09.04.1973
Neðri deild: 83. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3249 í B-deild Alþingistíðinda. (2727)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það eru tvö ákvæði í þessu frv., sem mig langar til að gera að umtalsefni. Ég tel, að þau snerti mitt starfssvið, og vil ekki láta umr. ljúka hér, án þess að ég láti í ljós, hvaða skoðun ég hef á þeim. Það eru ákvæðin í 2. gr. og 6. gr.

Í 2. gr. segir:

„Ráðuneytisstjórinn skal vera sérmenntaður embættislæknir eða hafa menntun í félagslækningum og heilbrigðisfræðum, sem telst jafngild.“

Ég er andvígur því, að farið sé að gera sérfræðikröfur til ráðuneytisstjóra. Ég sé ekki, hvern enda það tekur, ef á því á að byrja. Það má þá hugsa sér, að það verði að fara að gera svipaðar kröfur um önnur rn. og þess verði krafizt, að ráðuneytisstjóri við fjmrn. sé hagfræðingur, ráðuneytisstjóri í sjútvrn. fiskifræðingur o.s.frv., o.s.frv. Ég er því jafnandvígur, að það sé farið að gera slíkar sérfræðikröfur til ráðuneytisstjóra, eins og ég er því andvígur, að farið yrði að gera sérfræðikröfur til ráðh. eftir því, hvaða rn. þeir eiga að fara með. En hverja skoðun sem menn hafa á þessu, held ég, að það sé ljóst, að slíkt ákvæði sem þetta á ekki heima í þessu frv. Ef menn vilja breyta um stefnu í þessum efnum og fara að gera sérfræðikröfur til ráðuneytisstjóra, eiga ákvæði þar um heima í lögum um Stjórnarráð Íslands, en þar eru ekki gerðar sérfræðikröfur til ráðuneytisstjóra.

Viðvíkjandi 6. gr. er það að segja, að þar er í raun og veru líka gengið inn á svið stjórnarráðslaganna með því að ætla að fara að lögbinda ákveðna, ófrávíkjanlega deildaskiptingu í einu rn. Ef menn vilja fara að lögbinda deildaskiptingu í rn., á sú lögbinding einnig heima í l. um Stjórnarráð Íslands. Samkv. l. um Stjórnarráð Íslands er það að vísu svo, að gert er ráð fyrir deildaskiptingu, og á grundvelli þeirra hefur verið sett upp deildaskipting. En samkv. l. um Stjórnarráð Íslands er gert ráð fyrir því, að sett sé sérstök reglugerð um allt stjórnarráðið, sem taki til allra rn. jafnt. Það hefur verið gert. Ef menn vilja fara að setja ákveðna deildaskiptingu í einstökum rn., á að setja hana inn í reglugerð um stjórnarráðið og setja þau ákvæði heildstætt, þannig að það gildi sömu reglur fyrir öll rn. Það er forsrh., sem gefur út reglugerð um Stjórnarráð Íslands, og það er hann, sem fer með málefni Stjórnarráðs Íslands. Þess vegna tel ég það heyra undir forsrh. að setja reglur sem þessar, ef setja skyldi. Auðvitað getur verið mjög nauðsynlegt að setja nánari reglur um deildaskiptinguna í reglugerðina um Stjórnarráð Íslands, en þá endurtek ég, að það eiga að vera reglur almenns eðlis, þannig að þær taki til allra rn. jafnt, en eitt rn. geti ekki farið sína leið í þessum efnum.

Hér er gert ráð fyrir nokkuð stórum hlut, því að það er gert ráð fyrir ákveðnum deildum, sem upp eru taldar, og það er líka gert ráð fyrir því, að ráða skuli sérmenntað starfslið til að veita forstöðu heildarstarfsemi. Ég býst við að þetta hljóti að eiga að skiljast svo að það sé einmitt gert ráð fyrir sérmenntuðum deildarstjóra, að það sé átt við þá með þessu, þegar talað er um starfslið, sem eigi að veita forustu heildarstarfsemi.

Ég er sem sagt andvígur því að lögbinda, að ráðuneytisstjóri í heilbr.– og trmrn. skuli vera endilega læknir. Hann getur verið það, það er ekkert, sem bannar það, og ráðh. getur valið úr umsækjendum og getur þá e.t.v. metið það svo, að hann leggi svo mikið upp úr lækniskunnáttu í því sambandi, að hann taki lækni fram yfir aðra. En vitaskuld fer heilbr.— og trmrn. einnig með tryggingamálefni, og það eru til sérstakir tryggingafræðingar.

Það má segja, að ég hefði átt að benda á þessi atriði við 2. umr. málsins, en það var skýrt frá því þá, að n. sú, sem fjallar um frv., mundi halda fund á mánudag, og auglýsti eftir því, að menn kæmu till. sínum og ábendingum á framfæri við hana. Ég valdi þann kostinn að beina þeim tilmælum til n. að athuga, hvort það gæti ekki orðið samkomulag í n. um að breyta þessum ákvæðum. Það hefur því miður ekki geta orðið, þó mér sýnist það nú tiltölulega einfalt mál að breyta þeim.

Mér er ómögulegt að sjá, að framgangi þessa frv. sé stefnt í nokkra hættu, þó að gerð sé breyting á þessum ákvæðum. Ég tel þessi atriði, sem ég hef bent hér á, alger aukaatriði í sambandi við aðalefni þessa frv. um heilsufarsmálefni, þannig að ég get ekki séð, að það spilli þessu frv. á neinn hátt, þó að gerð sé breyting á þessum ákvæðum.