09.04.1973
Efri deild: 85. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3207 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

238. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Í fyrsta lagi vil ég taka það fram, varðandi Landnám ríkisins, að ég minntist ekki á það atriði í mínu máli áðan og vil ekkert um það fullyrða, hvort það sé til bóta eða ekki að fella það niður úr stofnlánadeildarlögunum. Það var hins vegar í erindisbréfi okkar frá hæstv. landbrh. að n. var falið að gera till. með hliðsjón af því, að starfsemi landnámsins yrði felld niður, og því var það gert. Ég hef ekki gert um það neinn sérstakan ágreining.

Í annan stað vil ég taka fram, að það er enn þá margt óunnið í sambandi við þessi mál og þetta frv. segir ekki nema hálfa sögu. Það vantar í lög ýmis ákvæði, sem óhjákvæmilegt er að hafa þar, m.a. hvernig á að fara með viss verkefni Landnáms ríkisins, sem þarna er lagt niður. Það mun ætlunin að setja sérstök jarðalög, eftir því sem ég bezt veit, og sum þessara ákvæða eða atriða, sem mönnum kann að finnast snubbótt, að hverfi úr lögunum allt í einu, eru fyrirhuguð í þessum væntanlegu jarðalögum. Nú vil ég taka það fram, að ég hef ekki séð það frv., og ég get mjög tekið undir, að það er mjög bagalegt, að þetta mál skuli vera svona seint á ferðinni hér, hefði raunar getað verið tilbúið fyrr, en látum það gott heita. Ég geri ráð fyrir því, að ein ástæðan fyrir því, að það var ekki tilbúið fyrr, sé sú, að það voru til meðferðar fjárhagsvandamál fleiri stofnsjóða. Ég geri ráð fyrir, að ríkisstj. hafi viljað hafa einhverja hliðsjón af þessum málum hverju fyrir sig, þegar ákvörðun var tekin um að veita fé úr ríkissjóði til sjóðanna.

Þetta taldi ég rétt, að kæmi hér fram, vegna þess að við yfirlestur frv. í n. hygg ég, að hv. landbn. rekist á ýmis göt, sem hún hæglega getur stungið fingri sínum í, þar sem eru niður felld verkefni og viðfangsefni, sem áður voru í lögum og þarf að sinna, en ekki er að finna í þessu frv. Þetta tel ég nauðsynlegt að komi fram. Að öðru leyti skal ég ekki lengja umr. um málið. Þetta kemur til athugunar á sínum tíma eins og hér var bent á af hv. 6. þm. Sunnl. Það er auðvitað æskilegt að landbn. athugi málið fyrst, og það verður þá aðstaða til að ræða það betur, þegar þeirri meðferð er lokið.