07.04.1973
Neðri deild: 80. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3154 í B-deild Alþingistíðinda. (2610)

218. mál, breyting á mörkum Gullbringusýslu og Kjósarsýslu

Frsm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til þess að gera örstutta athugasemd varðandi það mál, sem hér er til 3. umr. Sú spurning hefur komið upp hjá hlutaðeigandi aðilum, hvort hin breyttu sýslumörk, sem frv. gerir ráð fyrir, geti í nokkru breytt stöðu eða umboði sýslunefndarmanna Garðahrepps og Bessastaðahrepps. N. þótti hins vegar svo sjálfsagt, að umboð þeirra héldist, þótt hrepparnir flyttust í Kjósarsýslu, að hún taldi óþarft að setja ákvæði í frv. þess efnis. Ég hef viljað greina frá þessu hér, til þess að ekki færi milli mála, að þessi væri skilningur nefndarinnar.