06.04.1973
Efri deild: 84. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3118 í B-deild Alþingistíðinda. (2583)

233. mál, Iðnlánasjóður

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð til þess að fyrirbyggja misskilning. Ég sagðist ekki leggja til, að ríkisframlagið til iðnlánasjóðs væri hækkað, en ég taldi, að það gæti komið til greina og ætti að athuga með hliðsjón af öðrum leiðum, sem kynnu að finnast. Það breytir engu í þessu efni, sem hæstv. ráðh. sagði, að hv. 1. þm. Reykv. er 1. flm. að frv. á þessu þingi um að hækka ríkisframlagið einungis upp í 30 millj. Ég vil minna á það, að á síðasta þingi flutti sami hv. þm. frv. um að hækka þetta framlag upp í 25 millj., en það frv. fékk ekki náð fyrir augum meiri hl. Alþ. þá, og ef ég ætlaði að beita sömu röksemdafærslu og hæstv. iðnrh. gerði með sínum orðum, þá mætti álykta sem svo, að fyrst hann stóð að því, að till. um 25 millj. kr. framlag næði ekki fram að ganga á síðasta þingi, þá sé harla einkennilegt, að nú skuli hann leggja til, að 50 millj. kr. skuli lagðar fram samkv. þessu frv. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra minnir mig á, að það frv., sem hv. 1. þm. Reykv. bar fram á síðasta þingi, hafi ekki verið fellt. Það veit ég, en ég hygg, að hann sé svo þingvanur, að hann viti, að það er sama og að fella þingmál, þegar stjórnarliðið leggst á það með því að afgreiða það ekki úr n. og tryggir þannig, að það fær sömu örlög og það hefði verið fellt.