09.04.1973
Neðri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3223 í B-deild Alþingistíðinda. (2709)

209. mál, sala Dysja í Garðahreppi og Háagerði í Dalvíkurhreppi

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur fengið afgreiðslu í hv. Ed. Frv. er flutt að beiðni bæjarstjórans í Hafnarfirði. Ástæður eru þær, að í apríl 1971 voru samþ. á Alþ. lög nr. 46, um lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, og lög nr. 44, um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Hafnarfjarðarkaupstað hluta af landi jarðarinnar Dysja í Garðahreppi. Nú hefur hins vegar komið í ljós hjá jarðeignadeild ríkisins, að hluti þess lands, sem í lögsagnarumdæmið færist með nefndum lögum og ætlunin var, að Hafnarfjarðarbær keypti, tilheyrir jörðinni Pálshúsum í Garðahreppi. Til að leiðrétta þetta er þetta frv. flutt. Landbn. hefur athugað frv. og mælir með, að það verði samþ. óbreytt.