09.04.1973
Neðri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3236 í B-deild Alþingistíðinda. (2715)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Frsm. 2. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir þeirri afstöðu þingflokks Alþfl. að taka ekki þátt í afgreiðslu þessa máls hér í hv. d. vegna þess, hvernig að málinu væri staðið. Ég gagnrýndi það mjög fyrir hönd þingflokks Alþfl., að ætlazt væri til þess, að Alþ. veitti hæstv. ríkisstj. lántökuheimild upp á annan milljarð kr. til þess að kosta framkvæmdir utan fjárl., án þess að ríkisstj. gerði Alþ, jafnframt grein fyrir því, hvernig hún hygðist nota sér þá lækkunar. heimild til útgjalda á fjárl., sem hún fékk rétt áður en fjárlög voru endanlega afgreidd, og án þess að hún gerði grein fyrir því, hver yrðu útlán fjárfestingarsjóða og hvernig nauðsynlegs fjár til þeirra ætti að afla. Milli 2. og 3. umr. hefur hæstv. ríkisstj. bætt úr öðru þessara atriða. Á föstudaginn var lagði hæstv. ríkisstj. fram yfirlit yfir fjárfestingarsjóðina, væntanleg útlán þeirra á yfirstandandi ári og hvernig fjár til þeirra eigi að afla. Hins vegar hefur hæstv. ríkisstj. ekki gert hv. Alþ. neina grein fyrir því, hvernig muni fara með niðurskurð á fjárl., þ.e. hver muni verða raunveruleg framkvæmdaútgjöld á fjárl. sjálfum. Þetta breytir því engu um þá afstöðu þm. Alþfl. að taka ekki þátt í afgreiðslu málsins í mótmælaskyni við það, hvernig að málinu er staðið.

En örfáum orðum vildi ég leyfa mér að fara um þá skýrslu, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú afhent alþm. um fjármál fjárfestingarlánasjóðanna.

Þar er gert ráð fyrir því, að útlán þeirra verði 1.910 millj. kr., og gerð er grein fyrir því, hvernig fjár til þessara útlána á að afla og hvernig þau eiga að skiptast á einstakar útlánategundir. Ég fæ ekki betur séð en að örugg fjáröflun til fjárfestingarsjóðanna sé aðeins 1/3 hluti af heildarfjáröfluninni. Heildarfjáröflunin er 1.910 millj. kr.. eins og ég sagði áðan. Þar af er eigið ráðstöfunarfé framkvæmdasjóðs 130 millj., lántaka frá innlendum bönkum, eftirstöðvar frá því í fyrra, 66 millj., lántökur frá bönkunum í ár, 10% eins og áður, 284 millj. og hluti af spariskírteinaláni 150 millj. kr. Þetta eru samtals 630 millj. kr. Þetta má telja örugga fjáröflun, sem ríkisstj. geti átt kost á. En ég get ekki séð, að varðandi nokkra aðra af þeim liðum, sem nefndir eru þar á eftir, sé um örugga fjáröflun að ræða. Þar er gert ráð fyrir 40 millj. kr. láni frá iðnþróunarsjóði vegna iðnlánasjóðsins. Mér er ekki kunnugt um, að búið sé að semja um þetta lán. Það var mikil tregða á hliðstæðri lánveitingu í fyrra, og ég veit ekki betur en stjórn iðnþróunarsjóðsins hafi tilkynnt hæstv. ríkisstj., að hún muni ekki veita kost á öðru láni í ár, hliðstæðu því, sem veitt var í fyrra. Þá var gert ráð fyrir 280 millj. kr. frá lífeyrissjóðum. Ég þori að fullyrða, að engir samningar eru til við lífeyrissjóðina um, að þeir láti þetta fé af hendi við hæstv. ríkisstj. Þessir samningar munu vera á byrjunarstigi, en engin niðurstaða fengin og allsendis óvíst, hvort nokkur niðurstaða fæst. Þó er hér um hvorki meira né minna en 280 millj. kr. að ræða. Þá er gert ráð fyrir því að taka erlend lán að upphæð 800 millj. kr., og er það langstærsti fjáröflunarliðurinn. Þessi lán er auðvitað ekki búið að taka, og ég hygg, að óhætt sé að segja, að enn sé allsendis ókunnugt um það, hvort þau fást eða ekki. En burtséð frá því, hvort þau fást eða fást ekki, verð ég að vekja sérstaka athygli á því, að hér er farið inn á mjög hála braut með því að afla næstum helmings af fjárþörf fjárfestingarsjóðanna með nýjum erlendum lánum. Hér er í raun og veru um dæmalausa tillögugerð að ræða, og ég held, að aldrei áður hafi verið lagt til að afla jafnmikils hluta af fjárþörf fjárfestingarsjóðanna með erlendum lánum. Hversu óvarlega hér er á haldið, sést bezt á því, að þegar mun vera búið að taka ákvörðun um lántökur á þessu ári að upphæð rúmlega 4.000 millj. kr. Það er búið að ákveða að taka um 4.000 millj. kr. lán á þessu ári. Auðvitað verða að eiga sér stað afborganir af eldri lánum á árinu. Mér telst svo til, að þær muni nema um 1.500 millj. kr., en það jafngildir því, að skuldaaukning í ár verði, áður en þetta kemur til, hvorki meira né minna en 2.500 millj. kr. Erlendar skuldir í ár munu því aukast um 2.500 millj. kr., og það er um 75% aukning á undanförnum þremur árum. Ofan á þessa 500 millj. kr. skuldaaukningu í ár leggur nú ríkisstj. til að afla næstum helmingsins af fjárþörf fjárfestingarsjóðanna með viðbótarlánum erlendis. Hér er vægast sagt mjög glannalega á haldið.

Þá er síðasti liðurinn, þar sem gert er ráð fyrir láni frá Seðlabanka Íslands að upphæð 160 millj. kr. Það má vera, að Seðlabankinn sé búinn að lofa því að lána ríkisstj. þessa upphæð. Þó dreg ég mjög í efa, að svo sé.

Ríkisstj. leggur m.ö.o. fram hugmyndir um að afla rúmlega 1.900 millj. kr. Hún hefur ekki tryggt nema 1/3 af þessu fé. Hitt er allt saman vonarpeningur og langstærsti liðurinn fyrirhuguð erlend lán ofan á meiri lánaaukningu en nokkurn tíma áður hefur átt sér stað í sögunni. Þetta er allt saman enn ein sönnun fyrir því, að ríkisstj. ræður að engu leyti við vandamál efnahagsmálanna. Þingflokkur Alþfl. sér því ekki ástæðu til að taka þátt í afgreiðslu þessa máls.