09.04.1973
Efri deild: 85. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3203 í B-deild Alþingistíðinda. (2657)

238. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það eru ekki mörg atriði, sem ég óska eftir að ræða við þessa 1. umr. um frv. til l. um stofnlánadeild landbúnaðarins, sem hér liggur fyrir, en það eru örfá atriði, sem mig langar að minna á.

Í fyrsta lagi vil ég minna á, að það eru tæplega liðin tvö ár, síðan gerð var gagnger endurskoðun á l. um stofnlánadeild landbúnaðarins. Þau lög voru samþ. 5. apríl 1971, og áttu menn því tæplega von á því, að jafnumsvifamikil breyting yrði gerð á þeim lögum og nú hefur sýnt sig í þessu frv.

Langveigamesta breytingin frá því, sem er í eldri l., er, að öll ákvæði um Landnám ríkisins eru felld niður. Þau eru ekki framar í þessum lagabálki. Ég skal ekki að svo komnu máli fella neinn dóm um, hvort það er gert með réttu eða röngu. En hitt vil ég minna á, að um leið og lagt er til, að sá kafli sé felldur niður, þó að hann eigi að vísu að vera í gildi til næstu áramóta, eigum við engan veginn víst í dag, að komin verði í gildi lög 1. jan. 1974, sem komi í staðinn fyrir þau, sem lagt er til, að falli úr gildi 1. jan. 1974. Ég verð að segja, að mér finnst óþarfi að taka ákvörðun um það nú þegar, að þau skuli skilyrðislaust felld úr gildi 1. jan. 1974, eins og gert er ráð fyrir hér. Þó að stjórnvöld hafi á því fullan hug að koma fram þeim lagabálkum, sem enn hafa ekki birzt hér á Alþ., jarðalögum, sem sennilega eiga að taka við því hlutverki, sem kaflanum um Landnám ríkisins er gert að annast í eldri l., er engan veginn víst, að til þess gefist tóm á haustþinginu, þó að ætlazt sé til þess nú. Ég vildi aðeins benda á þetta við 1. umr. til athugunar við afgreiðslu þessa máls.

Ég verð að segja það, að í jafnveigamiklu máli og því, sem hér er til umr., er að sjálfsögðu mjög varhugavert, hversu seint frv. kemur fram og hversu lítill tími gefst til að kanna það og ræða í n., ef við það áform verður staðið að ljúka þingstörfum fyrir páska. Ég verð að segja það, að ég á mjög erfitt með að svo komnu máli að tjá mig að nokkru leyti um þetta frv. á þessu stigi. Ég leyfði mér þann munað að skjótast heim til mín á laugardagskvöldið og kom aftur í gærkvöld, og ég sá þetta frv. fyrst í morgun. Það er tekið til 1. umr. samdægurs, svo að tími gefst ekki til að átta sig á því til fulls, hverjar breytingar eru hér gerðar. Ég er ekki á neinn hátt að mæla gegn einu eða neinu, sem fram er sett í þessu frv., en ég get ekki stillt mig um að benda á, að það er gert ráð fyrir, að framlög ríkisins til stofnlánadeildar hækki nokkuð á þessu ári. Ég geri ráð fyrir, að tölur, sem upp eru gefnar með frv., séu miðaðar við ársgrundvöll, þannig að framlag ríkisins á árinu 1973 verði 73 millj. kr. á móti framlögum af bændaskatti og neytendaskatti, sem einu sinni voru kallaðir svo plús 25 millj., sem er fast framlag. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1973 eru ætlaðar 30 millj. til þessara hluta. Það verður að sjálfsögðu einhvers staðar að ná þessum halla, sem þarna er á, og dugir ekki að beita 15% niðurfærslunni á þann lið, ef á að standa við þau lög, sem hér er verið að samþykkja.

Um leið og þetta atriði er rætt, er ekki úr vegi að rifja það upp, að þegar stofnlánadeild landbúnaðarins var raunverulega stofnuð 1961, umr. urðu um hana 1961, var þar lagt til, að lagður yrði sérstakur skattur á búvöruframleiðslu bænda, sem legðist til stofulánadeildarinnar, um leið og nokkurt gjald var lagt á söluna til neytenda. Ég minnist þess, að við umr. hér á Alþ. fóru framsóknarmenn mjög háðulegum orðum um þessa stefnu, sem þá . var tekin upp, og kölluðu þennan skatt bændaskatt, sem lagður væri á þá óverðuga og á mjög ósanngjarnan hátt. Sumir þeirra reiknuðu út, að með því að þessi skattur væri innheimtur af bændum, gengjust þeir undir að borga allt að 16% vexti af lánum sínum við stofnlánadeildina.

Við síðustu endurskoðun á stofnlánadeildarl., sem var gerð, eins og ég sagði áðan, 1971, var ákveðið að lækka þetta 1% gjald í áföngum, það væri 1 % til ársins 1975 og lækkaði svo á 5 ára fresti um 0.25%. Nú er gert ráð fyrir því, að þetta gjald haldist 1% til ársins 1980. Ég verð að segja, að það er kaldhæðni örlaganna, að þeir menn, sem gagnrýndu það harðast að leggja þennan skatt á bændur, skuli verða til þess að framlengja hann og hækka frá því, sem búið var að ákveða. En það má vera, að þeir hafi nú gert það, sem viðreisnarstjórnin vanrækti að þeirra dómi, að ráðfæra sig við bændur um það, hvort réttmætt væri að leggja þennan skatt á. Ég man eftir því, að það voru haldnar um það margar ræður, að hér hefði verið gengið í berhögg við vilja bændanna. Sennilega er það svo, að nú sé það vilji bændanna að fá þarna skatt á sig og fá hann framlengdan frá því, sem verið hefur.

Þessu frv. verður væntanlega vísað til landbn., sem ég á sæti í, og mun ég því ekki að þessu sinni gera tilraun til þess að kryfja þetta mál frekar til mergjar, en hef aðstöðu til þess í n. Ég mun að sjálfsögðu nota mér það, eftir því sem tími vinnst til, sem mér sýnist, að sé reyndar orðinn æðiskammur.