01.11.1972
Neðri deild: 9. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

47. mál, Iðnlánasjóður

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Ég held, að það verði nú naumast sagt, að hv. síðasti ræðumaður hafi lyft þessum umr. á hærra stig, og ég nenni nú eiginlega ekki að pexa við hann á þann hátt, sem hann viðhafði í sinni ræðu.

Því var haldið fram, bæði af hv. 1. þm. Reykv., Jóhanni Hafstein, og honum, að ég hefði rangfært fyrri ummæli þeirra. Að málflutningi, tóni og viðhorfum hv. þm. Jóhanns Hafsteins eru nú hér á hinu háa Alþ. ákaflega mörg vitni, og ég er sannfærður um, að þessi vitni geyma í huga sínum minningarnar um stefnu þessa hv. þm., og að ummælum hv. þm. Eyjólfs Konráðs hafa vafalaust verið vitni, sem skiptu nokkrum tugum þúsunda í landinu, og ég held, að það sé ákaflega erfitt að má út þá persónulegu endurminningu verulegs hluta landsmanna með neinum orðum, sem þessi hv. þm. segir hér núna. Þá tók öll þjóðin eftir því, hvað hann var að boða og það tók öll þjóðin eftir því, hvert var stefnt af fyrrv. ríkisstj. Ég er alveg sannfærður um, að það var einmitt þessi stefna, þessi ótrú á getu okkar Íslendinga til að byggja upp atvinnuvegi, sem við ættum sjálfir og réðum yfir sjálfir, sem var meginástæðan fyrir því, að viðreisnarflokkarnir töpuðu meiri hluta sínum í síðustu kosningum. Ég er alveg sannfærður um, að þetta var meginástæðan. Hitt má vel vera, að þessir menn læri af reynslunni, og vissulega bæri að fagna því.

Ég vil leiðrétta nokkur ummæli, sem fram komu hjá hv. síðasta ræðumanni. Hann sagði, að ég hefði boðað, að næst ætti að byggja álbræðslu á Íslandi í samvinnu við Alusuisse. Þetta hef ég aldrei boðað. Ég átti viðræður við forustumenn álhringsins, m.a. um það, að ég hefði með reglugerð sett þau fyrirmæli, að koma ætti upp hreinsitækjum í álbræðslunni í Straumsvík. Það er eina álbræðsla Alusuisse í heiminum, sem þeir starfrækja án þess, að lágmarksþrifnaðar sé gætt. Þessi reglugerð hefur verið sett, og ég átti þessar viðræður við forustumenn Alusuisse, m.a. til að leggja á það þunga áherzlu, að þetta fyrirtæki yrði að hlíta þessari reglugerð eins og önnur fyrirtæki á Íslandi. Einnig í þessu birtist ákaflega greinilega munurinn á stefnu núv. ríkisstj. og þeirrar fyrrv., því að í samningum við álhringinn voru sannarlega gerðir margir aðrir hlutir en þeir að fallast á raforkuverð, sem sannanlega nær ekki tilkostnaðarverði. Það var einnig samið um þetta atriði með hreinsitækin, og það var samið um, að ágreiningsefni milli íslenzkra stjórnarvalda og þessa fyrirtækis skyldu útkljáð, ekki af íslenzkum dómstólum, eins og öll önnur fyrirtæki á Íslandi verða að sjálfsögðu að una, heldur af alþjóðlegum gerðardómi, og það er ekki hægt að hugsa sér meiri lítillækkun en þáv. ríkisstj. gerði sig seka um með því að semja um atriði eins og þetta. Ég gerði einnig Alusuisse grein fyrir því, að núv. ríkisstjórn, hefði tekið upp þá stefnumörkun, að fyrirtæki, sem kynni að verða komið upp í orkufrekum iðnaði, yrðu að vera í eigu íslendinga að meiri hluta til og lúta íslenzkum lögum í einu og öllu. Og þá kom það í ljós, að þeir sögðust vera reiðubúnir til þess að ræða við okkur á þeim forsendum. Þeir sögðust vera reiðubúnir til þess að ræða það við okkur, hvort við teldum hagkvæmt, að byggð yrði önnur álbræðsla með þessari skipan, sem Íslendingar ættu að meiri hluta til. Þetta var þeirra hugmynd. Þetta var ekki mitt tilboð. Og ég hef ekki gert neinum aðila tilboð í þessu sambandi.

Hins vegar hef ég unnið að því að afla sem gleggstrar vitneskju um þá valkosti, sem okkur kunna að bjóðast á þessu sviði, og það kemur í ljós, að þessir valkostir eru ákaflega margir. Það verður að vinna að því á næstunni að vega og meta, hvaða valkostir okkur kunna að henta bezt út frá okkar eigin hagsmunum. Eftir því sem ég lít á, þá sýnist mér ég vera sammála hv. þm. Eyjólfi Konráði Jónssyni um, að það, sem virðist vera einna álitlegast nú, er málmblendiverksmiðja, sem gæti verið í eigu Íslendinga algerlega, og svo að sjálfsögðu sjóefnaverksmiðja á Reykjanesi. Mér sýnist, eins og nú standa sakir, þessar líkur vera nærtækastar, en auðvitað verður að kanna þetta mál miklu betur, áður en hægt er að taka einhverjar ákvarðanir í því, en engu að síður verður að gera upp hug sinn um þetta efni innan ekki allt of langs tíma. Á þessum vetri, mundi ég ætla.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð sagði hér rétt einu sinni, að ég hefði baldíð því fram hér á þingi, að Búrfellsvirkjun mundi drukkna í ísvandamálum. Ég gerði grein fyrir því hér á þingi, að það væru ekki reiknaðar inn í tilkostnað Búrfellsvirkjunar óhjákvæmilegar aðgerðir til þess að afstýra mjög alvarlegum ísvandamálum við þessa virkjun. Ég benti á, að það yrði að leysa þennan vanda, og það hefur verið unnið að því að leysa hann síðan. Það hefur verið gert með sérstökum skolunarútbúnaði, sem ekki var reiknað með í upphafi, og það hefur sérstaklega verið gert með hinum miklu miðlunarframkvæmdum í Þórisvatni núna. En ég benti á, að tilkostnaðinn við þetta yrði að reikna inn í dæmið, þegar verið væri að reikna út kostnaðarverð á raforku frá Búrfellsvirkjun, og með því að reikna þennan tilkostnað inn í dæmið, þá kæmi í ljós, að þeir 22 aurar, sem álbræðslan borgar, eru undir kostnaðarverði.

Hv. þm. minntist einnig á afstöðu mína til EFTA. Ég vil gjarnan skora á hv. þm. að lesa þær ræður, sem ég flutti um aðildina að EFTA. Uggur minn í því sambandi var allur bundinn við þau áform fyrrv. ríkisstj. að hagnýta EFTA-samninginn til þess að laða hingað erlend fyrirtæki. Á þetta lagði ég megináherzlu í öllum mínum ræðum, að þarna teldi ég stóru hættuna vera. Þetta er ekkert, sem við neyðumst til þess að gera, en íslenzk stjórnvöld gátu gert þetta, og viðreisnarstjórnin hefði gert þetta, ef hún hefði verið áfram við völd.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð sagði, að ég hefði sagt, að heimsmarkaðsverð á raforku væru 35 aurar. Það hef ég aldrei sagt. Ég sagði, að útreiknað verð á raforku frá Sigölduvirkjun væra 4 millj., en frá stórum kjarnorkuverum, sem nú er verið að byggja og verða meginuppspretta raforku, þar er verðið hvorki meira né minna en 7–8 mill. Þessir ágætu viðreisnarherrar héldu langar ræður um það, að við værum að missa af strætisvagninum, við yrðum að hagnýta orku fallvatna okkar sem allra, allra fyrst, því að annars stæðum við uppi með orku, sem við gætum ekki notað. Ég hélt því þá fram, að þetta væru algerlega rangar kenningar; og reynslan hefur staðfest þetta. (Gripið fram í:) Ekki man ég nú eftir því). Nei, en ég get ákaflega vel bent hv. þm. á það, að ég vék margsinnis að þessu. Ég vék t.d. að þessu, man ég var, á umræðufundi, sem ég átti með hv. þm. Eyjólfi Konráði Jónssyni á Hótel Borg á vegum Stúdentafélags Reykjavíkur. Þar ræddum við nákvæmlega þetta atriði, og ég vefengdi mjög þessar kenningar, enda hefur reynslan sannað, að þær eru alrangar. Verðlag á raforku og orku í heiminum hefur hækkað mjög stórlega að undanförnu, og það eru engar líkur til þess á næstunni, að raforkuverð frá kjarnorkuverum komist í námunda með að verða jafnódýrt og það er frá vatnsaflsverum, og raunar engar líkur á því að það gerist, fyrr en leiðir finnast til þess að beizla vetnisorkuna. En þegar það gerist, þá er að vísu orkuvandamál veraldarinnar leyst til frambúðar, en það gerist ekki næstu árin.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði líka, að það væri laumulega verið að semja við álhringinn. Það er ekkert verið að semja við álhringinn. Það er verið að afla vitneskju, og leyndin er ekki meiri en svo, að ég átti viðtal við það blað, sem þessi bv. þm. ritstýrir, og skýrði hlaðinu frá þessu í óspurðum fréttum, fyrir svo sem viku. Það er ekki leynd yfir nokkrum sköpuðum hlut í þessu sambandi. Það er verið að afla vitneskju, afla valkosta, til þess að við getum síðan tekið ákvarðanir í samræmi við okkar eigin hagsmuni.

Hv. þm. Jóhanni Hafstein fundust það léleg búhyggindi, eins og hann sagði, að ákveða að ráðast í stórvirkjun án þess að hafa raforkukaupanda. Það var einmitt þetta, sem viðreisnarstjórnin ætlaði sér. Hún ætlaði sér að semja við einhvern erlendan aðila um, að hann keypti svo og svo mikið af orkunni frá Sigölduvirkjun, á svipaðan hátt og samið var við Alusuisse. Þetta var stefna fyrrv. ríkisstj., og þessari stefnu lýsti hv. þm. Jóhann Hafstein raunar í ræðu hér á Alþ. fyrir síðustu þingkosningar, að hann teldi ekki fært að taka ákvörðun um Sigölduvirkjun, án þess að slíkt lægi fyrir. En ég tel það algerlega ranga stefnu að framleiða raforku í því skyni að selja hana sem hráorku. Við eigum að lita á raforkuna eins og hráefni, og við eigum að keppa að því að fullvinna hana í landinu og selja hana síðan í sem allra dýrastri mynd, fullunna vöru. Þess vegna er okkar vandi sá að koma upp í tengslum við Sigölduvirkjun orkufrekum iðnaði, sem tryggir nákvæmlega þetta, sem gerir þessa raforku eins hagkvæma fyrir okkur og arðsama fyrir okkur og hægt er. Og þetta er sannarlega ekkert óyfirstíganlegt vandamál. Það blasir við, eins og ég sagði áðan, að þarna höfum við marga, álitlega valkosti, — valkosti, sem fela það í sér, að þarna er um að ræða fyrirtæki, sem eru hluti af íslenzku atvinnulífi og eiga að verða íslenzkri iðnþróun mikil lyftistöng.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson vék hér að olíuhreinsunarstöð og umr. um hana. Sú lagasetning, sem hér var minnzt á, var aðeins um það, að stofnað yrði hér undirbúningsfélag, sem kannaði, hvort hagkvæmt væri að ráðast í byggingu slíkrar stöðvar. Ég flutti tvær brtt. við það frv. á sínum tíma, aðra um það, að ríkið ætti þarna meiri hluta, og hin var um það, að sett yrði n. þriggja sérfræðinga um mengun, sem könnuðu þá hlið málsins jafnhliða. Á þessar till. mínar var fallizt af fyrrv. ríkisstj., og var ég að sjálfsögðu mjög ánægður með það. Þetta fyrirtæki, sem þarna var stofnað, bar það undir mig snemma á þessu ári, hvort ekki væri rétt að ráða brezkt fyrirtæki í að gera eins konar hagkvæmnisáætlun um byggingu slíkrar stöðvar á Íslandi. Þetta var gert, og niðurstöður þessa fyrirtækis eru komnar fyrir nokkru. Það voru kannaðir þar þrír mismunandi valkostir og niðurstöður þessa brezka fyrirtækis voru býsna neikvæðar, þannig að ég geri ráð fyrir því, að þeir menn, sem teiknuðu upp glæsilegastar skýjaborgir um framtíð olíuhreinsunarstöðvar á Íslandi, muni telja mörg önnur verkefni nærtækari, a.m.k. á næstu árum.