06.04.1973
Efri deild: 84. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3115 í B-deild Alþingistíðinda. (2580)

233. mál, Iðnlánasjóður

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Í þessu frv. til l. um iðnlánasjóð felast tvær breytingar, sem báðar gera ráð fyrir auknum tekjum sjóðsins. Annars vegar er lagt til að hækka um fjórðung gjald það, sem er innheimt til sjóðsins af iðnaðinum í landinu, eða úr 0.4% í 0.5% af sama gjaldstofni og aðstöðugjald er reiknað. Hins vegar er lagt til, að framlag ríkissjóðs hækki úr 15 millj. kr., eins og það var 1972, í 50 millj. kr. frá og með árinu í ár. Þessum breytingum er ætlað að stuðla að eflingu iðulánasjóðs og gera honum kleift að sinna í ríkari mæli en áður hinum síauknu verkefnum sínum. Einnig er með frv. þessu verið að gera ráðstafanir til að halda í horfinu eða bæta hlutfall eigin ráðstöfunarfjár sjóðsins af heildarútlánum hans. Með þessum ráðstöfunum er verið að spyrna við fótum hvað iðnlánasjóð snertir gegn þeirri neikvæðu þróun fjárfestingarlánasjóða almennt á síðustu árum, sem ekki hafa getað uppfyllt vaxandi eftirspurn eftir lánsfé nema með stórauknum lántökum sjálfir, sem aftur hefur leitt til þess, að eigin ráðstöfunarfé sjóðanna hefur farið hlutfallslega minnkandi ár frá ári, ef miðað er við heildarútlán þeirra. Samkv. bráðabirgðatölum mun hlutfallið fara úr 55% árið 1970 niður í 33% 1973, ef viðhlítandi ráðstafanir verða ekki gerðar.

Efling iðnlánasjóðs er sameiginlegt áhugamál ríkisvaldsins og samtaka iðnaðarins sjálfs. Hækkun iðnlánasjóðsgjaldsins um 25%, sem hér er lögð til, er skerfur iðnaðarins til eflingar þessum stofnlánasjóði. Þegar iðnlánasjóðsgjaldið var fyrst lagt á 1963, nam það 4.2 millj. kr., en á síðasta ári, 1972, nam innheimt iðnlánasjóðsgjald 51.5 millj. kr. Frá upphafi og til ársins 1972 hefur iðnlánasjóðsgjaldið numið samtals 253 millj. kr., en höfuðstóll iðnlánasjóðs var 31. des. 1972 459.4 millj. kr. Með hækkun ríkisframlagsins úr 15 millj. í 50 millj. kr., eins og hér er lagt til, kemur ríkisvaldið til móts við iðnaðinn sjálfan og stuðlar á raunhæfan hátt að auknu eigin ráðstöfunarfé sjóðsins til frambúðar jafnframt því að gera sjóðnum auðveldara að rækja hlutverk sitt.

Ríkissjóður hefur lagt iðnlánasjóði til árlegt framlag alla tíð síðan 1935, og hefur það farið síhækkandi. Á síðasta ári nam það 15 millj. kr. og hafði það þá numið í heild frá upphafi 42 millj. kr.

Iðnaðurinn hefur verið í mjög örum vexti að undanförnu, og sú þróun krefst síaukinna stofnlána, og því gegnir iðnlánasjóður mjög mikilvægu hlutverki, en hann lánar einkum til byggingar iðnaðarhúsnæðis, til vélvæðingar í iðnaði og lítið eitt til hagræðingar. Í grg. er rakið, hve eftírspurn eftir lánum úr sjóðnum hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Fjöldi lánsbeiðna var 1971 231, 1972 250 og 1973 290. Upphæðin, sem um var sótt, nam 1971 327 millj. kr., 1972 419 millj og í ár 665 millj. kr. Af þessu var aðeins hægt að afgreiða sem lán á árinu 1971 127 millj. kr., í fyrra 176 millj., og í ár er búið að afgreiða 158 millj. kr.

Af þessum tölum er ljóst, að með ráðstöfunarfé sjóðsins 1973 hefur aðeins tekizt að sinna 23.7% umbeðinnar lánsfjárhæðar. Ef sjóðurinn á að geta sinnt fleiri umsóknum, þarf hann að taka að láni verulega fjármuni, og mun hann gera það að einhverju marki á þessu ári einnig. En með þeim ráðstöfunum, sem hér eru lagðar til, er staða sjóðsins styrkt mjög verulega og það bæði til frambúðar og þegar á árinu í ár. Hækkun iðnlánasjóðsgjaldsins úr 0.4% í 0.5% færir sjóðnum tæpar 14 millj. kr. til viðbótar áætluðu iðnlánasjóðsgjaldi, sem var áætlað 55 millj. kr., og mun því iðnlánasjóðsgjaldið nema í heild 69 millj. kr. á þessu ári. Hækkun ríkisframlagsins úr 15 í 60 millj. gefur sjóðnum til viðbótar 35 millj. kr. á þessu ári. Þessi lagabreyting felur því í sér um 50 millj. kr. aukningu á höfuðstól iðnlánasjóðs á þessu ári umfram það, sem ella hefði orðið að óbreyttum lögum. Málefni iðnlánasjóðs hefur oft borið á góma hér á Alþ., og ég hygg, að fulltrúar allra stjórnmálaflokka hafi flutt og stutt till. um það, að framlög ríkissjóðs í þennan sjóð ykjust frá því, sem verið hefur. Slíkar till. hafa átt mismunandi auðvelt uppdráttar, en ég geri mér vonir um, að um þessa breytingu, sem hér er lögð til, verði enginn teljandi ágreiningur.

Ég vil í sambandi við þetta frv. fara örfáum orðum um brtt., sem ég lagði fram í gær í sambandi við annað frv., sem snertir iðnaðinn, þ.e.a.s. iðnrekstrarsjóð. Þegar ég lagði það frv. fram, var gert ráð fyrir því, að hluti af tekjum sjóðsins væri úr ríkissjóði, en þar var engin upphæð tilgreind. Ástæðan var sú, að ríkisstj. var þá enn að kanna fjármál sjóðanna. Nú hefur hins vegar verið tekin sú ákvörðun að leggja til, að ríkissjóður leggi fram 50 millj. kr. til iðnrekstrarsjóðsins, þannig að í þessum tveimur frv. er gert ráð fyrir auknu ríkisframlagi í þágu iðnaðarins, sem nemur 85 millj. kr. Það er vissulega mjög veruleg breyting frá því, sem verið hefur. En hitt þurfa menn að gera sér ljóst, að fram undan eru miklir örlagatímar fyrir iðnaðinn, ef hann á að standast þær miklu breytingar, sem verða, þegar aðildin að EFTA fær fullt gildi og samningurinn við Efnahagsbandalagið. Þá verður að veita þessari mikilvægu atvinnugrein það öflugan stuðning, að iðnaðurinn geti keppt þar á jafnréttisgrundvelli með fullum árangri.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.