09.04.1973
Neðri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3239 í B-deild Alþingistíðinda. (2717)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en mér fannst ástæða til þess í lok 3. umr. að vekja athygli á þeirri málsmeðferð, sem þetta frv., sem hér er til umr., hefur fengið á hinu háa Alþ. og hversu frábrugðið það er því, sem hefur verið á undanförnum árum. Það er við 2. umr. þessa máls, sem frsm. minni hl. fjh– og viðskn. gera grein fyrir skoðunum sínum, leggja fram fsp. til hæstv. fjmrh., en fá engin svör. Það liggur fyrir við þessa umr., að ekkert er vitað um niðurskurð fjárl. samkv. heimildargr. í fjárl. 1973. Það eru engar upplýsingar fáanlegar í þessum efnum. Við 2. umr. málsins liggja ekki fyrir upplýsingar um fjármögnun fjárfestingarsjóða né skýrsla fjmrh. um framkvæmda– og fjáröflunaráætlun. Þessar upplýsingar hafa á undanförnum árum verið taldar sjálfsagðar, og þær hafa verið veittar og gerð grein fyrir því, með hvaða hætti fjármögnun til opinberra framkvæmda skuli vera. Fjmrh. svarar engu við 2. umr. þessa máls. Við 3. umr. málsins kemur hæstv. fjmrh. hér og leggur fram skýrslu sína um framkvæmda– og fjáröflunaráætlun fyrir 1973. Hann gerir tæplega grein fyrir henni. Hún er nánast, eins og einn hv. þm. sagði áðan, uppsetning á tölum, en ekki með nokkru móti gerð grein fyrir því, á hvern hátt útvega eigi það fé, sem þarf til þess, að sú uppsetning, sem er að finna í framkvæmdaáætluninni, nái fram að ganga. Hér koma frsm. minni hl. fjhn. aftur. Þeir ítreka fsp. sínar til fjmrh. frá 2. umr., gera fsp. um þetta mál, eftir að fyrir liggur skýrsla hans um opinberar framkvæmdir 1973, og enn er ekki sagt orð. Ég held, að þessi málsmeðferð, þ.e. sá málflutningur, sem hafður hefur verið hér uppi af fulltrúum ríkisstj., sé einstakur og það sé ástæða til þess að benda á hann og gera mönnum grein fyrir, með hvaða hætti ríkisstj. stendur að málum á Alþingi í dag.