07.04.1973
Neðri deild: 80. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3154 í B-deild Alþingistíðinda. (2615)

220. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Frsm. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Allshn. hefur orðið ásátt um að leggja til, að frv. verði samþykkt óbreytt. Í sambandi við þetta langar mig aðeins að geta þess, að hæstv. fjmrh. minntist á það, þegar hann mælti fyrir þessu frv. fyrir 2 eða 3 dögum, að Alþ. þyrfti að taka afstöðu til sérstakra atriða í þessu frv., svo sem hvort þessi væntanlegu lög ættu að taka til starfsmanna Alþ. Því miður hefur okkur ekki gefizt tóm til í öllum þessum önnum að athuga það mál nánar, né yfirleitt að kanna ofan í kjölinn margvísleg atriði í þessu frv., eins og kannske hefði átt að vera. Hins vegar er þetta frv. af því taginu, að það er einhvers konar samningur eða samningsgerð milli ríkissjóðs og opinberra starfsmanna eða umboðsmanna þeirra, þannig að eðli málsins er í því fólgið, að það er ástæðulaust að hrófla hér við þeim atriðum, sem þessir aðilar hafa komið sér saman um. Hins vegar hygg ég, að ég mæli fyrir munn nm. allra, að við hefðum talið æskilegt, að okkur hefði gefizt meira tóm til að kanna þarna einstök atriði, svo sem réttarstöðu starfsmanna Alþingis.