09.04.1973
Neðri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3233 í B-deild Alþingistíðinda. (2714)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja tvær brtt. við frv. það, sem hér er til umr., um framkvæmdaáætlun 1973, á þskj. 522 og 192. Ég vil aðeins í upphafi máls míns gera hér nokkra grein fyrir þessum brtt.

Hin fyrri er þess efnis að breyta orðalagi í 10. gr. Í stað orðanna „Stofnlína Norður—Suðurland“ komi: Til rannsókna á orkuöflunarleiðum fyrir Norðurland. Ég gerði við 2. umr. grein fyrir þessari brtt. og sýndi fram á, að líkur bentu til þess, ef ríkisstj. léti af þeirri stefnu sinni, sem hún virðist hafa nú, að ákveða, að stofnlína skuli koma frá Suðurlandi til Norðurlands til raforkuöflunar fyrir Norðlendinga, að hægt væri að fara miklu hagkvæmari leiðir í þessu efni og þessar leiðir ætti að kanna, áður en í þetta væri ráðizt. Ég benti m.a. á það, að mjög kæmi til greina að virkja gufuafl á Norðurlandi samkvæmt skýrslu, sem er nýkomin fram um það efni. Aðrir virkjunarkostir eru margir á Norðurlandi. Ég gerði ítarlega grein fyrir þessari till. við 2. umr. og sé ekki ástæðu til að endurtaka það hér.

Hin brtt. er um, að við 10. gr. í sundurliðun bætist nýr liður á eftir liðnum Blævardalsárvirkjun: Norðurlandsáætlun vegna Ólafsfjarðarhafnar 8 millj. kr., og samsvarandi lækkun verði á framlagi til Framkvæmdasjóðs Íslands, þannig að þessi till. hefur ekki í heild í för með sér aukin útgjöld. Ástæðan fyrir þessari till. er sú, að ég spurðist fyrir á þinginu í haust um framkvæmdir samkvæmt Norðurlandsáætlun í höfnum og flugvöllum. Þá svaraði hæstv. forsrh. mér því til, að aflað yrði 50 millj. kr. til þessara framkvæmda, og taldi upp m.a. hafnarframkvæmdir á Siglufirði og í Ólafsfirði. Þegar frv. kom fram, sem hér er til umr., um framkvæmdaáætlun ríkisstj., kom í ljós, að þetta fé hafði verið skorið niður og sleppt framkvæmdum á Siglufirði og í Ólafsfirði. En hv. n., sem fékk þetta frv. til athugunar, gerir það hins vegar að till. sinni að taka öldubrjót á Siglufirði aftur inn í þessa framkvæmdaáætlun, en enn er Ólafsfirði sleppt. Ég vil líta þannig á, að hér geti jafnvel verið um mistök að ræða, því að ég fæ ekki séð, að það sé réttlæti í því, þegar var búið að skera þessar framkvæmdir niður báðar, að önnur sé síðan tekin inn í þetta frv. Báðar þessar framkvæmdir eru jafnnauðsynlegar. Ólafsfirðingar eru að fá núna 2 skip, sem þeir koma alls ekki inn í höfnina, nema með því að hefja þegar framkvæmdir við hafnargerðina. Ég vil því freista þess með þessari till., að koma fram samræmingu á þessu og vona, að hv. þdm. fallist á þá skoðun með mér, að það sé ekkert réttlæti í því að lagfæra hjá öðrum aðilanum, en skilja hinn eftir, þar sem þörfin er jafnmikil hjá báðum.

Ég vil svo með örfáum orðum ræða um þetta frv. og þá sérstaklega lántökustefnu hæstv. ríkisstj. og hættulegustu afleiðingar þeirrar stefnu í efnahagsmálum. Ég vil þá aðeins, með leyfi hæstv. forseta, víkja hér að orðum í skýrslu valkostanefndar frá því í haust, en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Lántökur Íslendinga erlendis hafa verið gífurlega miklar á árunum 1971 og 1972, og hafa heildarskuldir við útlönd aukizt á þessum tveimur árum um nærri 6.000 millj. eða um 53%. Í því greiðslujafnaðarmarkmiði, sem hér hefur verið sett, hefur verið við það miðað, að erlendar skuldir til langs tíma megi ekki aukast um meira en nálægt 2.000 millj. kr. á árinu 1973 og væri þá erlend skuldaaukning á árunum 1971—1973 orðin ríflega 70%. Þegar tekið er tillit til annarra erlendra lána, sem tekin verða á árinu 1973, þ.á.m. vegna togarakaupa, er ekki rúm fyrir meira en í mesta lagi 700 millj. kr. lántöku til að mæta umræddri fjárvöntun vegna opinberra framkvæmda og fjárfestingarlánasjóða, ef skuldaaukning á ekki að fara út fyrir hin settu mörk.“ Samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir, sýnist mér reyndin í þessu efni vera sú, að í stað 700 millj. kr., sem talið er að sé gengið til hin ítrasta í skýrslu valkostan. sérfræðinga hæstv. ríkisstj., verði 800 millj. kr. aflað erlendis vegna framkvæmdasjóðs, PL-láns að upphæð 50 millj. kr. og tækjakaupaláns að upphæð 97 millj. kr. Önnur erlend lán samkvæmt þessu frv. sýnast mér eiga að vera 272 millj., og hæstv. ráðherra var að lýsa brtt., sem eru um heimild ríkisstj. til þess að bæta 150 millj. kr. við þetta. Fyrir utan þetta koma svo aðrar lánstökur, eins og til Sigölduvirkjunar o.s.frv. Í stað þess sem sé, að sérfræðingar hæstv. ríkisstj. telja, að hér megi aðeins vera um 700 millj. kr. lántöku að ræða, er hæstv. ríkisstj. komin í 1.200 millj. Samkvæmt þessu hækkar erlend lántaka um meira en 70% á 3 árum, enda segir svo í skýrslu hæstv. fjmrh., á bls. 11, — þar er talað um, hversu framkvæmdaáætlunin hafi hækkað í meðförum, og raunar talið, að það sé af óviðráðanlegum ástæðum, en það er viðurkennt, að hún hafi hækkað úr öllu hófi, og niðurstaðan af því er svo, með leyfi forseta: „Svo sem vænta má, leiðir hin mikla aukning áætlunarinnar fyrst og fremst til aukinnar lántöku erlendis, þótt ekki liggi enn að fullu fyrir, hvernig sumar heimildanna verða notaðar.“

Sérfræðingar hæstv. ríkisstj. komust sem sé þannig að orði í fyrra haust, að lántökur erlendis væru þegar orðnar gífurlegar. Ég veit ekki, hvaða orð þeir kunna að nota næst, þegar þeir gefa hv. Alþ. skýrslu um þetta efni. Ég tel, að hér sé um að ræða hættulegustu afleiðingar af stefnu hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum, sem koma mjög fram í þessu frv.

Það hefur verið rætt um það hér, að allar þær framkvæmdir, sem hér á að afla fjár til, séu nauðsynlegar og þær séu löngu ákveðnar margar hverjar. En það hefði þá átt að hafa meiri fyrirhyggju í því, þegar þessar framkvæmdir voru ákveðnar, til hvers þær mundu leiða. Mér þótti fróðlegt að lesa skýrslu fjmrh., sem fylgdi þessu frv. Í skýrslunni koma nefnilega fram tölur, ef hún er lesin ofan í kjölinn, sem sanna mál okkar, sem höfum verið að sýna fram á það, að hæstv. ríkisstj. stefni í algera ófæru í viðskiptum sínum við útlönd, ekki bara á sviði erlendrar lántöku, heldur einnig að því er varðar viðskiptin í heild við útlönd. Ég tók saman nokkrar tölur, sem koma beint upp úr þessu plaggi, og þá er útkoman sú, að það er gert ráð fyrir, að viðskiptajöfnuður, sem var hagstæður árið 1970 um 650 millj., hafi verið óhagstæður árið 1971 um 3.860 millj. og 1972 um 2.000 millj., sem er allmiklu minna en upphaflega var gert ráð fyrir. Það skýrist að verulegu leyti af því, eins og fram kemur í skýrslunni, að birgðaminnkun á útflutningsvörum var verulega mikil á árinu 1972. Hæstv. fjmrh. sá ekki ástæðu til að minnast á það í ræðu sinni, þegar hann fylgdi þessu frv. úr hlaði og taldi, að niðurstaðan á viðskiptajöfnuði hefði verið miklu hagstæðari en gert var ráð fyrir. En þarna er sem sagt um að ræða 5.860 millj. kr. halla á viðskiptum við útlönd á þessum 2 árum. Nú hafa hæstv. ráðherrar mjög flaggað því hér á hv. Alþ., að þetta skýrist af því, að það sé svo mikið flutt inn af skipum og flugvélum. En í skýrslu hæstv. fjmrh. kemur fram, hvað mikið er flutt inn af skipum og flugvélum á þessum árum. Á árinu 1970 var flutt inn fyrir 900 millj. kr., árið 1971 fyrir 2.252 millj. kr. og 1972 fyrir 1.120 millj. kr. Sé gert ráð fyrir þessu og viðskiptajöfnuðurinn reiknaður þannig, að skip og flugvélar séu ekki innifalin í honum, er hann hagstæður á árinu 1970 um 1.550 millj., en óhagstæður á árunum 1971 og 1972 um samtals 2.600 millj. kr., þegar búið er að taka skip og flugvélar út úr. Við höfum sem sagt lifað um efni fram um nálega 2.500 millj. kr. og lækkað innstæður okkar erlendis á þessum 2 árum. Það eru mikil umskipti frá árinu 1970, en þá var sams konar tala, eins fundin, 1.550 millj. kr. hagstæður jöfnuður við útlönd. Horfurnar á þessu sviði hafa að vísu nokkuð batnað upp á síðkastið vegna gífurlegra verðhækkana á afurðum okkar erlendis. En ýmislegt hefur komið þar á móti, svo sem það, að vertíð hefur gengið verr en skyldi og hækkun er mikil á innflutningi. Það má því gera ráð fyrir, að á næsta ári verði viðskiptajöfnuður okkar mjög verulega óhagstæður, þó að ástandið verði kannske bjartara en menn gerðu sér vonir um, um áramótin vegna hinna miklu verðhækkana á útflutningi okkar erlendis, sem hæstv. ríkisstj. verða ekki þakkaðar. Þannig tala staðreyndir. sem eru teknar beint úr skýrslu hæstv. ráðherra, um það, hvernig haldið hefur verið á málunum á undanförnum tveim árum, og því miður eru horfurnar mjög alvarlegar í þessu efni á yfirstandandi ári.