06.04.1973
Efri deild: 84. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3119 í B-deild Alþingistíðinda. (2586)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Frsm. (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Heilbr. og trn. hefur haft til umsagnar frv. til l. um dvalarheimili aldraðra, en frv. þetta er komið frá Nd. N. mælir með samþykkt frv., en einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. við frv.

Í aths. við frv. segir, að í meginatriðum sé tilgangurinn með þessari lagasetningu tvíþættur:

1. Settar verði reglur um byggingu og rekstur dvalarheimila fyrir aldraða og skapaðir möguleikar á eftirliti með rekstri þeirra.

2. Settar verði reglur um framlög úr ríkissjóði til byggingar dvalarheimila og kaupa á nauðsynlegum tækjum og búnaði.

Ekki er mikil þörf á því að ræða nú náið efni frv. né málefni aldraðra í heild, enda hefur ráðh. fyrir skömmu flutt um það framsögu hér í d. Umsagnir um frv. voru mjög á einn veg. Frv. var fagnað og það talið jákvætt skref fram á við í velferðarmálum aldraðs fólks. Breyttir þjóðfélagshættir kalla í enn frekari mæli á auknar framkvæmdir í málefnum aldraðra, ekki sízt spurningunni um húsnæði þeirra á elliárum, hvort sem um er að ræða tiltölulega hraust fólk eða sjúklinga.

Það er skoðun mín, að hin stórfellda og mikla skipting milli kynslóða og skortur á tengslum þeirra í milli sé þjóðfélaginu í heild til ills. Einkum þarf að reyna á nýjan hátt að tengja yngstu kynslóðina þeirri elztu og hefði hvor tveggja af gleði og gagn. En út í það sambandsleysi og þá einangrun, sem allt of mikið af gömlu fólki býr við án þess að vilja það, skal ekki farið hér, þótt að því beri að huga í fullri alvöru. Hitt er staðreynd, sem við blasir einnig, að í dvalarheimilismálum aldraðs fólks þarf að vinna mörg og mikilvæg verkefni á næstu árum. Ekki svo að skilja, að margt hafi ekki verið vel gert í þessum málum. Það sanna miklar framkvæmdir síðustu ára. En þetta frv. er hins vegar talandi vottur enn aukins skilnings stjórnvalda á þessum málum, og er því að vonum, að umsagnaraðilar séu frv. fegnir og leggi því liðsinni sitt. Það er sannarlega mikilvægt spor í rétta átt.

Ég skal svo ekki fjölyrða mikið um þetta mál að öðru leyti en því, að ég endurtek samþykki n. við frv. þetta.