07.04.1973
Neðri deild: 80. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3155 í B-deild Alþingistíðinda. (2617)

236. mál, launaskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 553 er frv. til l. um breyt. á l. nr. 14 15. marz 1965, um launaskatt, sbr. lög nr. 104 31. des. 1972. Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er sú, að þegar samið var við sjómenn um kjör þeirra við síðustu áramót, var það einn þáttur í samkomulagi milli þeirra og útgerðarmanna að leggja ekki á launagreiðendur almennan launaskatt af greiddum vinnulaunum, þ. e. hvers konar atvinnutekjum og öðrum tekjum sjómanna lögskráðra á íslenzk fiskiskip, sem aflað er í tengslum við úthald skipa til fiskveiða, og tekjum af landbúnaði, eins og ákveðið er í lögum þessum. Þetta frv. er flutt til að fullnægja þessu, samkomulagi og undanskilja launaskattsgreiðslu þá aðila, sem eru taldir upp í 1. gr. frv. Að öðru leyti er ekki efni frv. annað og yrði að miða við, að gildistaka þess yrði frá 1. jan. s. l.

Ég legg til, herra forseti, að, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.