07.04.1973
Neðri deild: 81. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3174 í B-deild Alþingistíðinda. (2630)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hér er til umr. eitt stærsta og mikilvægasta mál, sem hið háa Alþ. hefur fengið til meðferðar, a.m.k. í minni tíð sem þm., en sorglega þunnskipaðir eru bekkir. Ég veit ekki nema væri ráð, að herra forsetinn skaki betur skellu sína að þm. og gefi þeim ofan í. A.m.k. segir Morgunblaðið, að menn fái góða laun fyrir þetta, og annað eins blað og Morgunblaðið fer ekki með neina lygi, eins og menn vita, það fylgist vel með í þeim málum.

En hvað um það. Þetta mikilvæga mál, sem hér liggur fyrir til umr., hefur haft langan undirbúning, sem eðlilegt er um svo veigamikið málefni. Ég ætla ekki að fara að setja hér á langar tölur um nauðsyn mikilla úrbóta í heilbrigðisþjónustu landsbyggðarinnar. Öllum þingheimi er ljós lífsnauðsyn þess að ráða bót á málum þessum til frambúðar, og það má segja, að öll landsbyggðastefna, eins og um hana er rætt, sé hjal eitt og markleysa, ef ekki tekst að veita fólki viðunanlegt öryggi í heilbrigðismálum eftir þeim kröfum, sem gerðar eru nú til dags. Málið hefur legið fyrir heilbr.- og trn. hv. d. um alllanga hríð og sent fjölmörgum aðilum til umsagnar. Ég hef satt bezt að segja lengst af verið nokkuð svartsýnn á að takast mætti þrátt fyrir mikla vinnu að afgreiða þetta mál á þessu þingi, svo að skaplegt mætti teljast. Ég hef lengst af ekki talið mig hafa nægjanlega heildarsýn yfir þetta viðamikla mál, enda mjög fjölbreyttar skoðanir uppi um, hvernig lög þessi skuli úr garði gerð. Því hafa hv. þm. kynnzt og munu kynnast í framhaldsumr. um þetta mál. Enda þótt ég hafi verið lengst af daufur til fylgis við afgreiðslu frv. nú, tel ég á hinn bóginn svo mikilvægt, að framkvæmdavaldið nái vopnum sínum í þessu stórmáli þjóðarinnar, að ég mun styðja framgang málsins nú, að sjálfsögðu með þeim fyrirvara, að þær breytingar, sem ég tel brýnastar, nái fram að ganga.

Að því virðist hafa verið stefnt að undanförnu mjög eindregið að ljúka þessu þingi fyrir páskahelgi. Að mínum dómi er alveg augljóst, að eigi þetta frv. fram að ganga, sé óhjákvæmilegt, að þingi verði fram haldið eftir páskahelgi með tilliti til þessa málefnis einvörðungu, þótt einnig sýnist illmögulegt að ljúka þessu þingi fyrir páska vegna margra annarra stórmála, sem ekki hafa einu sinni komið til umr. enn, en ákvörðun virðist hafa verið tekin um að ljúka og hljóti og verði að fá framgöngu. Mér sýnast það alveg óframbærileg vinnubrögð að ætla sér að hafa slíka fljótaskrift á afgreiðslu hinna mikilvægustu mála eins og verður, ef fram verður haldið þessum ákvörðunum um að ljúka þingi á svo skömmum tíma. Og ég vil nú beina þeirri eindregnu áskorun til ráðamanna, að þeir taki nú þegar ákvörðun um framhald þingsins eftir páska, svo að þingi gefist kostur á að vinna sómasamlega að hinum mikilvægustu málum, sem afgreiðslu bíða. Ég er sannfærður um, að sú ákvörðun er forsenda þess, að svo viðamikið mál sem hér um ræðir nái fram að ganga, sem ég geri þó ráð fyrir, að meiri hl. þm. hafi áhuga á, en að því er mér er kunnugt um, óska þm. þess eindregið, að þeim gefist kostur á því að gaumgæfa það miklu betur og vandlegar. Enda þótt það hafi legið hér lengi fyrir í þingi, er mörgu að sinna fyrir þm. og þeim, sem ekki eiga sæti í viðkomandi n., sem um það fjallar, gefst af eðlilegum ástæðum ekki kostur á að kynna sér eðli málsins, eins og þeir vissulega verða að gera og hljóta að óska eftir að fá tækifæri til, þegar um svo viðurhlutamikið mál er að ræða.

Hv. frsm., hv. 2. þm. Reykn., hefur gert grein fyrir brtt. á þskj. 557, sem öll n. stendur að og ég tel vera til mikilla bóta. Við nánari athugun kann þó að vera, að t.d. ákvæði til bráðabirgða þurfi endurskoðunar við, einkum e.t.v. ákvæði 1. og 3. liðar. Hv. frsm. boðaði einnig frekari brtt. frá n. við 3. umr. Eins og fram kemur, áskilja nm. sér rétt til þess að fylgja brtt., sem fram kunna að koma, og eins að flytja sjálfir brtt. Geri ég að óbreyttu ráð fyrir, að ég muni notfæra mér þann rétt, en vænti þess hins vegar að á milli umr. takist n. að sem mestu leyti að ná saman, því að ég tel mjög mikilvægt, að sem mest eining geti orðið um afgreiðslu málsins. Málið allt er af þeim toga spunnið, að það væri ákjósanlegast, að það mætti fara þannig úr hendi, að ekki yrðu um það illvígar deilur.

Ég hef um langa hríð verið þeirrar skoðunar, að rammi þessara laga ætti e.t.v. að vera nokkru rýmri. Við svo róttæka breytingu á einum mikilvægasta þætti þjóðmálanna hef ég talið nauðsynlegt, að framkvæmdavaldið hefði nokkurt olnbogarými eða svigrúm til skipunar mála eftir því, hver reynsla fengizt við framkvæmd. E.t.v. er þetta ónauðsynleg varkárni, þar sem lögunum má alltaf breyta, og ég get út af fyrir sig fallizt á þá skoðun, að löggjafinn eigi að fá embættismönnum í hendur sem mest niðurnjörvaða skipan mála, svo að þeir fari ekki fram með of miklu ráðríki, sem að vísu allmörg dæmi sanna og löggjafanum ber að sjálfsögðu að gjalda varhug við. Ég hef verið þeirrar skoðunar um hríð, að hinir þjóðkjörnu þingfulltrúar, sem með völdin eiga að fara, hafi afhent embættismannastéttinni allt of mikið vald, sem hún að vísu hefur tekið vel við. En ég álít, að hið háa Alþ. þurfi að snúa nokkuð við á þeirri braut. Vil ég mega vænta þess, að þessi skoðun mín berist til eyrna embættismannanna, svo að þeir geti tekið til hver hjá sér, líka af því að ég álít, að við þurfum að senda þá út á landsbyggðina til starfa til þess að dreifa nokkuð valdinu. Má heita, að embættismönnum hér í henni Reykjavík sé nálega allt vald gefið í öllum málum landsins.

Í öðru lagi eru ákvæði II. kafla um læknishéruð mér þyrnir í augum. Nægir í því sambandi að benda á, að Vestfirðingar eiga til þriggja héraðslækna að sækja, í Hafnarfirði, á Ísafirði og til Akureyrar. Og ég verð að segja, að ég álít, að það þurfi töluverða hugmyndaauðgi til þess að láta sér slíkt til hugar koma, og ég hafði, eins og hv. meðnm. mínir vita, lagzt af nokkrum áhuga á, að þessi kafli yrði niður felldur. En ég tel þó til bóta ákvæði til bráðabirgða um frestun á framkvæmd hans. Og störfin, sem héraðslæknum eru ætluð, eiga að mínu áliti að mestu leyti að vinnast af starfandi læknum á hverjum stað, sem lagt er til í frv.

Í þriðja lagi hef ég verið mjög gagnrýninn á till. í frv. þess efnis, að lögð skuli niður læknissetur, sem setin hafa verið með ágætum um langa hríð og þeir, sem þjónustunnar hafa notið, eru í fyllsta máta ánægðir með. Þetta á alveg sérstaklega við um Suðurland og ýmsa staði þar, svo sem Hveragerði, Hellu, Stokkseyri og Eyrarbakka. Ég hef ástæðu til að ætla, að enn frekara samkomulag muni e.t.v. nást í þessu efni, og það háttar þann veg til, að ég hygg, að mestu leyti eigi þetta nær einvörðungu við á Suðurlandi. Þar er mest að vinna í þessum málum, og við getum þá sparað okkur mikil tilþrif, þar sem svo virðist sem þessum málum sé vel fyrir komið nú þegar, a.m.k. um hríð, þangað til Alþ. ákveður að breyta um og taka til þar höndum. Ákvæði til bráðabirgða voru þannig túlkuð fyrir mér, að ég áleit að þau mundu veita nokkra viðspyrnu gegn því, að þessi læknissetur yrðu niður lögð, en við nánari athugun kann svo ekki að vera. En eins og ég sagði, hygg ég og vænti þess, að við munum ná samkomulagi í þessu efni.

Í fjórða lagi hefur mér virzt nokkuð einsýnt, að samkv. frv. verði öll aðstaða landlæknis og verksvið hans rýrt að miklum mun og allmjög umfram það, sem ég hef álitið skynsamlegt. Ég geri ráð fyrir, að þetta eigi sínar orsakir að rekja til þess, að upphaflega hafi þetta frv. e.t.v. verið samið með það í huga, að landlæknisembættið yrði lagt niður, án þess að ég geti neitt um þetta fullyrt. Ég álít það óheppilega þróun, að í þessum málum sé að mestu aðeins einn strengur, sem allt liggur frá í örfárra hendur í rn. sjálfu. Rétt er, að 1. brtt. okkar á þskj. 557 er mikilvæg og er til þess sett, að staða landlæknis verði efld og treyst. En þá ber um leið að varast, að ákvæði laganna sjálfra hindri, að staða hans verði réttleg fundin, sbr. t.d. 6. gr., sem hv. 3. landsk. fór nokkrum orðum um, og vísa ég til þess. En ég vænti, að þetta komi til frekari athugunar í nefndinni.

Ýmis önnur atriði væri ástæða til að orðfæra, en eins og ég sagði, mun n. reyna að ná saman endum milli umr., og því get ég farið að stytta mál mitt. Ég vil þó eindregið taka undir það, sem kom fram í ræðu hv. 3. landsk, þm. um forgang, t.d. Vestfjarða, Norðausturlands, sér í lagi norðausturhluta Norðausturlands, og Austfjarða. Nú hef ég ekki nægilega þekkingu á því, hvort eðlilegt sé, að slíkt sé tekið fram í lagagr., en öllu varðar, að fram komi eindregin viljayfirlýsing við afgreiðslu málsins af hálfu þingsins. Öll forsenda fyrir þessu máli er a.m.k. upphaflega og hlýtur áfram að verða sú, að taka til þar höndum, sem nauðsyn er brýnust. Það er vissulega á þessum stöðum. Þetta á við um forgang til byggingar sjúkrahúsa og heilsugæzlustöðva. Ég vænti þess eindregið, að eindreginn vilji komi fram í þessu efni við afgreiðslu málsins, hvort sem það verður fest beint í lögum eða með öðrum hætti.

Ég hef að vísu ýmsar fleiri aths. fram að færa. T.d. hef ég haldið því fram í n., að ég hefði ekki nægjanleg rök fyrir því t.d., sem segir í 2. gr. um, að ráðuneytisstjóri heilbr: og trmrn. skuli vera læknismenntaður. Það kann þó að vera, að svo sé, og ég geri þetta ekki að stóru atriði, ég vil taka það skýrt fram. Það flögrar að mér, að það kynni e.t.v. að vera erfitt einhvern tíma að fá læknismenntaðan mann í slíkt starf. Það er kannske ástæðulaus ótti. Ég hafði í huga, að e.t.v. væri þetta til komið vegna þess, að nú skipar þetta læknismenntaður maður, sem ég hef heyrt, að skipi það með hinni mestu prýði, og það kynni af þeim orsökum að vera tekið inn sem lagaákvæði um menntun ráðuneytisstjórans. Eins og ég segi, vil ég ekki gera þetta að neinu stóratriði. Ég hreyfði þessu aðeins af því, að ég hef verið þessarar skoðunar í umr. í heilbr.- og trn. og mun taka það upp til umr. þar. Það er með þetta atriði eins og svo mörg önnur, að ég vænti þess, að við í n. getum orðið sammála um afgreiðslu þess. Mér er kunnugt um, að nokkrir, a.m.k. hv. formaður, hv. 2. þm. Reykn., hafa verið á andstæðri skoðun. Þar sem ég legg ekki mjög mikla áherzlu á þetta, geri ég að fyrra bragði ráð fyrir því, að ég væri til viðtals um það að láta niður falla tillögugerð til breytinga á þessu atriði.

Fleira mætti nefna. Ég hef áhuga á því, að staða yfirlæknis á sjúkrahúsi verði skilgreind nánar. Eins er mér tjáð, að sú skipan mála, sem er hér í Reykjavík varðandi borgarlæknisembættið, hafi gefizt vel og eigi sér fordæmi í öðrum löndum. Ég áskil mér enn fremur rétt til þess að athuga það nánar.

Fjölmargar umsagnir hafa borizt um málið, eins og fram hafa komið í umr., og læt ég hjá líða á þessu stigi málsins að vitna til þeirra. Það hefur verið gert af hv. frsm. og fleirum, en ég endurtek það, að ég álít mikilvægt, að lög um heilbrigðisþjónustuna nái fram að ganga. En það er sannfæring mín, að svo muni tæplega verða að þessu sinni, ef stjórnvöld halda fast fram þeirri stefnu, eins og nú hefur horft um hríð, að ljúka störfum Alþ. fyrir páskahelgi. Ég dreg ekki dul á, að nokkrir þm. hafa látið þá skoðun í ljós við mig, að það skipti ekki höfuðmáli, þótt enn dragist um hríð að setja þessi lög, og t.d. fitjað upp á því, að það mætti fá þingkjörinni n. þetta í hendur til athugunar fram til haustsins með sérstakri vísun til þess, að till. sé um, að þessi lög taki ekki gildi fyrr en 1. jan. 1974. Ég er ekki að gera þetta að minni till., ég legg áherzlu á, að þetta mál nái fram að ganga, en ég álít, að þingheimi þurfi að gefast kostur á rýmri tíma til afgreiðslu þess.

Ég hygg svo, að það sé ekki fleira, sem ég sé ástæðu til að gera að sérstöku umtalsefni nú við þessa umr., en mun þó víkja að þeim sérstöku atriðum öðrum, sem ég hef sett fram í n. og kann að hafa aths. að gera við, við 3. umr. málsins.