þetta geti verið fleiri en ein bygging, eftir því sem talið er heppilegt, og þessu geti verið skipt niður í rekstrareiningar, en þó verður vitaskuld að hafa hliðsjón af því, að því hljóta að vera nokkur mörk sett, hve lítil rekstrareiningin má vera, til þess að um sæmilegan rekstur geti verið að ræða.

Að öðru leyti er það svo, að þó að það sé að stofni til byggt á þeim lögum. sem eru nú um fangelsi og vinnuhæli, þá er gert ráð fyrir ýmsum endurbótum á framkvæmdinni í þessu frv. Um sum þau atriði má auðvitað segja, að það mætti koma þeim við og ákveða um þau í reglugerð. En það er þó skýrara að hafa þau í lögum.

Þá er það fyrst og fremst það, að mælt er fyrir í þessum lögum um ákveðna deildaskiptingu, sem ég tel ákaflega þýðingarmikla, vegna þess að ég tel óheppilega þá skipan, sem hér hefur tíðkazt, að menn væru settir saman án tillits til þess. hvert brotið er, án tillits til aldurs o.s.frv. Ég tel það mjög þýðingarmikið spor, ef hægt er að koma við deildaskiptingu, og það er gert ráð fyrir því einmitt þarna, að það sé hægt. Það er t.d. sjálfsagt að hafa þá sér, ef unnt er, sem eru í gæzluvarðhaldi, og þeir eiga að fá og eiga rétt á sérstakri meðferð, en ekki að farið sé með þá eins og brotamenn. Enn fremur er að mínum dómi sjálfsagt að hafa sérstakt hæli fyrir unglinga, sem þarf að taka úr umferð.

Þá er það líka mjög aðkallandi að koma upp sérstakri deild fyrir geðveila menn, sem þarf að hafa í öryggisgæzlu. Það mál er skelfilegt vandræðamál nú, vegna þess að geðveikraspítalarnir neita algerlega að taka við slíkum mönnum. Af þessu hafa hlotizt þau mestu vandræði, sem jafnvel hefur stundum verið reynt að leysa úr með því að reyna að koma þessum mönnum á hæli erlendis, en það hefur þó ekki tekizt í öllum tilfellum. Þess vegna er öryggisgæzla þessara ógæfumanna mjög miklum vandkvæðum bundin. Það er enn fremur gert ráð fyrir því, að með þessari deildaskiptingu og viðbótarbyggingum verði hægt að koma því við að gera vinnuhælin að raunverulegum vinnuhælum, sem geti verið opin að meira eða minna leyti, eins og vinnuhæli eiga að vera. En eins og þessu er nú háttað, hefur þurft að nota þessi vinnuheimili bæði fyrir regluleg afplánunarfangelsi og svo vinnuhæli.

Þá er lögð áherzla á það í þessu frv., að reynt sé að sjá föngum fyrir vinnu, eftir því sem kostur er. Það er lögð áherzla á, að þeim sé séð fyrir tómstundaiðju einnig. Það er lögð rík áherzla á, að það sé reynt að koma við kennslu, alveg sérstaklega að því er varðar unglingavinnuhælið, en líka í öðrum vinnuhælum, þar sem það á við. Er kveðið á um, að það skuli, eftir því sem kostur er, vera vissir sérfræðingar, sem þarna eru taldir upp, fengnir að þessum hælum, en það er ekki vafi á því, að það má segja, að verið hafi ábótavant í því efni til þessa. Ég fer ekki lengra út í það.

Þá er það líka, að gerðar eru sérstakar kröfur til forstöðumanna, kunnáttukröfur, sem settar eru fram sem aðalregla. En það verður að horfast í augu við það, að eins og er getur verið skortur á slíkum mönnum. En það er stefnt að því að reyna að fá menn með slíka kunnáttu og reynslu til þess að taka við forstöðu þessara stofnana.

Það er heimilað að setja stjórnarnefnd fyrir hvert vinnuhæli, en nú er slík nefnd bara fyrir vinnuhælið á Litla-Hrauni.

Þá er með þessu frv. fylgt eftir og stígið til fulls það skref, sem stigið var í fyrra, að því er varðar löggæzluna, að hún var yfirtekin af ríkinu. Það er gert ráð fyrir í þessu frv., að allur kostnaður við byggingu og rekstur héraðsfangelsa færist yfir á ríkið, og það er eins um það og annað, að það kostar auðvitað sitt. Það er, ef ég man rétt, gert ráð fyrir að þetta geti kostað 10 millj. kr. En það er talið vera í samræmi við það, að þegar búið er að yfirfæra löggæzluna, þá fylgi hitt með. Það var ekki gert í lögunum í fyrra, en verður að teljast út af fyrir sig eðlilegt framkvæmdaatriði.

Eins og ég sagði, herra forseti, gerði ég nokkuð ítarlega grein fyrir málinu, þegar ég lagði það fyrir þingið í vetur, og ég ætla því að láta þetta nægja nú, nema komi fram einhverjar fsp. í sambandi við málið. Ég er að sjálfsögðu þakklátur fyrir það, ef hv. d. og hv. n., sem fær málið til meðferðar, tekst að afgreiða það. Ég veit, að það er til nokkuð mikils mælzt, að þetta mál sé afgreitt í þessari d. á svona stuttum tíma, þar sem meðferð þess hefur tekið tiltölulega langan tíma í hv. Nd. En ég vona þó, að miðað við þá athugun, sem málið hefur þar fengið, geti það tekizt.

Ég skal svo ekki tefja málið með lengri framsögu að þessu sinni. Það eru ítarlegar skýringar, sem fylgja með frv. og einstökum gr. þess, og ég leyfi mér að vísa til þess og óska, að frv. sé að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.