07.04.1973
Neðri deild: 81. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3158 í B-deild Alþingistíðinda. (2627)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Frsm. (Jón Skaftason) :

Herra forseti. Heilbr. og trn. þessarar hv. d. hefur haft til athugunar undanfarnar vikur frv. til l. um heilbrigðisþjónustu. Eftir mikla athugun og marga fundi varð n. sammála um, að skila nál., sem liggur hér frammi á þskj. 567 og er undirritað af öllum meðlimum heilbr: og trn. Nd. með fyrirvara um heimild til þess að flytja eða fylgja brtt. frá öðrum. Ég vil þó í sambandi við þetta geta þess, að þau mistök hafa orðið í nál., að fallið hefur niður nafn hv. 3. landsk. þm. undir nál., sem þar átti að vera, og bið ég hv. þm. velvirðingar á því og svo þ. alla. Enn fremur vil ég geta þess, að einn nm., Birgir Kjaran, var ekki staddur á fundi, þegar endanlega var gengið frá nál.

Það frv. um heilbrigðisþjónustu, sem við erum hér að ræða við 2. umr., er að mínu viti eitt af merkari frv., sem fyrir þetta þing hafa verið lögð. Heilbrigðisþjónusta landsmanna er að sjálfsögðu þjóðfélagslega mikilvægt verkefni, sem Íslendingar hafa unnið að um mörg ár með umtalsverðum árangri, þó að fjarri sé, að þar sé náð því æskilega takmarki, að landmenn geti allir notið þeirrar heilbrigðisþjónustu, sem eftirsóknarverð er og eðlilegt má telja, að þeir eigi kröfu til. En frv. þetta miðar einmitt fyrst og fremst að því að reyna að leysa þann vanda, sem þeir þjóðfélagsþegnar og þá fyrst og fremst þeir, sem búa í strjálbýlinu, hafa búið við í sambandi við læknisþjónustu í landinu. Auk þess eru í frv. mörg önnur merkileg ákvæði, sem ég mun víkja nokkuð að, eftir því sem tími leyfir.

Íslenzka ríkið hefur á undanförnum árum veitt sífellt hærri fjárhæðir til sjúkrahúsbygginga, byggingar heilsugæzlustöðva, læknisbústaða og til heilbrigðismála almennt. Er það ánægjuleg þróun og ber vott um það, að þjóðin hefur eflzt á undanförnum árum efnalega og telur sér skylt að sinna þessum málaflokki meira en verið hefur. Ég hef til upplýsinga fyrir hv. Alþ. farið í gegnum fjárlög síðustu fjögurra ára í sambandi við fjárveitingar á fjárl. til byggingar sjúkrahúsa, sjúkraskýla, læknamiðstöðva, heilsuverndarstöðva, annarra en ríkissjúkrahúsa, og einnig með tilliti til fjárveitinga til læknisbústaða. Þá kemur það í ljós, að á árinu 1970 hefur ríkið veitt til þessara framkvæmda 104 millj. 323 þús., árið 1971 hefur verið veitt til þessara framkvæmda úr ríkissjóði 154 millj. 687 þús., árið 1972 292 millj. 328 þús., og á fjárl. yfirstandandi árs hefur þessi fjárhæð meira en þrefaldast, á þessu fjögurra ára tímabili, því að þar er þessi fjárveiting nú 332 millj. 477 þús. Það er því eðlileg afleiðing af þeim miklu framkvæmdum, sem verið hafa í þessum málum nú á síðustu árum, að þeim sé fylgt eftir með frv. eins og því, sem hér er verið að ræða, þ.e.a.s. frv. til l. um heilbrigðisþjónustu, sem kveður á um ýmsa aðra þætti í framkvæmd heilbrigðisþjónustunnar, sem er nauðsynlegt, samfara þeim miklu framkvæmdum, sem hafa verið í sjúkrahúsabyggingum í landinu. Ég skal ekki eyða tíma að víkja fleiri orðum að því, heldur víkja beint að sjálfu frv. og því nál., sem hér er verið að ræða.

Frv. um heilbrigðisþjónustu er að meginstofni samið af n., sem skipuð var af fyrrv. heilbr.- og trmrh., Eggert G. Þorsteinssyni, í samræmi við þál. frá 22. apríl 1970. Starfaði n. frá því í okt. 1970 og fram í byrjun apríl 1971. Till. n. voru sendar fjölmörgum aðilum til umsagnar og athugunar, og bárust erindi frá 30 einstaklingum og félagssamtökum út af þeim. Haustið 1971 skipaði núv. heilbr: og trmrh., Magnús Kjartansson, nýja n. til þess að yfirfara upphaflegu till. og taka til athugunar þær brtt. er borizt höfðu. Lauk þeirri athugun um áramótin 1971—1972, og voru drög að heildartill. frv. send Sigurði Sigurðssyni þáv. landlækni og Benedikt Sigurjónssyni hæstaréttardómara til athugunar og umsagnar. Af þessu má sjá, að frv. þetta hefur fengið mikla athugun á undirbúningsstigi, enda er efni þess meðal erfiðustu og mikilvægustu löggjafarmálefna, eins og áralöng reynsla sannar. Frv. um heilbrigðisþjónustu var síðan lagt fram til kynningar á síðasta Alþ. og aftur á yfirstandandi þingi með nokkrum breytingum, sérstaklega á II. kafla þess, sem fjallar um læknishéruð, og III. kafla þess, sem fjallar um heilsugæzlu.

Ég vil þá í örfáum orðum víkja að nokkrum helztu ákvæðum, sem telja má til nýmæla í þessu frv.

Í fyrsta lagi er þar að finna veigamikla almenna stefnuyfirlýsingu í þessum málaflokki, þar sem því er lýst yfir, að landsmenn skuli allir eiga kost á eins fullkominni heilbrigðisþjónustu og tök eru á hverju sinni. Í öðru lagi er í frv. að finna ákvæði um yfirstjórn heilbrigðismála, þar sem m.a. er gert ráð fyrir deildaskiptingu í heilbr: og trmrn. eftir þeim verkefnum, sem það rn. annast. Þá er í frv. að finna till. um skiptingu landsins í læknishéruð og skipun héraðslækna í samræmi við það. Enn fremur er eitt af merkari nýmælum frv. það, að gert er ráð fyrir, að stofnaðar verði 38 heilsugæzlustöðvar utan Reykjavíkur, þar sem verði miðstöðvar almennra lækninga og heilsuverndarstarfs í landinu. Þá er ríkisframlag til byggingar heilsugæzlustöðva ákveðið hið sama og til byggingar sjúkrahúsa, þ.e.a.s. 85% af byggingarkostnaði ásamt búnaði stofnananna. Þá er að finna í frv. ákvæði, er skilgreina, hvað sé átt við með sjúkrahúsi, og þau eru flokkuð í frv. í 7 flokka, eins og nánar er þar skýrt frá. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að samin sé framkvæmdaáætlun til 10 ára í senn um framkvæmdir í sjúkrahúsabyggingum og byggingu heilsugæzlustöðva. Ég vil geta þess, að í heilbr: og trn. hefur þeirri hugmynd verið hreyft og hún fengið góðar undirtektir, að í sambandi við þá framkvæmdaáætlun verði tekið upp í frv. ákvæði er bendi eindregið til þess, að forgang um byggingu heilsugæzlustöðva og sjúkrahúsa skulu þau héruð hafa, þar sem læknisþjónustan er í lökustu lagi. Sú till. er til frekari athugunar í n. á milli 2. og 3. umr.

Ég held, að ég eyði ekki lengri tíma í að rekja helztu nýmæli í frv., en vík þá að þeim brtt., sem heilbr: og trn. hefur orðið sammála um að flytja og liggja frammi í nál. á þskj. 557, sem ég vék hér að áðan.

Frv. skiptist í 5 kafla, og ætla ég að víkja að hverri gr., sem brtt. er gerð við í nál. innan ramma hvers kafla frv.

1. kafli frv. fjallar um yfirstjórn þessara mála. Þar hefur heilbr: og trn. orðið sammála um að bæta við gr. nýjum lið, er hljóðar þannig og verður nr. 3:

„Ráðh. setur reglugerð um starf og stöðu landlæknis og embættis hans, að höfðu samráði við samtök heilbrigðisstétta, læknadeild Háskóla Íslands og Læknafélag Íslands. Í reglugerðinni skal kveða á um faglegt eftirlit landlæknis með heilbrigðisstofnunum, lyfjanotkun, heilbrigðiseftirliti og sóttvarnarráðstöfunum og einnig um sérhæft starfslið til að sinna þeim verkefnum.“

Þessi brtt. er flutt til þess að koma til móts við óskir, sem fram voru settar af ýmsum þeim aðilum, sem frv. var sent til umsagnar eða sendu af sjálfsdáðum erindi til n., þar sem óskað var eftir því, að starfssvið og verkefni landlæknisembættisins væru ítarlegar tilgreind en í frv. er að finna, eins og það var lagt fram við 1. umr. Auk þessarar brtt. við gr. hefur verið í athugun í heilbr: og trn. að gera till. um fleiri breytinga: við þessa gr. M.a. er n. að íhuga að taka inn ákvæði um það, að landlæknir skuli vera eins konar umboðsmaður almennings í landinu, þar sem sjúklingar, sem hafa undan einhverju að kvarta í sambandi við samskipti sín við lækna, geti borið upp vandamál sín. Má segja, að það sé í sjálfu sér ekkert nýtt, það felist raunar þegar í embættisverkum landlæknis. En ástæða þykir til að setja um það beint ákvæði inn í frv., og er það nú til athugunar í n. milli 2 og 3. umr.

Þá er önnur brtt., sem n. flytur, sú, að aftan við 13. gr. frv. bætist nýr liður, svo hljóðandi: „Ákvæði þessarar gr. skulu, eftir því sem við getur átt og ráðh. ákveður, einnig taka til annars fastráðins starfsliðs í heilbrigðisþjónustunni.“

En 13. gr. frv. fjallar um ýmis réttindi, sem héraðslæknar skulu hafa, 6 vikna leyfi og tækifæri til þess að sækja erlent og innlent læknaþing o.s.frv. Þótti n. eðlilegt að bæta þessu ákvæði inn í og víkka þannig þann hóp manna, sem þessi réttindi geta náð til.

3. brtt., sem n. leggur til á þskj. 557, er sú, að inn í 15. gr. í II. kafla, 4. tölul., bætist orðið „endurhæfingarheimili“.

4. till. um breyt. lýtur að 16. gr., tölul. 3, þar sem lagt er til, að gr. orðist þannig:

„Lyfjaútibú eða lyfjaútsala samkv. 43. og 44. gr. lyfsölulaga eða lyfjasala undir eftirliti læknastöðvarinnar skal jafnan vera á heilsugæzlustöð, ef lyfjabúð er ekki á staðnum.“

Breyting þessi er sú ein, að í stað þess, að í frv. stendur, að þessi starfsemi skuli vera undir stjórn lækna, kemur nú „undir eftirliti lækna“.

5. brtt. lýtur að 20. gr. frv. Hún skýrir sig sjálf. Segir þar, að í stað orðsins „hjúkrunarstjóra“ í 20. gr. l. komi: deildarstjóra í hjúkrunarmálum. Lagt er til, að 20. gr. liður 2 verði orðuð þannig: „Ráða skal hjúkrunarkonur og ljósmæður til starfa við heilsugæzlustöðvar“. Þ.e.a.s. hér er ljósmæðrum bætt inn í og í stað orðsins „heilsugæzluhjúkrunarkonur“ er hér einungis talað um hjúkrunarkonur. Við 20. gr. stafl. 3, er lagt til, að gr. orðist þannig: „Allar hjúkrunarkonur og ljósmæður, sem hér um ræðir, skulu skipaðar af ráðh. og taka laun úr ríkissjóði“. Hér er breytingin sú, að ljósmæðrum er hér bætt inn í. Fjórða breytingin við 20. gr. er sú, að í stað orðsins „heilsugæzluhjúkrunarkonur“ komi: hjúkrunarkonur.

6. brtt. n. er við 21. gr., liður 2 orðist þannig: „Íbúðarhúsnæði lækna, hjúkrunarkvenna og ljósmæðra telst hluti stöðvanna utan Stór-Reykjavíkursvæðisins og Akureyrar.“ Hér er bætt við orðinu „ljósmæður“ í samræmi við það, sem á undan er gengið. Gr. skýrir sig sjálf að öðru leyti en því, að ástæða er til að taka fram, að þegar talað er um Stór-Reykjavíkursvæðið, þá er átt við Reykjavík, Kópavog, Garðahrepp, Bessastaðahrepp, Hafnarfjörð, Seltjarnarnes og Mosfellssveit.

7. brtt. lýtur að 22. gr. lagt er til, að 1,4, stafl. orðist þannig: „Geðvernd, áfengis- og fíknilyfjavarnir“. önnur brtt. við sömu gr. lýtur að 22.1.4.j. Þar verði breytt orðunum „félagsleg aðstoð“ í „félagsráðgjöf“. Aftan við 22. gr. 1 komi ný setning, svo hljóðandi: „Aðrar heilsuverndargreinar eftir ákvörðun ráðh. Ráðh. getur ákveðið, að heilbrigðiseftirlit hafi aðstöðu í heilsugæzlustöð“.

Þá er umorðun lögð til á 22. gr. 2 og lagt til, að hún orðist þannig:

„Ráðh. setur með reglugerð ákvæði um störf heilsugæzlustöðvar og fyrirkomulag, læknafjölda og sérmenntað starfslið, tækjaútbúnað og starfsháttu og fyrirkomulag heilsuverndarstarfs á hverjum stað, þ.á.m. um móttöku sjúklinga utan stöðva. Ráðh. getur með reglugerð ákveðið að fjölga stöðvum í umdæmi að höfðu samráði við Læknafélag Íslands“.

Þetta síðasta er nýtt í frv., að ráðh. geti með reglugerð ákveðið að fjölga stöðvum í umdæmum að höfðu samráði við Læknafélag Íslands, og er þetta tekið upp í frv. samkv. óskum margra þm.

8. brtt. lýtur að 23. gr. Þar er lagt til, að 23. gr. l. orðist svo:

„Rekstrarkostnaður heilsugæzlustöðva, svo og kostnaður vegna aðstöðu lækna utan stöðva, annar en launakostnaður lækna, hjúkrunarkvenna og ljósmæðra, greiðist af þeim sveitarfélögum, sem hlut eiga að máli“. Hér er ljósmæðrum bætt inn í til samræmis við breytingu, sem ég hef áður vikið að.

9. brtt. lýtur að 25. gr. l. Lagt er til, að hún orðist þannig: „Læknar og tannlæknar, sem starfa við heilsugæzlustöðvar, skulu skipaðir af ráðh. Þeir skulu taka laun með tvennu móti: a) Föst laun fyrir gegningarskyldu, vaktþjónustu, heilsuverndarstarf og ráðgjafarþjónustu við heilbrigðiseftirlit. b) Laun samkv. samningi stéttarfélaga lækna og tannlækna og Tryggingastofnunar ríkisins fyrir almenn læknisstörf og almennar tannlækningar“.

Hér er tannlæknum bætt inn í gr., og enn fremur, þegar rætt er um, hvernig þeir skuli taka laun, þá er bætt inn í a-liðinn: og ráðgjafarþjónustu við heilbrigðiseftirlit, og í b-liðinn: almennar tannlækningar, sem afleiðing af því, að tannlæknum er bætt í gr.

10. brtt. lýtur að 27. gr., lið 2. Lagt er til, að hann orðist svo: „Ráðh. setur með reglugerð nánari ákvæði um flokkun sjúkrahúsa samkv. þessari gr., að höfðu samráði við Landssamband sjúkrahúsa, og ákveður jafnframt starfssvið og verkaskiptingu þeirra sjúkrahúsa, er starfa við gildistöku laganna“.

Það, sem er nýtt við þessa gr., er, að bætt er inn í hana: „að höfðu samráði við Landssamband sjúkrahúsa“. Það þótti eðlileg og sjálfsögð breyting og var því tekin upp af nefndinni.

11. brtt. lýtur að 33. gr. frv., lið 2. Lagt er til, að hann orðist svo: „Sjúkrahúsum sveitarfélaga skal stjórnað af 5 manna stjórnum. Starfsmannaráð sjúkrahúsa kjósa 2 menn í stjórn og hlutaðeigandi sveitarstjórn eða stjórnir 3: ` Þetta er nálega engin efnisbreyting frá sjálfu frv. Í síðari lið segir svo: „Þegar um einkasjúkrahús eða sjálfseignarstofnun er að ræða, kýs starfsmannaráð einn stjórnarmann, viðkomandi sveitarstjórn einn, en eigendur þrjá.“ Hér er um nokkuð annað fyrirkomulag að ræða en frv. gerði ráð fyrir, en breyt. skýrir sig sjálf, og þarf ég ekki að víkja frekar að henni.

12. brtt. n. er við 34. gr. Þar er lagt til við 34. gr. lið 1, að í stað orðanna „einn skipaður af ráðh. án tilnefningar“ komi: landlæknir. Sem sagt, að landlæknir eigi sæti í þeirri matsnefnd, sem 34. gr. gerir ráð fyrir, að sett verði á fót.

13. brtt. lýtur að 35. gr., lið 4. Lagt er til, að hann orðist svo: „Með reglugerð skal kveða á um reglur fulltrúakjörs og starfsreglur starfsmannaráða“.

14. brtt. lýtur að 39. gr. Í stað orðsins „ráðuneytisins“ í lok 39. gr. lið 1 komi: heilbrigðisþjónustunnar. Hér er um útvíkkun á þeim hóp starfsmanna heilbrigðismála að ræða.

15. brtt. tekur til 42. gr. Lagt er til, að hún orðist þannig, 42, 1: „Öll ferðalög fastráðins starfsfólks, sem um ræðir í l. þessum, skulu vera því að kostnaðarlausu, séu þau starfsins vegna, sbr. reglur um greiðslu kostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins, nr. 199 frá 1970.“ Hér er tekið inn ákvæði um að miða þessar greiðslur við gildandi reglugerð um greiðslu kostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins. Og hin breytingin lýtur að 42. gr. 2, „reglur um bifreiðamál ríkisins nr. 6 frá 1970 skulu gilda um starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar eftir því, sem við getur átt.“ Það þótti eðlilegt, að viðmiðunin væri við gildandi reglugerð í þessum efnum.

16. brtt. er svo við 43. gr. Lagt er til, að aftan við 43. gr. 1 komi: „Svo og um almennt sjúkraflug og neyðarþjónustu“. Þetta er viðbót við gr., sem er inn tekin samkv. óskum ýmissa aðila, sem sent hafa n. erindi út af frv.

17. brtt. er sú, að á eftir 45. gr. í frv. komi ný gr., sem verði 46. gr., svo hljóðandi: „Heimilt er að tengja við ákveðnar sérfræðings- og aðstoðarlæknisstöður við ríkisspítala kvöð um störf við heilsugæzlustöðvar allt að tveim mánuðum á ári fyrir sérfræðinga og allt að 4 mánuðum fyrir aðstoðarlækna“.

Gr. þessi skýrir sig sjálf, og skal ég ekki orðlengja það frekar.

18. brtt. n. lýtur að umorðun á upphafi 46. gr. í frv., sem verður 47. gr. Þar segir, að upphaf gr. orðist svo: „Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1974“.

Vík ég þá að síðustu brtt. n., sem er við ákvæði til bráðabirgða. Þar er lagt til, að þau orðist þannig:

„1. II. kafli l. og gr. 20.i taka ekki gildi fyrr en Alþingi ákveður. Meðan gildistöku þessara ákvæða er frestað, skal ráðh. skipa einn lækni í hverju heilsugæzluumdæmi til þess að gegna þeim embættisstörfum, sem tilgreind eru í II. kafla. Læknar þessir skulu vera starfandi við heilsugæzlustöðvar, þar sem því verður við komið. Þangað til þessir læknar hafa verið skipaðir, skulu borgarlæknirinn í Reykjavík og, og héraðslæknar gegna núverandi embættisstörfum sínum“.

Þetta ákvæði er upp tekið vegna þess, að það kom fljótlega í ljós við athugun á frv., að á hv. Alþ. var um að ræða verulega mikinn ágreining um ákvæðin í II kafla frv. Var þetta deilumál rætt fram og til baka, og náðist sú samkomulagslausn, sem ég var hér að lýsa með upplestri á ákvæði til bráðabirgða um þennan kafla. Tel ég eftir atvikum, að þar hafi okkur heppnazt að rata réttan meðalveg, sem eðlilegt sé, að menn hafi reynt að finna, því að ég vil taka það alveg sérstaklega fram, að ég hef fundið það í gegnum allar umr., bæði í n. og við einstaka þm., að fyrir því er mjög almennur vilji, þrátt fyrir misjafnar skoðanir á ýmsum ákvæðum í frv., að greiða fyrir framgangi þess nú á þessu þingi. Eru menn, bæði hv. alþm. og raunar aðrir þeir aðilar, sem komið hafa nálægt gerð þessa frv., mjög af vilja gerðir til þess að leysa ágreiningsmál, sem uppi eru, til þess að greiða götu frv. í gegnum þingið.

2. tölul. í ákvæðum til bráðabirgða hljóðar þannig :

„Til þess að koma á þeirri heilbrigðisþjónustu, sem ráðgerð er, skal úr ríkissjóði bjóða fram námsstyrki til heilbrigðisstarfsmanna, til þess að þeir geti aflað sér sérmenntunar. Námsstyrkir þessir skulu nægja fyrir skólagjöldum og dvalarkostnaði erlendis í allt að eitt ár.“

Breytingin frá hliðstæðu ákvæði í frv. er sú, að hér er talað um námsstyrki til heilbrigðisstarfsmanna í stað þess, að í frv. er talað um námsstyrki ti1 lækna og hjúkrunarkvenna, og talað er um, að námsstyrkir þessir skuli nægja fyrir skólagjöldum og dvalarkostnaði í allt að eitt ár, í stað þess, að í frv. er gert ráð fyrir, að þeir gildi í eitt ár.

3. liður í ákvæðum til bráðabirgða orðast þannig samkv. till. n.:

„Héraðslæknar á læknissetrum, sem leggja á niður, skulu flytjast til heilsugæzlustöðva, þegar aðstaða er fengin, en ella sitja á núverandi aðsetri. Meðan lögin eru að komast til fullra framkvæmda, er heimilt að ráða lækna og annað starfslið að heilsugæzlustöð með búsetu og starfsstað utan stöðvar“.

Þetta er óbreytt ákvæði frá því, sem er í frv. Og 4. og síðasta atriðið í brtt. n. hljóðar þannig: „Heilsuverndarstarf samkv. l. nr. 44 1955, sbr. l. nr. 28 1957, skal haldast óbreytt frá því, sem er við gildistöku l., þar til heilsugæzlustöðvar hafa verið skipulagðar til þess að annast það“.

Þetta er líka óbreytt frá því, sem er í frv. Ég hef þá lokið við að lýsa þeim brtt., sem heilbr.- og trn. hefur gert við frv. við 2. umr. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að nokkrar nýjar hugmyndir um breytingar hafa komið fram á frv. í heilbr.- og trn., sem við höfum athugað og munum athuga frekar á milli 2. og 3. umr. Þar get ég almennt sagt það eitt, að ég hygg, að það geti orðið samkomulag um allflestar þeirra brtt. á milli okkar nm. og þeirra aðila annarra, sem þetta frv. snertir hvað mest. En það mun sýna sig við 3. umr.

Þá hefur komið fram brtt. á þskj. 557 frá hv. þm. Karvel Pálmasyni, sem hann hefur verið svo vænn að fallast á að draga til baka til 3. umr., svo að n. gefist tóm til að líta á hana á milli 2. og 3. umr.

Ég skal þá fara að stytta mál mitt, en ég tel þó rétt, áður en ég lýk því, að víkja nokkuð að þeim umsögnum, sem komið hafa út af þessu frv. til n., og erindum, sem henni hafa verið send. Þau eru allmörg, og í þeim er að finna heilan aragrúa af brtt., sem lúta að ýmsum þáttum í frv. Yfirleitt má segja, að umsagnir þessar eru jákvæðar um meginstefnu frv. Ég held, að ég geti fullyrt, að um þær allar gildi það atriði, að um meginstefnu frv. séu umsagnirnar jákvæðar. Því er þó ekki að leyna, að í sumum þeirra er að finna till. um veigamiklar breytingar á ýmsum greinum í frv., og hefur n. tekið ýmislegt upp af þeim till., sem finna má í umsögnum og erindunum. Aðrar brtt., margar hverjar a.m.k., eru formlegs eðlis, till. um annars konar orðalag en er að finna í frv., en hafa ekki í för með sér miklar efnisbreytingar.

Meginandstaða gagnvart vissum gr. eða þáttum frv. kemur fram í því, að ýmsum stéttum og aðilum í þjóðfélaginu, sem þetta frv. snertir fyrst og fremst, finnst það mikill galli, að ekki sé nægilega ljóst kveðið á í frv. um verkaskiptingu landlæknisembættisins annars vegar og rn. heilbrigðis- og tryggingamála hins vegar. Í umsögnum, sem Læknafélag Íslands, heilbrigðismálaráð Reykjavíkur og landlæknir sendu, er að finna atriði, er lúta að þessu sérstaklega. Þessum aðilum finnst, að ákvæði frv. um landlæknisembættið séu í það magrasta og á ýmsan hátt óljós. Hefur n. reynt að meta andstöðu þessara aðila, og er sú brtt., sem ég lýsti áðan, til komin til þess að mæta þessari andstöðu frá þessum mjög svo mikilvægu stéttum í þjóðfélaginu, sem starfa að heilbrigðismálum. Um þennan ágreining mundi ég vilja segja þetta: Þeir aðilar, sem skiluðu áliti til n., höfðu allir áður sent heilbr: og trmrn. tillögur og álitsgerðir, og ýmsar óskir þeirra voru teknar til greina við endurskoðun rn. á frv. M.a. hefur verið tekið tillit til þeirrar meginkröfu Læknafélags Íslands með brtt. þeirri, sem ég var að lýsa, að landlæknisembættið skuli haldast áfram í sömu mynd og það starfar nú. Þegar n. leitaði álits félagsins á frv., kom fram sú hugmynd þess, að vissir þættir heilbrigðismála skuli ekki heyra undir heilbrn., heldur eingöngu landlæknisembættið. Nefndin — eða a.m.k. meiri hl. hennar — getur ekki fallizt á þá skoðun. Samkv. lögum um stjórnarráð fer sérstakt rn. með heilbrigðis- og tryggingamál, og till. Læknafélagsins er í reynd till. um stofnun nýs rn. undir stjórn landlæknis. Miðað við mannfjölda og allar aðstæður á Íslandi getur það ekki talizt tímabært að skipta verkefnum í heilbrigðis- og tryggingamálum milli tveggja rn. Mjög skiljanlegur er hins vegar áhugi læknasamtakanna á því, að hið forna embætti landlæknis setji á engan hátt niður, og það er tryggt með lagafrv. þessu með því ákvæði, að þetta embætti heyri beint undir ráðh., en ekki ráðuneytisstjóra.

Ákvæði um störf landlæknis eru tilgreind á víð og dreif í ýmsum lögum og reglugerðum, og er því full ástæða til þess að semja heildarreglugerð um starfssvið embættisins, eins og n. gerir að till. sinni. Í þeirri reglugerð þarf að koma fram það megineinkenni embættisins, sem Læknafélag Íslands hefur lagt höfuðáherzlu á, að landlæknir eigi að vera óháður gagnrýnandi og ráðgjafi. Ráðuneytisstjórinn er hins vegar beinn samverkamaður ráðh. og framkvæmir ákvarðanir hans. Það er mjög mikilvægt fyrir ráðh., að sá maður, sem þeirri stöðu gegnir, hafi sem viðtækasta læknisfræðilega menntun til þess að fjalla með honum um þau sérfræðilegu viðfangsefni, sem eru dagleg verkefni þess rn. Um þetta síðasta atriði vil ég taka það fram, að þar er um mína persónulegu skoðun að ræða, en ber ekki að skoða sem neina yfirlýsingu, sem gildi fyrir nm. alla í heilbr: og trn., því að um þetta atriði eru þar skiptar skoðanir.

Ég veit ekki, hvort það er ráðlegt af manni, sem ekki hefur til að bera sérfræðilega þekkingu á sviði heilbrigðisþjónustunnar, að fara mjög náið út í þá verkefnaskiptingu, sem yrði eftir að brtt. okkar í n. væru komnar inn í frv., í grófum dráttum milli landlæknis annars vegar og heilbrn. hins vegar. Ég vil þó freista þess að lýsa skoðun minni á því atriði, en þó ber ekki að líta á það sem neina tæmandi upptalningu á skiptingu verkefna milli þessara aðila, heldur aðeins sem leiðarvísun um meginatriði, meginlínur, eins og ég lít á það.

Samkv. l. um stjórnarráð fer heilbr: og trmrn. með þá málaflokka, sem það er kennt við. Í 6. gr. frv. eru taldir þeir meginþættir, sem heilbrigðis- og tryggingamál greinast í, og gert ráð fyrir deildum í rn. í samræmi við þá skiptingu. Fyrsti málaflokkurinn, sem þar er tilgreindur, er sjúkrahúsmál og heilsugæzla. Þar er rn. ábyrgt fyrir rekstri og uppbyggingu. En verksvið landlæknis beinist að eftirliti með störfum þeirra heilbrigðisstétta, sem þar starfa, og starfsaðstöðu þeirra. Sama máli gegnir um heilbrigðiseftirlit ríkisins. Forstöðumaður heilbrigðiseftirlitsins starfar undir stjórn rn. samkv. frv. og hefur með höndum framkvæmd heilbrigðiseftirlits, sem er vaxandi og æ mikilvægara starf, eftir því sem þéttbýli og ýmiss konar verksmiðjustarfsemi fer vaxandi. Hlutverk landlæknis er hér hið sama og í sjúkrahúsmálum, faglegt eftirlit með því, að framkvæmdir séu eins góðar og þekking og aðstæður framast leyfa. Hvað lyfjamálum viðvíkur, fer lyfjamáladeild rn. með mál, er varða lyfjaframleiðslu og lyfjasölu, en landlæknir fylgist með dreifingu og notkun lyfja og þá sérstaklega, hvort um ofnotkun ávanaskapandi lyfja er að ræða. Þannig rekst það á engan hátt á, að frv. gerir ráð fyrir deildaskiptu rn. og jafnframt reglugerð, sem kveði á um, á hvern hátt faglegu eftirliti landlæknis með hinum ýmsu málaflokkum verði háttað. Þennan skilning minn á verkaskiptingu rn. og landlæknis hef ég borið undir báða aðila, landlækni og fulltrúa úr rn., og er mér óhætt að fullyrða hér, að í öllum höfuðatriðum eru báðir þessir aðilar sammála þeim skilningi, sem fram kemur hjá mér.

Ég vil svo að endingu aðeins segja það, eins og ég vék að í upphafi, að ég tel, að frv. þetta sé með merkari frv., sem lögð hafa verið fram á þessu þingi. Í því finnast mörg og veigamikil ný ákvæði, eins og ég hef vikið að, og með því er mörkuð sú stefna, að ríkisvaldið skuli í æ ríkari mæli taka þátt í því með fjárframlögum að byggja upp heilbrigðisþjónustuna og þá ekki hvað sízt úti á landsbyggðinni. Það er í samræmi við þennan skilning, að ég hef beitt mér fyrir því í heilbr.- og trn. og við aðra þá aðila, sem frv. sérstaklega snertir, að reyna að tryggja framgang þess eftir öllum þeim leiðum, sem hugsazt geta, og það er orðið mjög langt liðið á þingtímann. Þetta hefur gengið sæmilegt eftir atvikum, eins og shlj. nál. ber vott um, og fyrir það vil ég sérstaklega þakka samstarfsmönnum mínum í heilbr.- og trn., sem allir hafa lagt sig fram um það að reyna að leysa með einhverju samkomulagi öll þau ágreiningsatriði, sem upp hafa komið í sambandi við athugun á frv. Ég vil enn fremur þakka hæstv. heilbrmrh., ráðuneytisstjóra í heilbr: og trmrn. og aðstoðarmanni ráðh., Öddu Báru Sigfúsdóttur, enn fremur landlækni og fleiri þm., sem ég hef haft tal af í sambandi við frv. þetta, fyrir mikinn skilning og velvilja á mikilvægi þess, að frv. geti náð fram að ganga á þessu þingi.