09.04.1973
Neðri deild: 83. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3243 í B-deild Alþingistíðinda. (2721)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

1. brtt. er við 2. gr. frv., þess efnis, að síðari málsl. falli niður, en hann er:

„Hann skal vera sérmenntaður embættislæknir eða hafa menntun í félagslækningum og heilbrigðisfræðum, sem telst jafngild.“ Þetta leggjum við til, að falli niður, með skírskotun til l. um Stjórnarráð Íslands segir, um í 10. gr.: „Ráðuneytisstjórar og hagstofustjóri stýra rn. undir yfirstjórn ráðh.“ Þar eru ekki sett nein sérstök skilyrði fyrir, hvaða menntun ráðuneytisstjóri í neinu rn. skuli hafa, og við teljum því enga ástæðu til annars en lög um Stjórnarráð Íslands gildi einnig um heilbr.– og trmrn., en það bannar auðvitað alls ekki, að ráðuneytisstjóri sé læknir, þó óeðlilegt sé að lögfesta, að hann skuli vera læknir. Þetta teljum við óeðlilegt að hafa í frv. og leggjum því til, að það falli niður.

Í öðru lagi segir í 5. gr. frv.: „Ráðh. skal setja á stofn ráðgjafarnefnd um heilbrigðis— og almannatryggingamál: Heilbrigðisráð Íslands. Ráðuneytisstjóri er formaður ráðsins.“ Síðan er talið upp, hverjir skuli tilnefna menn í það. Það er læknadeild Háskólans, Læknafélag Íslands, Tannlæknafélag Íslands, Hjúkrunarfélag Íslands, Samband ísl. sveitarfélaga, tryggingaráð og stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs. Samtök heilbrigðisstétta tilnefni 2 menn í ráðið og ráðh. skipi 3 menn án tilnefningar. Okkur finnst óeðlilegt, að landlæknir sé ekki í þessu heilbrigðisráði, og þykir eðlilegt, að hann sé formaður ráðsins fyrst talin er nauðsyn á að stofna þetta ráð. Því leggjum við til, að í stað orðanna „ráðuneytisstjóri er formaður ráðsins“ komi: „Landlæknir er formaður ráðsins.“

3. og síðasta till., sem við flytjum á þessu þskj., er um það, að 6. gr. frv. falli niður, en hún er um það að heilbr.— og trmrn. skiptist í starfsdeildir í samræmi við ákvörðun ráðh. hverju sinni, en jafnan skuli fylgt eftirfarandi heildarskiptingu málefna, eins og þar segir, og eru þar taldar upp 5 deildir: sjúkrahúsmál og heilsugæzla; heilbrigðiseftirlit; lyfjamál; tryggingamál; áætlanir, rannsókn, skýrslugerð. Með tilliti til þess, sem er í gildi í l. um stjórnarráð Íslands, en í 7. gr. þeirra l. segir: „Ráðh. kveður á um skiptingu rn. í starfsdeildir eftir verkefnum“, álitum við, að alveg sé nægjanlegt fyrir þann ráðh., sem fer með þennan málaflokk, eins og fyrir aðra ráðh., að hann kveði á um skiptingu rn. í starfsdeildir eftir verkefnum, en setja ekki í þessi lög, að jafnan skuli fylgt ákveðinni heildarskiptingu málefna. Ég held, að það eigi m.ö.o. að lögfesta það að færa mjög verulega út starfsmannafjölda og stjórnkerfið í þessu rn., því að ég held, að það sé alveg nógu rúmt, sem er í l. um Stjórnarráð Íslands, að ráðh. kveði á um skiptingu rn. í starfsdeildir eftir verkefnum. Svo er það aftur háð samþykki ríkisstj. á hverjum tíma og fjárveitingavaldsins, hvað skuli ganga langt á hverjum tíma og leyfa mikla útvíkkun á einu og sama rn.

Enn fremur vil ég leyfa mér að flytja hér eina brtt. Ég er einn flm. að þeirri brtt., hún er ekki komin úr prentun, en það er brtt. við 17. gr. 4, Vestfjarðahérað. Í stað 1 komi: Patreksfjarðarumdæmi, og orðist þannig:

a. Patreksfjörður H 2, starfssvæði Patrekshreppur, Tálknafjarðarhreppur, Múlahreppur, Barðastrandarhreppur og Rauðasandshreppur.

b. Bíldudalur H 1, starfssvæði Suðurfjarðahreppur og Ketildalahreppur.

Ég tel, að þetta sé alveg í fullu samræmi við það, sem tekið var inn í frv. um nokkra aðra staði, eins og t.d. Flateyri og Þingeyri, svo að ég fari ekki út fyrir þetta sama kjördæmi. Því flyt ég þessa till., að ég tel, að það eigi að gilda sama um þessi gömlu læknishéruð öll.

Í sambandi við það, sem hv. frsm. og formaður heilbr.— og trn. sagði hér í lokin, að hann teldi, að það væri sem sagt ekki áhættulaust að flytja miklar brtt. við þetta frv., því að það gæti jafnvel stofnað því í hættu, að þessi mikilvægi lagabálkur næði fram að ganga, hygg ég, að ef meiri hl. er fyrir brtt., hvort sem þær eru veigamiklar eða veigalitlar, hlýtur hann að hafa skyldur til að greiða frv. atkv. þannig, að það fái hér löglega afgreiðslu eða meirihlutasamþykkt. Því held ég, að þessi ótti sé ástæðulaus með öllu. Hitt finnst mér aftur mjög skrítið, að frestað er með sérstöku ákvæði, bráðabirgðaákvæði, að II. kafli komi til framkvæmda, en hins vegar er því lýst yfir, að áður en hann komi til framkvæmda, skuli hann verða tekinn til endurskoðunar. Það er m.ö.o. viðurkennt, að hann sé gallaður og þurfi endurskoðunar við. Ég segi: Hver er munurinn á því, fyrst á að endurskoða og umbreyta þessum kafla, áður en hann kemur til framkvæmda, og því að fella hann niður úr frv. og flytja hann síðar, þannig að menn geti almennt verið ánægðir með hann? Ég varð fyrir vonbrigðum hvað þetta snertir og nokkur önnur atriði frá hv. heilbr.— og trn.