06.04.1973
Efri deild: 84. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3120 í B-deild Alþingistíðinda. (2587)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins láta það koma í ljós, að við fulltrúar Sjálfstfl. í heilbr: og trn. Ed. fögnum þessu frv., þykir vænt um, að það er komið fram, og vonum, að það fái skjóta afgreiðslu. Það hefur komið fram hér hin mikla þörf fyrir dvalarheimili og hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Við vitum öll, að þeim fer fjölgandi í þessu landi og að á fáum sviðum eru vandræðin jafnmikil og einmitt að vista aldrað fólk. Þetta hefur verið mikið rætt á Alþ. nú upp á síðkastið, og mun ég því ekki fara frekar út í það.

Það, sem ég vildi aðeins minnast á hér, er að mér finnst að það sé kannske heldur of mikið gert að því að tryggja eftirlit og umsýslu hins opinbera með dvalarheimilum fyrir aldraða, enda þótt þau séu ekki byggð að neinu leyti upp á vegum ríkisins. Á ég þar einkum við 3. gr. frv., þar sem tekið er fram um, að rn. skuli ekki einungis fylgjast með byggingum og segja fyrir um, hvernig þær skuli vera, og fá upplýsingar um allt slíkt, heldur enn fremur um allt innbú og annað það, er að rekstri og kjörum vistmanna lýtur. Ekki efast ég um, að það er heilbrigt og nauðsynlegt, að opinberir aðilar hafi eftirlit með aðbúð og þjónustu, sem vistmönnum á dvalarheimilum er veitt. Hins vegar finnst mér, að eftir þessu frv. verði allerfitt að snúa sér við og það geti orðið flókið mál og mikil skriffinnska við að reka þessi heimili. Þetta er svo sem ekki nýmæli, því að þetta hefur verið í okkar gömlu sjúkrahúslögum. En ég vildi vekja athygli á því, vegna þess að það er í mörgum gr. frv. einmitt minnzt á þetta atriði, að það skuli vera ráðh. og rn. sem setji ákvæði um framkvæmd þessara laga. um búnað húsa, um aðbúnað og þjónustu við vistmenn og um starfslið dvalarheimilis. Ég held, að það verði mjög þrengt að forstöðumönnum þessara dvalarheimila, þeir fái varla aðstöðu til þess að ráða nokkru, jafnvel ekki að kaupa stólinn handa sér, nema fara með það í rn. og fá til þess sérstaka heimild.

Í 6. gr. frv. er talað um stjórn dvalarheimila og tekið fram, að þegar byggt sé af sveitarstjórn, skuli hún að sjálfsögðu skipa menn í stjórnina, en séu aðrir eigendur, skuli þeir skipa stjórn til fjögurra ára í senn. Við erum heldur á því, að jafnvel þótt aðrir eigendur séu en sveitarstjórn að dvalarheimilum, þá væri full ástæða til, að sveitarstjórn í því sveitarfélagi, þar sem dvalarheimilið er reist, skuli jafnan eiga einn mann í stjórn heimilisins. Það held ég, að mundi verða til öryggis og skilnings og mundi stuðla að bættri og öruggari samskiptum á milli sveitarinnar og vistheimilisins. Við höfum ekki komið fram með neinar brtt., en höfum í hyggju að koma e.t.v. með brtt. við 3. umr. Þær verða ekki veigamiklar, en það er ýmislegt smávægilegt, sem við teljum, að mundi geta betur farið í þessu efni. Það er t.d. í sambandi við 9. gr., sem hljóðar svo:

„Stjórn dvalarheimilis ákvarðar vistun fólks á heimilinu að fengnum till. forstöðumanns.“ Við erum á því, að jafnvel geti verið mjög æskilegt fyrir stjórnendur dvalarheimills, að það væri sérstök n., sem vistar fólk á slíkum heimilum. Þetta er mikið vandamál orðið hér í landi, hvað erfiðleikar eru miklir við að koma fólki á slíkar stofnanir, og forstöðumenn þessara heimila eiga í miklum örðugleikum, svo að vægt sé til orða tekið, vegna þess, hvað ásókn er mikil að komast á slík heimili. Við lítum svo á, að það gæti verið hentugt, að sérstök n. hefði þetta verkefni með höndum og að forstöðumenn og stjórn væru losuð undan þeirri ábyrgð, sem því fylgir.

Þetta frv. kemur að sjálfsögðu með að hafa allmikil útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð. Ég vil geta þess, að það er talið, held ég, öruggi, að hvort sem um dvalarheimili er að ræða eða íbúðir fyrir aldraða, þá muni hvert rúm kosta milli 1 og 2 millj. kr., og hér þurfa að koma fljótlega nokkur hundruð rúm fyrir aldraða á tiltölulega skömmum tíma. Þetta geta því orðið allmikil fjárútlát, og einmitt vegna þess erum við þeirrar skoðunar, að það gæti verið hentugt, að einstökum aðilum, félagasamtökum eða öðrum, væri heimilt að byggja slík heimili, án þess að ríkið kæmi þar til með aðstoð, og lítum þá svo á, að slík heimili ættu að vera frjálsari og ekki þurfa eins mikið afskipta ríkisvaldsins við og þau, sem njóta fyrirgreiðslu þessa frv. Þó vil ég taka skýrt fram, að þetta á ekki við eftirlit með þjónustu og aðbúð að þeim vistmönnum. sem á heimilinu búa, því að við lítum svo á, að nauðsynlegt sé, að þar með sé fullt eftirlit.

En þetta breytir ekki því, þó að við höfum eitthvað við orðalag að athuga, að við fögnum framkomu þessa frv. og gerum okkur vonir um, að það muni setja hreyfingu á aukinn rúmafjölda til vistunar gömlu fólki.