09.04.1973
Efri deild: 86. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3217 í B-deild Alþingistíðinda. (2688)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Frsm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Mér þykir rétt, að það komi fram, að í iðnn. þessarar d. var rætt um þann möguleika að fela stjórn annars sjóðs að fara með málefni þessa nýja iðnrekstrarsjóðs, sem lagt er til, að settur verði á stofn. Ekki varð samkomulag um það, og því flutti n. ekki slíka brtt. eins og nú er fram komin frá hv. þm. Geir Hallgrímssyni o.fl. Ég vil segja fyrir mitt leyti, að ég tel vafasamt að breyta setu í stjórn þessa sjóðs eins og þar er gert ráð fyrir. Í stjórn iðnlánasjóðs sitja 3 menn. Þar er einn án tilnefningar, sem, sem skipaður er af iðnrh., einn tilnefndur af Landssamhandi iðnaðarmanna og einn tilnefndur af Félagi ísl. iðnrekenda. Í stjórn þess sjóðs, sem hér er nú til umr., er gert ráð fyrir að sitji 5 menn. Einn er tilnefndur af iðnrh. án tilnefningar, en auk hans er gert ráð fyrir mönnum tilnefndum af S.Í.S., iðnþróunarsjóði, Alþýðusambandi Íslands og Félagi ísl. iðnrekenda. Með því að setja meðferð þessa sjóðs undir iðnlánasjóð eru fyrst og fremst felldir á brott menn tilnefndir af S.Í.S. og iðnþróunarsjóði.

Ég tel óumdeilanlegt, að S.Í.S. hafi þarna fulltrúa, og sömuleiðis tel ég æskilegt, að iðnþróunarsjóður hafi mann í stjórn þessa sjóðs, sökum þess að verkefni iðnþróunarsjóðs og iðnrekstrarsjóðs eru að mörgu leyti mjög svipuð. Ég fyrir mitt leyti tel alls engin rök fyrir því, að þessu sé breytt, og alls ekki, að með þessu móti verði endurskoðun laganna auðveldari. Það er þegar búið að samþ. ákvæði til bráðabirgða, sem gerir ráð fyrir því, að l. verði tekin til endurskoðunar hið fyrsta, ásamt öðrum l. um lánasjóði iðnaðarins. Sýnist mér því ekkert að óttast að þessu leyti og ekki ástæða til að hafa þessa bráðabirgða meðferð á málefnum iðnrekstrarsjóðs. Ég vildi fyrir mitt leyti mæla gegn því, að sú brtt. hljóti samþ.