09.04.1973
Neðri deild: 83. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3248 í B-deild Alþingistíðinda. (2725)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt Matthíasi Bjarnasyni að flytja eina brtt. á þskj. 605 varðandi þetta frv., sem hér er nú til umr. og lýtur hún að 5. gr. Sú grein fjallar um Heilbrigðisráð Íslands, og mér telst til, að í því ráði muni sitja 12—13 manns. Það hefur hvarflað að okkur tillögumönnum, að ekki væri óeðlilegt, að þetta ráð starfaði án þóknunar. Á það má benda, að flestir þessara manna, sem sitja í ráðinu, munu vera fastir starfsmenn ríkisins, og því ekki mikil ástæða til þess að fara að launa þá sérstaklega. Ég hygg nefnilega, að málum sé þannig komið hjá okkur í reynd með vaxandi fjölda ráða og nefnda, að það þurfi í þessu efni að fara að spyrna við fótum, og þess vegna standa efni til þess að hefjast nú handa um þetta atriði.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta frekar, því að þessi till. er eins ljós og frekast má vera.