07.04.1973
Neðri deild: 80. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3155 í B-deild Alþingistíðinda. (2618)

236. mál, launaskattur

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Eins og hæstv. fjmrh. tók fram, er hér verið að staðfesta samkomulag, sem gert var í sambandi við fiskverðsákvörðun, sem gildir frá 1. jan. en í athugasemd við 1. gr. þessa frv. segir:

„Nær undanþágan einnig til tekna landsmanna, svo framarlega sem landsmenn þessir séu lögskráðir“. Nú má vera, að þetta samkomulag sé þannig orðað, en ég hygg, að á bak við þetta samkomulag sé í raun og veru það að undanskilja launaskatti laun manna, sem vinna á fiskiskipum eða í landi við fiskiskip. Vil ég benda á, að það er mjög almennt, sérstaklega í sambandi við línuútgerð, að það eru ekki fastráðnir landmenn nema að takmörkuðu leyti, og með þessu orðalagi gætu skattayfirvöld krafizt launaskatts af þeim öllum, nema þeir væru lögskráðir. Enn fremur vil ég minna á það, að í sambandi við lögskráningu, er ekki lögum samkv. skylt að lögskrá á báta nema yfir 12 rúmlestir, að mig minnir, og ef á minni báta er ekki lögskráð, sem er ekki skylda, ber þá að líta svo á, að útgerð þeirra verði að greiða launaskatt? Frá sjónarmiði Landsambands ísl. útvegsmanna er eðlilegt, að það hafi eingöngu litið á skip, sem hafa lögskráningarskyldu, því að yfirleitt ná þau samtök ekki til hinna minni báta eða minni útgerðar.

Ég vildi því spyrja hæstv. fjmrh. að því, hver hans skilningur er á þessu tvennu, og þá jafnframt, hvort sú n., sem fær þetta frv. til meðferðar, vilji ekki athuga þessar tvær athugasemdir, sem ég hef hér leyft mér að gera. Að öðru leyti tek ég undir orð hæstv. fjmrh. í sambandi við tildrög að flutningi þessa frv, sem er staðfesting á samkomulagi, sem gert var, eins og hann gat réttilega um.