09.04.1973
Neðri deild: 83. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3245 í B-deild Alþingistíðinda. (2722)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef lofað að eyða ekki nema stuttum tíma til að ræða þetta mál að þessu sinni og hef valið þann kostinn að taka þá heldur til máls í nokkrar mínútur nú, fremur en að þurfa að sleppa því alveg, þar sem ég á þess ekki kost að vera hér á þingfundi í kvöld. Vegna þessara tímamarkanna er ljóst, að það er ekki tækifæri til að ræða frv. efnislega í heild. Ég vil þó í nokkrum orðum koma því að, að í þessu frv. er meginatriðið, að kerfi heilsugæzlustöðva komi í stað þeirrar skipunar, sem hér hefur verið í þessum efnum.

Öllum er ljóst, að heilbrigðisþjónustan í dreifbýlinu hefur átt við margs konar erfiðleika að stríða. Þar hefur verið t.d. ákaflega erfitt að fá lækna til starfa. Þeir hafa verið óánægðir með að sitja einir á læknissetrum, hafa vaktskyldu, má segja, allan sólarhringinn og margir án allrar aðstoðar. Þar hafa ekki verið skilyrði eða aðstæða til þeirrar hópsamvinnu lækna, sem fer mjög vaxandi víðast hvar í heiminum og vafalaust verður hér framtíðin, og ekki verið aðstæður til nútímalegra lækninga. Þar hefur hver læknir verið hlaupandi á milli sjúklinganna með sína svörtu tösku, í stað þess að geta tekið þá inn á þokkalega heilsugæzlu– og rannsóknarstöð og veitt þeim lækningu á nútímavísu.

Ég hygg, að frumskilyrði þess, að læknar fáist til þess að sinna lækningum í dreifbýlinu í framtíðinni, sé, að einmitt þessu kerfi heilsugæzlustöðva verði komið á fót. Ef hreppasjónarmið og annað þess konar verður til þess að eyðileggja þennan hluta frv., tel ég, að sé mjög illa farið, og furða mig raunar á því, að margir þm. dreifbýlisins skuli hafa verið í fararbroddi að vinna að því að skemma þennan þátt. Ég held, að almenningur megi ekki aðeins horfa á ástandið í læknamálunum eins og það nú er, heldur hvernig það virðist koma til með að verða samkv. þeirri þróun, sem verið hefur í þessum efnum að undanförnu, ef ekkert verður að gert.

Ég vildi þá aðeins geta um till. þeirra Matthíasar Bjarnasonar, Bjarna Guðnasonar, Matthíasar Á Mathiesen og Björns Pálssonar, sem eru í þremur liðum. 1. brtt. þeirra er við 2. mgr., þannig, að síðari málsl.: „Hann skal vera sérmenntaður embættislæknir eða hafa menntun í félagslækningum og heilbrigðisfræðum“, skuli falla niður. Ég tel, að ef þessi brtt. verður samþ., sé mjög illa farið. Ráðuneytisstjóri í heilbrmrn. er mjög oft, ef ekki alltaf, að vinna að mjög sérhæfðum störfum og þarf að eiga við menn, sem hafa sérmenntun í þessu fagi. Ég tel, að það sé nauðsynlegt, að einmitt þessi maður hafi læknismenntun, þannig að hann geti rætt við lækna um þeirra mál og skoðanir af jafnmikilli þekkingu og þeir. Ég átti dálítinn þátt í þessu frv. um tíma, og mín reynsla í því starfi, sem ég innti af hendi í sambandi við þetta mál, sannfærði mig um, að það er algerlega nauðsynlegt að hafa læknismenntaðan mann í þessu embætti.

2. till. þeirra félaga gerir ráð fyrir því, að landlæknir verði formaður Heilbrigðisráðs Íslands í stað ráðuneytisstjóra. Ég sé út af fyrir sig ekki mikið athugavert við að breyta því né heldur ástæðu til þess.

3. brtt. er um það, að gr. um deildaskiptingu rn. falli niður. Ég get ekki skilið, hvernig stendur á því, að þetta rn. þarf ekki að hafa sína deildaskiptingu eins og önnur rn. Mér sýnist það ákaflega óeðlileg sjónarmið að gera þetta rn. að einhverju leyti minna og áhrifaminna en önnur rn.

Ég mun þá ekki fjölyrða frekar um þetta, en ég treysti því, að alþm. leggi nú niður hina venjubundnu íhaldssemi sína, þegar einhver slík nýmæli eru á dagskrá, sýni málinu skilning og veiti þessu stefnumarkandi frv. liðsinni sitt.