01.11.1972
Neðri deild: 9. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

47. mál, Iðnlánasjóður

Pétur Pétursson:

Herra forseti: Ég kom aðeins til þess að lýsa stuðningi mínum við það frv., sem hér liggur fyrir, um eflingu iðnlánasjóðs. Mér fannst koma fram hjá hæstv. iðnrh., að hann teldi kannske ekki rétt að hafa þennan hátt á, heldur að fjáröflun yrði hagað á annan hátt. Ég skal ekki neitt fullyrða um það, að sá annar máti sé ekki eins góður og þessi. En kjarni málsins er sá, að mér fannst hæstv. iðnrh. vera sammála því, að það þyrfti að efla iðnlánasjóð verulega, eins og hér er lagt til, hvort sem það er gert á þennan hátt eða annan. Þetta er kjarni málsins. Og það er ekki bara iðnlánasjóður, heldur fjármögnun iðnaðarins yfirleitt.

Ég skal ekki blanda mér á nokkurn hátt inn í þær umr., sem hér hafa orðið um stefnumörkun fyrrv. ríkisstj. eða iðnbyltingu núv. ríkisstj., en mér hefur fundizt stundum nú upp á síðkastið, að það sé samt svo enn þá, að iðnaðurinn sé flokkaður sem einhvers konar annars flokks atvinnuvegur. Og það er þetta, sem ég kann ómögulega við. Hæstv. iðnrh. sagði, að iðnaðurinn væri höfuðatvinnugrein landsmanna. Þetta er náttúrlega alveg rétt. En enn eru nú ekki komin þau loforð, sem ágæt lög frá síðasta þingi gerðu ráð fyrir. (Gripið fram í: Loforðin eru komin.) Loforðin eru komin, framkvæmdirnar hafa ekki komið. Það er búið að taka mánuði að koma einhverjum reglugerðum á varðandi þetta og virðist vera býsna þung þraut. Ég tel ekki, að það sé hægt að flokka iðnaðinn sem sams konar atvinnuveg og fiskveiðar og landbúnað, fyrr en hann er í nákvæmlega sömu tröppu, að því er varðar afurðalán til sinnar framleiðslu.

Ef ég mætti bara nefna eitt lítið dæmi um áhugann fyrir útflutningi iðnaðarins, þá sé ég í frv. til fjárl. nú, að gert er ráð fyrir, að Útflutningsmiðstöðin, sem að mínu mati hefur unnið ágætt starf, á að fá sömu upphæð og hún fékk í fyrra og hittiðfyrra. Og þetta getur náttúrlega ekki með nokkru móti gengið. Það þarf enginn að segja mér, að iðnaðurinn eflist að neinu ráði, fyrr en útflutningur á honum getur orðið verulegur. Það var tekið mjög myndarlega á útflutningsmálum lagmetisiðnaðarins á síðasta þingi, og alveg það sama þyrfti að gerast í sambandi við almennan iðnað. Það er ekki nóg að tala fallega um þetta og gera till. um iðnbyltingu, ef allir þættir þessara mála eru ekki látnir fylgjast að. Og markaðsmálin eru sannarlega þáttur, sem þarf að taka myndarlega á. Ég held nefnilega, að iðnaðurinn mundi aukast og vaxa ótrúlega mikið, ef hann hefði sæmilegt fjármagn í iðnlánasjóði og ef hann fengi afurðalán, rekstrarlán á svipaðan hátt og aðrir atvinnuvegir fá. Ég held m.ö.o., að af fjármagnsvöntun hafi stafað mestu erfiðleikarnir á undanförnum árum. Nú er það að vísu svo, að það er farið að þrengja dálítið að hjá iðnaðinum eins og sjálfsagt öðrum atvinnuvegum, og það verður kannske dálítið erfitt að reka ýmis iðnaðarfyrirtæki nú á næstu missirum. En hvað sem því líður, ef lánakerfi iðnaðarins kæmist í það horf, sem þarf og hefur verið lofað að verði, þá álít ég, að mörg vandamál íðnaðarins mundu leysast og iðnaðurinn mundi dafna á ótrúlega skömmum tíma.

Þessi útflutningsmál iðnaðarins eru að mínu mati ekki nærri nógu mikið í sviðsljósinu. Ef við ætlum að efla léttan iðnað, sem við og ætlum, þá verðum við að vinna skipulegt starf í sambandi við markaðsmálin í heild. Það er verið að gera þetta í sambandi við lagmetisiðnaðinn, og ég geri mér miklar vonir um, að þar geti orðið verulegur árangur. En iðnfyrirtækin geta hvorki þetta né neitt annað, ef þau fá ekki þá fyrirgreiðslu, sem þau eiga að fá og þeim ber, og ég vil leggja áherzlu á, að hæstv. ríkisstj. taki nú verulega til endurskoðunar, hvort það er ekki rétt að hækka dálítið framlagið til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins.