09.04.1973
Efri deild: 85. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3211 í B-deild Alþingistíðinda. (2667)

124. mál, vátryggingarstarfsemi

Frsm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Heilbr: og trn. hefur fjallað um frv. til l. um vátryggingarstarfsemi, en frv. þetta er komið frá Nd. N. hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt frv., en einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að fylgja eða flytja brtt., ef fram koma.

Hér er um mikinn lagabálk: að ræða er skiptist í 5 kafla. Í fyrsta lagi gildissvið, í öðru lagi vátryggingarfélög, í þriðja lagi um skráningu og tilkynningarskyldu vátryggingarfélaga, í fjórða lagi um eftirlit með vátryggingarfélögum, og í fimmta lagi um vátryggingarfélög, er starfa við gildistöku laga þessara. Ég tel ekki þörf á því að ræða frv. þetta hér náið, þar sem ráðherra er nýbúinn að mæla fyrir því hér í d. En í grg. með frv. segir svo:

„Vátryggingar skipta miklu máli í nútíma þjóðfélagi og varða flesta, ef ekki alla þegna þjóðfélagsins. Um hendur vátryggingaraðila rennur mjög mikið fjármagn. Það er þjóðfélagsnauðsyn, að vátryggingar séu reknar á heilbrigðum grundvelli og gætt sé hagsmuna vátryggingartaka og vátryggðra. Vátryggingartakar og vátryggðir hafa yfirleitt ekki aðstöðu til að meta fjárhagsaðstöðu þeirra vátryggingaraðila, sem þeir skipta við, og gera sér í raun grein fyrir þeim kjörum, sem þeir semja um. Af þessum ástæðum er nauðsynlegt, að ríkisvaldið taki að sér að hafa eftirlit með starfsemi vátryggingarfélaga og fái rúmar heimildir til að taka í taumana, ef eitthvað fer úrskeiðis“

Hér er áreiðanlega ekki of djúpt tekið í árinni. Nauðsynlegt aðhald og eftirlit með því, að hlutur almennings sé ekki fyrir borð borinn í þessum efnum, er tvímælalaust til bóta. Eins ber hinu opinbera að reyna að sjá svo til, að hvort tveggja sé tryggt, að iðgjöld félaganna séu hagkvæm og sanngjörn og að fyrirgreiðslan við tryggingartakann sé sem réttlátust.

Ég skal ekki fara hér út í einstök atriði, en fagna ber sérstaklega tryggingaeftirlitinu og vona, að það verði virkt og hafi vakandi auga með allri starfsemi tryggingarfélaganna, því að ekki mun þar sums staðar af veita.

Ég vil svo ítreka samþykki n. við þetta frv.