09.04.1973
Efri deild: 85. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3195 í B-deild Alþingistíðinda. (2651)

237. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála, að þetta frv. er í beinu samhengi við frv. um breyt. á l. um hæstarétt, sem var til umr. hér í hv. d. fyrir fáum dögum. Í sambandi við það frv. flutti ég brtt., sem var ætlað það hlutverk að tryggja þau efnisatriði, sem í þessu frv. felast, þ.e.a.s. að engir starfsmenn ríkisins geti samtímis notið fullra launa og lífeyrisréttinda í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Við umr. um frv. um hæstarétt lýsti ég því yfir, að efni þeirrar brtt., sem ég flutti þá, ætti betur heima í l. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en ítrekaðar tilraunir mínar í allshn. til að tryggja þá meðferð málsins höfðu ekki tekizt, svo að eftir var sá einn kostur, sem ég valdi. Eftir að ég flutti brtt. mína, hefur þetta frv. verið samið og lagt fram. Ég kem með engu móti auga á, hvað hefði þurft að koma í veg fyrir, að ámóta frv. og það, sem hér liggur fyrir, hefði verið flutt miklu fyrr, svo að afgreiðsla frv. um breyt. á l. um hæstarétt hefði ekki þurft að dragast svo lengi sem raun varð á. Þegar allt kom til alls og loks var tekið á málinu, tók þetta ekki langan tíma.

Ég fagna því, að þetta frv. hefur nú komið fram og tel, að brtt. mín hafi borið árangur og með samþykkt þessa frv. verði þeim tilgangi náð, sem ég hafði í huga með flutningi þeirrar till. Vissulega á efni hennar betur heima í l. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, eins og ég tók fram á dögunum. Ég mun því styðja að samþykkt þessa frv. og, þegar þar að kemur, draga til baka till. mína við frv. til 1. um breyt. á l. um hæstarétt, þegar séð verður, að þetta frv. verður samþ. samtímis, þar sem flutningur þeirrar till. hefur náð tilgangi sínum og samþykkt þessa frv. tryggir þau efnisatriði, sem þar koma fram.

Ég vil svo aðeins að lokum taka undir með hæstv. ráðh., að brýna nauðsyn ber til, að lög um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna verði endurskoðuð til þess að afnema einnig þá reglu, sem nú gildir, að einstakir aðilar geti fengið lífeyri úr mörgum lífeyrissjóðum samtímis. Slík endurskoðun tekur lengri tíma en svo, að hún geti haldizt í hendur við þá takmörkuðu breytingu, sem hér er lagt til, að gerð verði vegna frv. um breyt. á l. um hæstarétt.