09.04.1973
Efri deild: 85. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3193 í B-deild Alþingistíðinda. (2648)

235. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 552 er frv. til l. um breyt. á l. nr. 59 frá 28. maí 1969, um tollheimtu og tolleftirlit. Það eru tvö atriði, sem um er að ræða að breyta með þessu frv.

Lagt er til, að tekin verði inn ný mgr. í 69. gr. l. um tollheimtu og tolleftirlit, sem heimili viðurlög við því atferli að upplýsa ekki um afdrif vara, sem samkv. staðfestum skýrslum tollyfirvalda erlendis hafa farið um borð í viðkomandi far. Við hefur borið, að tollyfirvöld erlendis hafa gefið hérlendum tollyfirvöldum nákvæmar upplýsingar um mikið magn af hátollavöru, sem farið hefur um borð í ákveðin íslenzk kaupför, en þessi varningur hefur ekki fundizt né á nokkurn hátt verið gerð grein fyrir því, hvað af honum hafi orðið. Talið er, að heimild til ákvörðunar viðurlaga í slíkum tilfellum sé vafasöm, og jafnaugljóst er, að nauðsyn ber til að upplýsa mál af þessu tagi til hlítar. Mundi ákvæði þetta einkum koma að notum, þegar um meiri háttar vörumagn væri að ræða. Þetta er fyrra atriði frv., og það gerir sem sagt ráð fyrir því, að hægt sé að koma við viðurlögum, ef ekki er upplýst um vöru, sem sannað er af erlendum tollyfirvöldum, að farið hafi í skip eða far til landsins, án þess að það hafi fundizt, þegar hingað var komið.

Samkv. gildandi lögum er tollyfirvöldum heimilt að ákveða sekt fyrir ólöglegan innflutning, ef brot er skýlaust sannað og ætla má, að sekt verði ekki hærri en sem nemi 6—10 þús. kr., en vegna verðlagsbreytinga er lagt til í 2. gr. frv. að hækka sektarmark þetta í 20 þús. En heimild þessi hefur gefizt vel og létt verulega álag á dómstólum, með því að ekki er þá nauðsynlegt að vísa smærri brotum almennt til meðferðar dómstóla. Á sama hátt er lagt til að hækka verðmæti eigna, er tollyfirvöld mega gera upptækar án atbeina dómstóla, úr 50 þús. í 100 þús. kr. Hér er um að ræða, að þessi ákvæði séu samræmd því verðlagi, sem nú er hér. Ég held, að það sé augljóst, að hér er um að ræða nauðsynleg framkvæmdaatriði, sem ég vona, að hv. þdm. geti fallizt á.

Ég leyfi mér með tilliti til þess, hvað á þing er liðið, að fara þess á leit við hv. d., að hún hraði þessu máli, svo að það nái fram að ganga á þessu þingi.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn.