09.04.1973
Neðri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3223 í B-deild Alþingistíðinda. (2711)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Frsm. 1. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls flutti ég allítarlega ræðu í sambandi við framkvæmdaáætlunina og fjárfestingarlánasjóðina, en þá skeðu þau ósköp, að hæstv. fjmrh. og aðrir ráðh. ríkisstj. tóku alls engan þátt í þessum umr. og svöruðu ekki einni einustu spurningu, sem til þeirra var beint í þessum efnum, enda voru viðhöfð ný og að mínum dómi óeðlileg vinnubrögð, því að það hefur verið venja hér í þingi, að skýrsla fjmrh. um framkvæmda– og fjáröflunaráætlun lægi fyrir, áður en frv. væri afgreitt úr n. Enda sagði núv. hæstv. fjmrh. fyrir ári, þegar hann fylgdi skýrslu sinni úr hlaði, að hann vonaðist til þess, að á þessu yrði mikil breyting, og afsakaði þá, að skýrsla var ekki lögð fram fyrr en 5. maí 1972, með því, að hin nýja stofnun, Framkvæmdastofnun ríkisins, hefði ekki tekið til starfa fyrr en seint í febr. það ár og því væri af óviðráðanlegum ástæðum ekki unnt að leggja þessa skýrslu fram fyrr. Hann bætti við, „…að ljóst væri, hvert óhagræði er að því, að framkvæmda– og fjáröflunaráætlun skuli ekki fylgjast að við gerð fjárlaga og vera tilbúin fyrir upphaf framkvæmdaárs, enda er aðeins með þeim vinnubrögðum unnt að tryggja samræmi framkvæmdaáforma og skynsamlegra forgangsröðun. Mun stefnt að því, að svo geti orðið við samningu næstu áætlunar fyrir árið 1973, og mun fjárlaga– og hagsýslustofnuninni og Framkvæmdastofnun ríkisins falið að vinna að því í sameiningu, jafnframt því að unnið verði með horfur og áform til lengri tíma fyrir augum.“

Þessari yfirlýsingu fögnuðu allir í fyrra og allir bjuggust við, að framkvæmdaáætlunin og fjáröflunaráætlun stofnlánasjóðanna mundi liggja fyrir um áramót eða jafnvel fyrr. Hitt er alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að frv. um opinberar framkvæmdir hefur ekki legið jafnsnemma fyrir og nú á þessu þingi, þegar það var lagt fram hér í desemberbyrjun, og var þá ætlun hans að afgreiða þetta frv. nokkurn veginn jafnhliða og fjárlög yrðu afgreidd.

Ég er alveg sammála honum, að það væri auðvitað rétt að breyta því fyrirkomulagi, sem er á afgreiðslu þessa frv., á þann hátt, að fjvn. afgreiddi opinberar framkvæmdir um leið og fjárlög eru afgreidd. En þá kem ég að því, sem við gagnrýndum, og það er sú mikla óvissa, sem hefur verið ríkjandi. Það er misskilningur hjá hæstv. fjmrh., að það hafi verið gagnrýnt, að frv. um opinberar framkvæmdir sé seint á ferðinni eða skýrsla hans um framkvæmda– og fjáröflunaráætlun. Látum það allt saman vera, þótt það sé ekki fyrr á ferðinni en nú er. En við álítum, að þessi skýrsla og fjármögnun fjárfestingarsjóðanna ætti að liggja fyrir þeirri n., sem fjallaði um frv. um opinberar framkvæmdir. Það var þessi gagnrýni, sem kom fram og er eðlileg gagnrýni. En ríkisstj. valdi þann kost að knýja afgreiðslu þessa máls út úr n. og tók það hér til 2. umr., sem var í raun og veru ekki umr. á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, því að ráðh. steinþögðu við öllum spurningum, sem fram voru bornar við 2. umr., og gáfu ekki nokkrar yfirlýsingar, og það heyrðist hvorki stuna né hósti frá allri ríkisstj. við 2. umr. málsins.

Eins og við vitum, á Framkvæmdastofnun ríkisins samkv. lögum að gera till. til ríkisstj. um fjármögnun framkvæmdasjóðanna, eins og kom fram hér við 2. umr. Ég er svo hamingjusamur að vera einn af þeim, sem eiga að heita stjórnarmenn í Framkvæmdastofnun ríkisins. Sú hamingja féll okkur í skaut að vera boðaðir í skyndi til aukastjórnarfundar í Framkvæmdastofnun ríkisins kl. 9 á föstudagsmorgun, og þá lá fyrir þetta plagg um fjármögnun framkvæmdasjóðanna. Það var litlum vörnum eða skýringum hægt við að koma í því sambandi, og við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins ákváðum að láta ekki segja um okkur, að við ætluðum að tefja fyrir samþykkt þessarar fjáröflunaráætlunar og sátum hjá við afgreiðslu málsins. En eins og bæði við og allir aðrir hafa beðið lengi eftir þessu fjáröflunarplani og till. Framkvæmdastofnunar ríkisins, þá verðum við þó að viðurkenna, að eftir að Framkvæmdastofnunin afgreiddi þetta á fundi sínum, en þá var kl. sennilega um 10, þá var heldur betur slegið undir nára, ef svo má að orði komast, því að ríkisstj. þurfti þá ekki langan tíma til þess að ganga frá þessu fjáröflunarplani og hefur gengið frá því mjög skyndilega og með svo miklum hraða, að skýrsla fjmrh. um framkvæmda– og fjáröflunaráætlun fyrir árið 1973, sem lá fyrir stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins á milli kl. 9 og 10 um morguninn, er komin hér innbundin á borð hjá okkur þm. um hádegi. Ég segi, að fjmrh. er maður, sem getur flýtt sér, þegar hann vill, því að hraðari vinnubrögð held ég, að sé varla hægt að hugsa sér, ef þetta færi eftir réttri röð og væri afgreitt á þann hátt, sem lög mæla fyrir um. En kannske er það önnur saga, sem þarfnast nánari skýringa og ég ætla ekki að koma með nú.

Í inngangi að skýrslu hæstv. fjmrh. segir hann, að frá áramótum hafi mikil tíðindi gerzt, svo sem alþjóð er kunnugt, og veigamiklar ráðstafanir verið á döfinni. Hefur því að vonum orðið nokkur frestur á endanlegum frágangi framkvæmdaáætlunarinnar, m.a. áætlun um opinberar framkvæmdir verið tekin til endurskoðunar, en að ráði varð að gera á henni aðeins óhjákvæmilegar breytingar vegna þeirra áfanga, sem bráðnauðsynlegt er að ljúka, og reyndist ekki raunhæft að gera breytingar á sjálfri áætluninni vegna Vestmannaeyjagossins. Nú skyldi maður ætla, að þau válegu tíðindi, sem gerðust í Vestmannaeyjum og verða auðvitað þung allri þjóðinni, bæði í ár og næstu ár, hafi orðið til þess að draga saman seglin á öðrum sviðum. Því hefði ég getað mjög vel fallizt á orðalag hæstv. ráðh., hvað þetta snertir, ef útkoman hefði verið önnur í sambandi við meðferð þessa frv. En því var ekki að heilsa. Gosið í Vestmannaeyjum og þeir alvarlegu atburðir, sem því fylgja, urðu ekki þess valdandi, að það væri dregið úr öðrum framkvæmdum í þessu þjóðfélagi, því að við afgreiðslu þessa máls við 2. umr. eru framkvæmdaáform ríkisstj. hækkuð um hvorki meira né minna en 250 millj. kr. Kannske það hafi verið ætlunin að auka þessar framkvæmdir miklu meira, ef gosið í Vestmannaeyjum hefði ekki átt sér stað? En þetta sýnir a.m.k. ekki, að gosið í Vestmannaeyjum hafi haft mjög alvarleg áhrif á fjármálastefnu hæstv. ríkisstj.

Það er fjarri mér að ætla að vilja kenna hæstv. fjmrh. einum um þessar auknu framkvæmdir, því að hann er auðvitað ekki nema einn af sjö í ríkisstj., en sennilega sá eini, sem eitthvað hugsar um að afla búinu fanga, hinir hugsa aðeins um að eyða. Annað hefur a.m.k. ekki komið í ljós. Hitt skil ég ekki, hvað hæstv. fjmrh. er hikandi í því að segja: hingað og ekki lengra.

Þetta eru bara smámunir, sem koma fram í þessu frv., á við það, sem er að gerast þessa daga. Það er verið að kasta á borð okkar þm. frv., sem hafa í för með sér tuga og jafnvel hundraða millj. útgjaldaaukningu úr ríkissjóði á næsta ári og þegar á þessu ári. Þetta er ætlunin að afgreiða hér á örfáum dögum. Ríkisstj. leggur á það alveg einstakt kapp að afgreiða þessi frv. með þvílíkum hraða, að þm. hafa rétt tíma til að lesa frv. og tæplega það, hvað þá að leggja niður fyrir sér, hve mikil áhrif þau hafa á þjóðarbúið og á fjármál ríkisins á þessu ári, næsta ári og næstu árum. Þetta er algert ábyrgðarleysi hjá ríkisstj., enda er þessi ríkisstj. með því marki brennd, að hún hefur þá sérstöðu meðal ríkisstj., að hún sjálf spanar upp á sig útgjöldin og erfiðleikana, en aðrar ríkisstj. reyna þó að verjast kröfum frá öðrum. En þessi ríkisstj. gefur fordæmið sjálf og einstakir ráðh. hennar. Og mér þykir leitt til þess að hugsa, að jafnágætur maður og hæstv. fjmrh. er, skuli þurfa að sætta sig við vinnubrögð eins og hér eiga sér stað.

Hver er svo ástæðan, ef við lítum á fjáröflun framkvæmdasjóðanna og sjáum hvað þetta eru orðnar gífurlegar upphæðir? Ég skal fúslega játa það þegar, að það er ekki nokkur leið að lækka fjáröflun fjárfestingarsjóðanna fram yfir það, sem gert er nú, vegna þess, sem á undan er gengið, og við verðum að gera okkur grein fyrir því, hvað hefur gengið á undan. Nú langar mig sérstaklega að snúa mér að einhverju fullkomnasta ábyrgðarleysi sem á sér stað, og þar held ég að höfuðsökudólgurinn sé hæstv. sjútvrh. Ég sé, að stóllinn hans er auður, það er aðeins taskan eftir í honum. — Já, sennilega er hún ekki skilningssljórri en eigandinn.

Fyrrv. ríkisstjórn ákvað rétt fyrir kosningar að lækka fyrirgreiðslur til skipabygginga, vegna þess að hún taldi, að það væri komið svo mikil spenna í skipabyggingarnar, að það mætti gjarnan fara að hafa nokkurn hemil á umframlánum fiskveiðasjóðs til skipabygginga innanlands og skipabygginga og skipakaupa erlendis frá. Þá ákvað hún, þegar samdráttur var í atvinnulífinu, að lána allt að 10% af byggingarverðmæti fiskiskipa, til þess að stuðla að aukinni skipasmíði innanlands, og byggðasjóður tók upp sem reglu að lána 5% í sama skyni, þannig að heildarlán til skipabygginga innanlands námu 90% af byggingarverði fiskiskipa: 75% frá fiskveiðasjóði, 10% sérstakt lán frá ríkisstj. og 5% úr byggðasjóði. Þegar þessi aukning var orðin svo mikil, að það var meiri vilji að fara í byggingu skipa en hægt var að anna innanlands með góðu móti, ákvað fyrrv. ríkisstj. að draga úr þessum lánum með því að lækka þau úr 10% niður í 5%, þannig að heildarlánin lækkuðu úr 90% niður í 85%. En þegar núv. ríkisstj. var mynduð, gat hún alls ekki fellt sig við þetta, því að fyrri stjórn var of íhaldssöm. Þessi varð að vera frjálslyndari, og hún ákvað auðvitað á sama degi og hún hafði tekið við eða svo að segja, að hækka aftur þessi lán upp í 10%. En það var ekki nóg með það, því að þegar leið að hausti, þurfti auðvitað að gera miklu meira, það þurfti þá um leið að lækka vexti af almennum lánum fiskveiðasjóðs úr 6 1/2% niður í 5 1/2%, og það þurfti einnig á sama tíma að lengja hinn almenna lánstíma þessara lána úr 15 árum upp í 20 ár. Minna mátti ekki gagn gera. Þessi gleðilegu tíðindi tilkynnti sá ágæti auglýsingamaður, hæstv. sjútvrh., Landssambandi ísl. útvegsmanna á aðalfundi þess síðast í nóv. það ár, og auðvitað í sakleysi sínu og gleði klöppuðu útvegsmenn allir hæstv. sjútvrh. lof í lófa. En Adam var ekki lengi í Paradís. Útgerðarmennirnir nutu ekki þessara ágætu kjara nema takmarkaðan tíma. Það kom nefnilega í ljós, að eigið ráðstöfunarfé fiskveiðasjóðs er ekki nema lítill hluti af því, sem fiskveiðasjóður þarf á að halda, og fiskveiðasjóður er langstærsti stofnlánasjóðurinn í landinu. Það kom því í ljós, að það fé, sem sjóðurinn þarf á að halda, er tekið að láni eftir öðrum leiðum og lánskjörin eru miklu hærri og óhagstæðari en þau lánskjör, sem Lúðvík Jósepsson tilkynnti útvegsmönnum síðla árs 1971, enda er það nú komið á daginn. Það var byrjað á því þegar að rýra þessa lækkun vaxtanna og lengingu lánanna með því, að þeir, sem láta byggja skip yfir 75 rúmlestir, þurftu að taka 75% af verði tækja, sem keypt eru erlendis frá, sem gjaldeyrislán, og sömuleiðis þurfa allir þeir, sem byggja skip erlendis, að taka lán til 8 ára með 7% vöxtum. Þetta var breytingin, sem gerð var, eftir að Lúðvík og ríkisstj. lækkuðu vextina úr 6 1/2% niður í 5 1/2%.

Svo skeður það, að frá febrúar 1973 treður ríkisstj. því upp á fiskveiðasjóð, að hann taki spariskírteinalán, að upphæð 124 millj. kr., með spariskírteinalánskjörum, og fiskveiðasjóður verður þar af leiðandi að koma þessum lánum út með þessum kjörum. Um öll lán, sem eru yfir 500 þús. kr., hvort sem þau eru til byggingar eða kaupa á fiskiskipum eða vegna frystihúsa eða vinnslustöðva, er sett það skilyrði, að 10% af þessari lánsupphæð séu tekin með sömu skilmálum og spariskírteinalán eru gefin út fyrir. Þau eru með 6 1/4% vöxtum, og lánin eru háð byggingarvísitölunni, sem hefur nú heldur betur tekið breytingum, frá því að núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Byggingarvísitalan hefur hoppað úr 535 stigum í 708 stig, að mig minnir, frá 1. marz s.l., og þegar hún verður næst reiknuð út, 1. júlí, eiga menn von á góðu stökki til viðbótar. Ég hygg, að flestir eða allir útvegsmenn vilji núna fá aftur lánstíma og vaxtakjör þau, sem giltu hjá fyrrv. stjórn, en biðja Lúðvík Jósepsson og hans félaga í ríkisstj. að taka þennan kaleik frá sér, þennan nýja með beiska drykknum.

Nú er þannig komið, að lán þau, sem fiskveiðasjóður verður að taka erlendis, eru með 8% til 8 1/2% vöxtum og lán, sem fiskveiðasjóður verður að taka innanlands, eru með allt upp í 9—9 1/2% vöxtum, en má kannske segja, að, að jafnaði séu þau kjör 8 1/2%—9% vextir. Það sjá því allir, hvílíkt ábyrgðarleysi það var að lækka vexti úr 6 1/2% í 5 1/2% og lengja lánstíma úr 15 árum í 20 ár, vitandi það, hvernig kjörin voru á því lánsfé, sem þessi sjóður þarf að afla sér eða þarf að afla fyrir hann. Þetta sýnir algert ábyrgðarleysi, sem gerir það að verkum, að með því að auka eða ýta undir skipabyggingar og skipakaup, eins og gert hefur verið, þá er fjárvöntun þessa sjóðs á þessu ári komin í yfir 1.300 millj. kr., umfram það fé, sem hann sjálfur hefur til ráðstöfunar.

Hvað gerðist svo nú um áramótin um lánin til fiskiskipanna? Þá kippir stjórnin allt í einu að sér hendinni og lækkaði þá ekki þessi lán, sem hún hafði hækkað frá lánum fyrri stjórnar úr 5% upp í 10%, heldur samþykkir hún að fella þau algerlega niður, því að nú sé búið að byggja nóg af skipum. Þá er sem sagt alveg búið að loka dyrunum og tvílæsa. Nú segir ríkisstj. skipasmíðastöðvarnar hafa nægileg verkefni á þessu ári og það sé engin ástæða til að draga ekki verulega úr og loka fyrir skipabyggingar.

Það, sem gerzt hefur, er það, að fyrst og fremst er verið að byggja eina tegund skipa, en eðlileg uppbygging fiskiskipastólsins eftir stærðum og gerðum hefur ekki verið að sama skapi, og það, sem nú gerist, er, að það verður lokað fyrir þessa eðlilegu uppbyggingu, og þegar þetta ár er liðið, munu innlendar skipasmíðastöðvar ekki hafa nægileg verkefni. Hefði verið nær að takmarka meira kaup á skipum erlendis frá og reyna að stuðla að því, að uppbygging fiskiskipastólsins færi fram með eðlilegum hætti.

Skipasmíðalán til viðbótar 75% lánum fiskveiðasjóðs samkv. nánari ákvörðun ríkisstj. um lánsupphæð og útlánastofnun er nú í fjáröflunaráætlun 15 millj. kr. Það þýðir, að brúttó upphæðin er 150 millj. kr., 15 millj. eru þá til ráðstöfunar á árinu 1973. Ekki skal ég dylja, að búið er að ákveða 10% lánin til þeirra skipa, sem eru í byggingu, en það sjá allir á þessu, að hér er ekki hugsað að verði um neina viðbót að ræða í skipabyggingum.

Á fundi stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins var lögð fram sú áætlun, sem hér liggur fyrir í skýrslu hæstv. í fjmrh., og er upp á 1.910 millj. kr. til lána úr Framkvæmdasjóði Íslands, þar af er eigið ráðstöfunarfé 130 millj. kr., eftirstöðvar frá árinu 1972 nema 66 millj. kr., en lántökur frá innlendum bönkum á þessu ári eru hugsaðar 10% af heildarútlánum bankanna eða 284 millj. kr. Við spurðum á stjórnarfundi í Framkvæmdastofnuninni, hvort ekki hafi verið rætt við viðskiptabankana um 10% af þeirra lántökum til framkvæmdasjóðs eða upphæð upp á 284 millj. kr. umfram það, sem viðskiptabankarnir leggja til öðrum sjóðum, sem eru utan við þetta og ég ætla ekki að gera að umræðuefni. Þá var það svar gefið, að þessar viðræður hefðu ekki átt sér stað frá hendi framkvæmdaráðs Framkvæmdastofnunar ríkisins. Ég verð að segja það eins og er, að mér finnst vera farið öfugt að hlutunum að ræða ekki við þá aðila, því að hér er ekki um lagaskyldu að ræða, og hefði bæði af venjulegum kurteisisástæðum og sömuleiðis viðurkenningu á því, að þessar lánastofnanir ráða auðvitað yfir sínu lánsfé, verið rétt, að þessar viðræður hefðu farið fram áður.

Fjórði liðurinn um fjáröflunina er hluti af spariskírteinaláni, 150 millj. kr., svo að það er hægt að bæta við spariskírteinalánin. Eftir því sem meira er tekið af viðskiptabönkunum og meira er bundið af fé til þarfa þess opinbera til viðbótar því, sem fer í húsnæðismálakerfið, jafnframt því útboði á spariskírteinaláni, sem frv. um opinberar framkvæmdir gerir ráð fyrir, þá hygg ég, að það sé orðið anzi nærri viðskiptabönkunum höggvið á þessu ári, þegar við tökum tillit til þess, að ríkið er ekki eitt með framkvæmdir og því síður eitt með atvinnulífið í landinu. Og ég hygg, að atvinnureksturinn þurfi, eftir því sem krónan heldur áfram að rýrna, á fleiri krónum að halda og því sé kannske allnærri höggvið útlánakerfi viðskiptabankanna með þessum áætlunum, sem hér liggja fyrir.

Þá er í fjáröfluninni frá iðnþróunarsjóði 40 millj. kr. og frá lífeyrissjóðum 280 millj. kr. Það lá ekki heldur hreint fyrir, hvort væri búið að ganga alveg fullkomlega frá þessum samningum við lífeyrissjóðina. Ég hygg, að engir aðilar í landinu hafi rýmri hendur en lífeyrissjóðirnir, og það er mín skoðun, mín persónulega skoðun, að lífeyrissjóðirnir eigi auðvitað að leggja samfélaginu til mikið fjármagn til þess að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum hverju sinni.

Svo komum við að 7. liðnum, sem eru erlend lán, 800 millj. kr. Það má segja, að hér sé aðeins um fjáröflun að ræða erlendis frá til þessara framkvæmdasjóða. En þessi erlenda lántaka segir ekki allt. Það kom fram í framsöguræðu hæstv. fjmrh. hér í vetur, að reiknað er með 400 millj. kr. lántöku vegna Sigölduvirkjunar, reiknað er með lántöku til fleiri opinberra framkvæmda, og væri fróðlegt að fá upplýsingar frá honum, hvað hann teldi, að erlendar lántökur á þessu ári, 1973, væru miklar í heild, þegar allt kemur til alls.

Svo að lokum í fjáröflunaráætluninni 160 millj. kr. frá Seðlabanka Íslands. Það var ætlunin a.m.k. „kommissaranna“ í Framkvæmdastofnun ríkisins að lækka bindiskylduna og fá allmikið fjármagn til framkvæmdasjóðanna frá viðskiptabönkunum með því að lækka bindiskyldu. En mér skilst, að hér sé ekki um neina breytingu á henni að ræða, heldur ætlar Seðlabanki Íslands að lána 160 millj. kr. víxil, ef svo má að orði komast. Hann ætlar sem sagt að hlaupa undir bagga til þess að ná endum saman.

M.ö.o.: Þessi fjáröflunaráætlun er upp á 1.910 millj. kr., lánveitingarnar eru upp á 2.110 millj. kr., en lækkun þessara lána er 200 millj. kr., þannig að dæmið gengur upp með nýrri tekjuöflun stofnlánasjóða að upphæð 200 millj. kr. Ekki gátu þeir, sem áætlunina búa til, gefið þeim, sem áætlunina áttu að samþykkja lögum samkv., — þá á ég við „kommissaranna“, framkvæmdaráðið, — þeir gátu ekki gefið okkur upp, hinni þingkjörnu stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, hvernig þessar 200 millj. kr. sundurliðast, en sögðu, að það yrði með nýrri tekjuöflun, sem við erum smátt og smátt að skilja, þegar við þm. fáum til okkar á borðið frv., og þá gengur að lokum dæmið upp. Það er mér alveg ljóst.

Eins og ég sagði í upphafi, er hæstv. ríkisstj. óspör á að leggja fram frv., sem hafa í för með sér mikil útgjöld fyrir ríkissjóð þegar á þessu ári og stórfellda nýja skatta á hinar ýmsu atvinnugreinar. Það kom hér fram ákaflega lítið og sakleysislegt frv. um breyt. á lögum um iðnlánasjóð. Það er ekki nema 6 línur, og þær flestar ekki nema hálfar að lengd. En 1. gr. er á þá leið, að það á að hækka gjöld til iðnlánasjóðs úr 0,4% í 0,5%, eða um 25%, en framlag ríkissjóðs á að vera 50 millj. kr. ár hvert, í fyrsta sinn 1973. Nú er þetta framlag ríkissjóðs til iðnlánasjóðs 16 millj. kr. Á þingi í fyrra fluttu sjálfstæðismenn till. um að hækka framlag ríkissjóðs úr 15 millj. í 25 millj., en sú till. var sögð sýna algert ábyrgðarleysi stjórnarandstöðu, og stjórnarliðar allir með tölu drápu þessa till. án þess að depla auga, en voru hneykslaðir yfir þessu óskaplega ábyrgðarleysi, sem stjórnarandstaðan sýndi með því að flytja slíka till. við afgreiðslu fjárlaga. En nú flytur hin ábyrgðarmikla ríkisstj. till. um meira en þrefalt framlag til iðnlánasjóðs á árinu 1973, löngu eftir að fjárlög eru afgreidd, en þá er það fullkomin ábyrgð. Stjórnarliðið á að rétta upp hendurnar með þessu, á sama tíma og fyrir liggur heimild fyrir ríkisstj. að lækka framlög til verklegra framkvæmda um 15% frá því, sem þær eru í fjárlögum, takandi þó ekki tillit til þess, að framlög til verklegra framkvæmda voru lækkuð mjög verulega af fjvn., en þau voru í algeru lágmarki. Það er sagt, að niðurgreiðslur séu tæpum hálfum milljarði hærri en fjárlögin gera ráð fyrir, og það var vitað, þegar fjárlög voru afgreidd. Ef rétt tala hefði verið tekin upp í fjárlögin, hefðu fjárlög verið afgreidd með tæpum hálfs milljarðs greiðsluhalla, en það varð auðvitað að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög, og því var þessum útgjöldum haldið utan við fjárlögin, en heimildagrein tekin upp um að lækka verklegar framkvæmdir og fleira, sem þessari upphæð nemur. Því er marglýst yfir af hæstv. ríkisstj., að hún muni beita þessari heimild, því að það sé bráðnauðsynlegt og knýjandi. Það liggur ekkert endanlegt fyrir, á hvern hátt henni verður beitt, en á sama tíma eru lögð fram frv. eftir frv., sem hafa í för með sér stóraukin útgjöld á þessu ári, eins og ástandið er. Ég spyr hæstv. fjmrh. eða réttara væri kannske að spyrja oddvitann í ríkisstj., hæstv. forsrh: Hvað kosta þessi frv., sem Alþ. hefur þegar samþ., og þau frv., sem hæstv. ríkisstj. ætlar liði sínu að samþ., áður en Alþ. verður slitið? Hvað kosta þau á þessu ári í framkvæmd, og hvað koma þau til með að kosta mikið í sambandi við fjárlög fyrir næsta ár eða á ársgrundvelli ársins 1974? Ég ætlast ekki til að fá nákvæma upptalningu eða nákvæm svör, það mætti eðlilega leika á 10, 20, 30 millj., en hitt væri ákaflega gott, að fá svör við því, hvað þetta er gróft reiknað. Jafnframt langar mig til að spyrja um og er full þörf á að spyrja um og full þörf á að fá svar við : Hvernig ætlar ríkisstj. að afla fjár til að greiða þær kvaðir, sem hún er að taka á sig nú á þessu ári? Hvernig ætlar hún að afla fjár á þessu ári? Telur hún, að tekjuáætlun fjárlaga sé svo lág, að það sé alveg óhætt að bæta þessu á Brúnku á þessu ári? Telur ríkisstj. þá eðlilegt að ráðast á þá framkvæmdaliði, sem eru í fjárl., eins og hún hefur hingað til látið sig dreyma um að gera? Við þessu væri nauðsynlegt að fá svör.

Ég sé nú, að hæstv. sjútvrh. er setztur hjá töskunni sinni, en ég talaði aðallega við hann áðan. Ég vil þó bæta við, án þess að ég vilji fara að eyða dýrmætum tíma Alþ. í að endurtaka það, sem ég sagði áðan um hann og hans fjármál í sambandi við fiskveiðasjóðinn og þær aðgerðir, sem hann hefur framar öllum öðrum beitt sér fyrir og eru auðvitað alrangar, svo sem ég hef þegar sýnt fram á, að ef hann hefði farið skynsamlegar að, þegar hann varð ráðherra, þá hefði hann e.t.v. ekki talið þörf á því að leggja fram það frv., sem hann hefur lagt fram um fiskveiðasjóð, en þar ætlast hann til, að lagt sé á 1 % gjald af fob—verði útfluttra sjávarafurða, og þetta á að taka gildi 1. júlí á þessu ári. Þetta eina gjald á að gefa um 160 millj. kr. á ársgrundvelli, ef við reiknum með því, að útflutningsverðmætið sé um 16 milljarðar, en þar sem útflutningur er miklu meiri á fyrri hluta árs, gefur þetta gjald e.t.v. ekki nema um 60 millj. kr. á þessu ári. En jafnframt á ríkið að leggja sömu upphæð á móti, svo að þar bindur þessi hæstv. ráðherra einn baggann enn þá á starfsbróður sinn, fjmrh. á þessu ári, en á næsta ári má segja, að heildarútgjöldin vegna þessa frv. séu fyrst og fremst fyrir útflutningsatvinnuvegina 160 millj. kr. og fyrir þjóðfélagsþegnana, blessaða skattborgarana, 160 millj. kr., eða samtals um 320 millj. kr. Sjávarútvegurinn einn á að taka á sig á ársgrundvelli 160 millj. kr. skatt. Ég hygg, að flestir mundu nú hafa samþ. að Lúðvík hefði ekki hækkað lánin til skipanna úr 5% í 10% og ekki lækkað vextina úr 61/2% í 51/2 % og ekki lengt lánstímann úr 15 árum í 20 ár, þegar hann bætir nú svo myndarlega á sjávarútveginn og hinn almenna þjóðfélagsþegn fyrir það, að allt er komið í harðan hnút. En það má þó segja, að Lúðvík Jósepsson nær þó ekki hlutfallslega eins góðum árangri og flokksbróðir hans, hæstv. iðnrh., því að hann lætur ríkissjóð ekki borga nema sömu upphæð á móti því, sem tekið er af sjávarútveginum, en hæstv. iðnrh. lætur ríkissjóð leggja iðnlánasjóði til hækkun, sem er á þriðja hundrað prósent, á sama tíma og iðnaðurinn á aftur að hækka sína skatta til iðnlánasjóðs um aðeins 25%. Þar má segja, að Magnús Kjartansson hafi heldur betur náð forskoti fram yfir flokkshróður sinn, hæstv. sjútvrh.

Allt er þetta fyrir það, að það var ógætilega farið af stað, sem málin eru þannig komin, og má segja, að með þessu frv. á þessu ári sé að ræða um 2% fiskverðslækkun, því að það þarf enginn að segja, hvorki mér né öðrum, að þessi skattur á sjávarútveginn komi á þá, sem flytja út útflutningsvörur sjávarútvegsins, því að allir slíkir skattar, sem teknir eru með útflutningsgjaldi, sem fyrir eru, eru teknir inn í dæmið við fiskverðsákvörðun og koma því á allar greinar sjávarútvegsins og þá ekki sízt á sjómenn og útvegsmenn, sem verða auðvitað að verulegu leyti að standa undir þessari skattlagningu. Það er ekkert fjarri sanni að segja, að samþykkt þessa frv. samsvari um 2% fiskverðslækkun.

Ég skal ekki hafa miklu fleiri orð um þetta frv. Ég endurtek það, að ég hefði kosið, að skýrsla hæstv. fjmrh. hefði legið fyrir fjh– og viðskn., á meðan hún hafði þetta frv. til meðferðar, og embættismenn hefðu komið til fundar hjá n. til þess að ræða um þessi mál. En hæstv. ríkisstj. flýtir sér vanalega meira en góðu hófi gegnir, sérstaklega í vitleysunni, og hún knúði afgreiðslu þessa máls út úr n. Ég fagna því, að hæstv. fjmrh. sýndi þó þann manndóm að leggja þessa skýrslu fram hér við 3. umr. málsins og skýra áætlun fjárfestingarsjóðanna, sem ég met við hann. Hann skýrði þessi mál eins og þau liggja fyrir og hleypidómalaust. Það, sem mér finnst fyrst og fremst að við hans málflutning, er, að hvergi sé hægt að draga úr neinum framkvæmdum, hvergi sé hægt að draga úr þeirri spennu, sem er ríkjandi í þjóðfélaginu, og hvergi er litið á það alvarlega ástand, sem er hjá framleiðsluatvinnuvegunum vegna manneklu, vegna skorts á sjómönnum á fiskiskipin og á fólki til vinnslu fisks í fiskvinnslustöðvunum. Sú könnun, sem fór fram fyrir milligöngu hæstv. sjútvrh. sýnir, að það vantar fólk á svæðinu frá Stokkseyri og vestur um að Snæfellsnesi á sjóinn og við fiskvinnslu, yfir 1.000 manns. Og annars staðar á landinu, bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum, er tilfinnanlegur skortur á fólki við þessi framleiðslustörf, þannig að það er lágmark að tala um, að það vanti 1.500 manns til þessara starfa. Þetta eitt út af fyrir sig á að knýja ábyrga ríkisstj. til að draga úr fjárfestingu á öðrum sviðum. Við eigum fyrst og fremst að stuðla að aukningu á því verðmæti, sem við sköpum til útflutnings, og fá auknar tekjur með vaxandi verðmætasköpun. Því meira getum við lagt af mörkum til þess að byggja upp í okkar landi án þess að stofna til stórskulda, eins og gert hefur verið, frá því að þessi hæstv. ríkisstj. tók við völdum, en hún hefur hækkað skuldir erlendis um hvorki meira né minna en 6.500 millj. kr. á árunum 1971 og 1972.

Nú segja menn almennt: Það er nóg komið í þessum efnum. En svar ríkisstj. við þessu er: Úr hverju á að draga? Það er búið að framkvæma hér svo vitlausa stjórnarstefnu að undanförnu, sem hefur ýtt undir verðbólguáhrifin, að nú eru þessir ágætu menn fastir í netinu, og þá taka þeir sig til að leggja nýja skatta á þjóðina, en eftir sitjum við með vaxandi verðbólguvanda, sem er heimatilbúinn að verulegu leyti, þótt ég skuli fúslega játa, að við eigum einnig við að stríða verðbólguvanda, sem kemur annars staðar frá, vegna hækkunar á þeirri vöru, sem við flytjum til landsins, en hann er hverfandi lítill á við þann verðbólguvanda, sem hefur verið framleiddur hér heima og á að framleiða með sömu stefnu í vaxandi mæli.