07.04.1973
Neðri deild: 81. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3188 í B-deild Alþingistíðinda. (2636)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Hæstv. heilbrmrh. ræddi um það, að vinnubrögð í þingi væru ekki góð að því leyti, að við slægjum löngum slöku við, en síðan væri málum mokað út af mikilli snerpu undir lokin og fengju þá kannske ekki þá nauðsynlegu meðferð, sem ella þyrfti að vera. Ég er honum mjög svo sammála um þetta. Sannleikurinn er sá, að við höfum haft það fyrir augum núna undanfarnar vikur, að þingið hefur eiginlega lurfazt áfram með engum mannskap. Þm. hafa ekki gefið sér nægan tíma til fundarsetu og slegið á sig skrópasótt, að kalla verður, því miður. Og það er ákaflega þreytandi, þegar þarf að afgreiða mál og það eru ekki nægjanlega margir viðstaddir til þess að koma fram atkvgr. Á þessu verður að verða breyting til batnaðar. Ég segi: það er þreytandi fyrir þá, sem vilja leggja það á sig, sem þeir telja sig bera skyldu til, að sitja þingfundi og taka þátt í afgreiðslu mála. Ég legg mikla áherzlu á, að hæstv. forsetar vorir beiti sér fyrir gagngerum breytingum til hins betra í þessu efni og um allt skipulag á störfum þingsins.

En ég lét mjög huggast undir ræðu hæstv. heilbrmrh. og aðallega af tvennum ástæðum: Í fyrsta lagi vegna yfirlýsingar hans varðandi stöðu landlæknis, sem ég fagna mjög, og eins því, sem fram kom um forgang þeirra héraða. sem við erfiðastar aðstæður eiga að etja varðandi heilbrigðisþjónustuna. Og eins og ég tók fram, taldi ég mig ekki geta úr því skorið hvort slíkt ætti heima í lögum. Ég leyfi mér að efast um að það sé eðlilegt, að slík ákvæði um forgang eigi heima í lögum. En yfirlýsingar, eins og hann gaf og aðrir hv. þm. hafa tekið mjög undir í sínum ræðum, eru alveg nægjanlegar. Þá verður sá eindregni vilji nægjanlegur til þess að veita þann forgang, sem þarf, af því að það hlýtur alltaf eftir hendinni að koma til kasta þingsins um afgreiðslu fjár til þessara framkvæmda. Og eins og ég tók fram, er ég bjartsýnni en ég hef að jafnaði verið um þetta mál og vil leggja mitt af mörkum, bæði í n. og í þingi, til þess að þetta mál nái fram að ganga, enda þótt ég hverfi ekki frá þeirri skoðun minni, að mér er stórlega til efs, að þau miklu mál, bæði þetta og mörg önnur, sem nú liggja fyrir í þingi, geti fengið frambærilega afgreiðslu á þeim skamma tíma. sem nú virðist vera til stefnu.