09.04.1973
Neðri deild: 83. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3241 í B-deild Alþingistíðinda. (2720)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Frsm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég vil í fáum orðum gera hér grein fyrir þeim brtt., sem hv. heilbr.— og trn. þessarar d. hefur orðið sammála um að flytja við þessa 3. umr, frv. Það er sami háttur á og við flutning brtt. n. við 2. umr., að þær brtt. eru einar fluttar, sem allir nm. hafa orðið sammála um að flytja. Fleiri sjónarmið komu fram í n. en flutningur þessara brtt. einna gefur til kynna, og er enginn einstakur nm. bundinn af því að flytja ekki fleiri brtt. eða fylgja brtt. við frv., sem kunna að verða fluttar af öðrum hv. þm. en þeim, sem skipa heilbr.– og trn. Nd. Ég vil þá í fáum orðum gera grein fyrir þeim brtt., sem n. er sammála um að flytja.

1. brtt. er, að aftan við 3. gr. frv. bætist nýr liður, er verði 3. gr. 4, svo hljóðandi: „Landlækni er skylt að sinna kvörtunum eða kærum, er varða samskipti almennings og heilbrigðisstétta.“ Þessi breyting skýrir sig sjálf, og þarf ekki að fara um hana fleiri orðum.

2. brtt. n. er, að við 22. gr. bætist nýr liður á eftir 4. tölul., sem fjallar um heilsuvernd. Nýi liðurinn er þannig, að við bætist: Sjónvernd og heyrnvernd.

3. brtt. er við 24. gr., en n. leggur til, að við hana bætist þetta: „Kjörtímabil stjórna heilsugæzlustöðva er hið sama og sveitarstjórna. Heimilt er að stofna starfsmannaráð heilsugæzlustöðvar stjórninni til ráðuneytis.“ Þessi breyting skýrir sig sjálf, og skal ég ekki hafa um hana fleiri orð.

4. brtt. n. er við 27. gr.2, að við bætist svofellt: „Þó skal í þeirri reglugerð ákveðið, að í hverju læknishéraði skuli vera a.m.k. eitt sjúkrahús samkv. tölul. 2 í 27.1, að geðdeild undanskilinni.“ Það gildir sama um þessa brtt. og hinar, að hún skýrir sig sjálf, og skal ég ekki hafa fleiri orð um hana.

5. brtt. n. er við 34. gr. frv., að við hana bætist svofellt: „Þegar um er að ræða stöður yfirlækna og sérfræðinga, hefur n. heimild til að kveðja tvo sérfræðinga sér til ráðuneytis. N. skal hafa skilað rökstuddu áliti innan fjögurra vikna, frá því að umsóknarfresti lauk.“

6. brtt. er við 36. gr. frv. Leggur n. til, að við hana bætist: „Þau umdæmi, þar sem erfitt er að halda uppi heilsugæzlu, skulu hafa forgang um byggingu heilsugæzlustöðva.“ Við 2. umr. frv. var af mörgum þm. lögð mikil áherzla á að fá þetta ákvæði inn í frv., enda hafði ég sem frsm. n. lýst því yfir, að þessi hugmynd hefði verið uppi í n. og um hana væri samkomulag, eins og flutningur þessarar brtt. ber með sér.

7. brtt. er við 41. gr. frv. Lagt er til, að upphaf hennar orðist svo: „Rn. og landlæknir skulu hafa forgöngu“ o.s.frv. eins og stendur í gr.

8. brtt. er við ákvæði til bráðabirgða. Hún er svofelld, með leyfi forseta:

„Við 1. lið bætist: Ákvæði í 17. gr. 2—3 skulu ekki koma til framkvæmda, nema ákvörðun Alþingis komi til. Á meðan skulu héraðslæknar á Hvolsvelli, Hellu, Selfossi, Laugarási, Eyrarbakka og Hveragerði gegna embættum sínum samkv. læknaskipunarlögum, nr. 43/1965, með áorðnum breytingum.“

Í framkvæmd þýðir þetta það, að ákvæði frv., að því er tekur til Suðurlandskjördæmis, um heilsugæzluumdæmi kemur ekki til framkvæmda að sinni og þeir læknar, sem sitja í þessum læknishéruðum, munu um sinn gegna þeim áfram.

9. brtt. er við ákvæði til bráðabirgða, 3. liðs, við hann bætist: „Heimilt er ráðh. að ráða hjúkrunarkonur til lækna utan heilzugæzlustöðva.“

Þetta eru þær brtt., sem n. hefur orðið sammála um að flytja við þessa 3. umr. En auk þess vissi n. um nokkrar fleiri brtt., þegar hún fjallaði um frv. í morgun, og auk þess hafa komið fram nú í byrjun þessa fundar nokkrar nýjar brtt. frá einstökum þm., sem þeir vafalaust munu mæla fyrir.

Út af brtt., sem ég hef séð og Stefán Valgeirsson er 1. flm. að, um heilsugæzlustöð á Kópaskeri hef ég verið beðinn, vegna þess að hæstv. heilbrmrh. er fjarstaddur, að gefa í hans nafni svofellda yfirlýsingu, sem við vonum að sé nægileg til þess, að flm. brtt. þeirrar, sem ég var áðan að kenna við Stefán Valgeirsson, geti sæmilega við unað. Yfirlýsingin er svo hljóðandi :

„Ljóst er, að í nokkrum sveitarfélögum á landinu verður æðilangt til heilsugæzlustöðva, og mun ráðh. með reglugerð kveða á um skyldur lækna viðkomandi heilsugæzlustöðva til þess að veita sjúklingum móttöku á slíkum stöðum. Reynist læknisþjónustan ekki fullnægjandi með slíku fyrirkomulagi, mun ráðh. nota heimild laganna um fjölgun stöðvanna.“

Eins og nú er, á að gegna læknisþjónustu á Kópaskeri frá læknamiðstöðinni í Húsavík, og er meining hæstv. ráðh. með reglugerð þeirri, sem hann væntanlega setur fljótlega, að kveða nánar á um skyldur lækna á heilzugæzlustöðinni í Húsavík til þess að gegna læknisstörfum á Kópaskeri. Reynist sú læknisþjónusta ekki nægjanleg, mun ráðh. nota heimild, sem tekin var upp í frv. við 2. umr., um að fjölga heilsugæzlustöðvum frá því, sem gert er ráð fyrir í frv. Vænti ég, að þetta verði talið nægilegt til þess, að hv. flm. þeirrar brtt., sem ég vék hér að áðan, geti eftir atvikum sætt sig við það.

Þá hef ég enn fremur verið beðinn að flytja þá yfirlýsingu frá hæstv. heilbrmrh, að áður en að því kæmi, að lagt yrði til, að Alþ. samþykkti gildistöku II. kafla frv., þ.e.a.s. um læknishéruðin, muni heilbrmrn. láta fara fram endurskoðun á kaflanum og hafa samráð við Samb. ísl. sveitarfélaga um þá endurskoðun. Vænti ég, að þessi yfirlýsing sé líka einhvers virði.

Í sambandi við skilning á ákvæði 32. gr., vil ég taka fram að gefnu tilefni, að hana ber ekki að skoða á neinn hátt á þann veg, að hún komi í veg fyrir, að forstöðukonur á sjúkrahúsum hafi með yfirstjórn hjúkrunarþjónustunnar að gera.

Það eina, sem ég vil svo bæta við, er að skýra frá því, að s.l. laugardag barst mér í hendur umsögn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, sem hafði fengið frv. þetta til umsagnar, en ekki sent n. umsögn það tímanlega, að hún kæmist inn í nál. En nú hefur sem sagt þessi umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga borizt, og af því að hún er mjög stutt, langar mig, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hana upp. Hún hljóðar svo:

„Með bréfi, dags. 2. f.m., sendi hv. þn. ofanskráð frv. til umsagnar sambandsins. Stjórn Sambandsins hefur fjallað um efni frv. á nokkrum fundum og samþykkt að koma á framfæri við n. eftirtöldum ábendingum:

1. Stjórn sambandsins er kunnugt um, að allmargar sveitarstjórnir og samtök sveitarfélaga hafa gert till. um breytingar á frv. í einstökum atriðum, sérstaklega að því er þær varðar, og væntir þess, að þær till. verði teknar til greina, eftir því sem unnt er og fært þykir.

2. Fyrir sitt leyti leggur stjórnin til, að umdæmaskipun sú, sem gert er ráð fyrir í frv. (umdæmi héraðslækna), verði löguð að þeirri umdæmaskiptingu, sem fyrir er í landinu og gert er ráð fyrir í frv. um breytingar á sveitarstjórnarlögum (um lögfestingu landshlutasamtaka sveitarfélaga).

3. Þótt gert sé ráð fyrir, að ákvæði laganna komi til framkvæmda á alllöngum tíma, telur stjórnin óhjákvæmilegt annað en fá einhverja hugmynd um þann kostnað, sem leiða mundi af framkvæmd laganna, einkum fyrir sveitarfélög, ef frv. yrði að lögum, óbreytt.

Þetta tilkynnist hv. þm. hér með.

Virðingarfyllst,

Magnús E. Guðjónsson.“

Ég hef þá lokið við að lýsa þeim brtt., sem heilbr.— og trn. Nd. stendur að. Til viðbótar vil ég aðeins segja það, að hv. n. hefur lagt sig mjög fram um það að reyna að leysa, eftir því sem þótt hefur fært, öll þau ágreiningsatriði, sem fyrir hana hafa verið borin upp það tímanlega, að hún hefði tækifæri til þess að ræða þau. Mín persónulega skoðun er sú, að flutningur mjög margra og stórra brtt. umfram það, sem n. hefur þegar flutt, geti orðið til þess að tefla framgangi frv. í hættu, og ég vil ekki að því standa. Hvort þetta er réttur skilningur hjá mér, get ég að sjálfsögðu ekki sagt um með fullri vissu. Það verður hver og einn hv. þm. að meta, þegar hann greiðir atkv. um þær brtt., sem verða fluttar umfram þær, sem n. hefur orðið sammála um að flytja.