09.04.1973
Efri deild: 85. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3215 í B-deild Alþingistíðinda. (2679)

154. mál, ríkisreikningurinn 1970

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1970 var tekið til athugunar í fjh: og viðskn. Þm. hafa haft með höndum alllengi ríkisreikninginn fyrir árið 1970 og hafa því haft aðstöðu til að kynna sér athugasemdir yfirskoðunarmanna, svör rn. við þeim aths. og till. yfirskoðunarmanna, eftir að þeir höfðu fengið svörin og tekið þau til athugunar. Það er því í sjálfu sér óþarft að fara um þetta mörgum orðum. En ég vil aðeins leyfa mér að rifja upp, hvaða tökum yfirskoðunarmenn hafa tekið á þessu máli. Þeir hafa gert aths. við reikninginn í 22 liðum. 1. liðurinn er þó, að mér virðist, þannig, að ekki er í sjálfu sér kallað eftir svörum við honum, heldur felur hann í sér skýrslu um viðskipti innheimtumanna við ríkissjóð samkv. ríkisbókhaldi í árslok 1970. Að öðru leyti má flokka till. eða niðurstöður yfirskoðunarmanna um 21 efnisatriði þannig: Þeir telja, að 8 efnisatriði séu upplýst að fullu með svari rn., og sums staðar í þeim atriðum er tekið fram, að ekki þurfi um að bæta. Um 3 atriði er niðurstaðan, að þeim ábendingum, sem yfirskoðunarmenn gerðu, hafi verið fullnægt. Um eitt atriði er niðurstaðan sú, að eftir atvikum megi svo búið standa. En yfirskoðunarmenn afgreiða 8 efnisatriði þannig, að þeir segja, að þau séu til athugunar. Þá skilst mér, að í því felist kannske fyrst og fremst, að það sé til athugunar fyrir framkvæmdavaldið eftirleiðis um afgreiðslu mála. Það er aðeins eitt atriði, sem er afgreitt þannig af hendi yfirskoðunarmanna að vísa málinu til ferkari ákvörðunar og aðgerða Alþ. Þetta atriði felur í sér athugasemdir og nokkra gagnrýni, sem yfirskoðunarmenn hafa gert í sambandi við fjárfestingu hjá Ríkisútvarpi eða sjónvarpi. Benda þeir á, að hjá þeirri stofnun hafi verið lagt í nokkuð kostnaðarsamar endurbætur eða fjárfestingu í sambandi við húsnæði, og er það afgreitt með þessum ályktunarorðum.

Þó að ég bendi á þessi atriði, er það samróma álit fjh: og viðskn. að leggja til, að frv. þetta um samþykkt á ríkisreikningnum 1970, verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir. Málið hefur áður gengið í gegnum hv. Nd. Ég hef athugað nál., sem þar var gefið út, og niðurstaða n. í Nd. var alveg á sama veg og hér er lagt til, enda málið afgr. þar, að ég ætla, með samhljóða atkvæðum.