09.04.1973
Neðri deild: 83. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3279 í B-deild Alþingistíðinda. (2743)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég heyrði ekki fyrri hávaðasömu yfirlýsingu þessa brjóstmikla Bolvíkings, sem hér var að stíga úr ræðustólnum. En vegna þess að hann talaði um, að þm. hafi komið hér upp og skrökvað, þá væri auðvitað gaman að fá að heyra það, hvenær fundur hafi verið auglýstur í Reykjavíkurkjördæmi á sama veg og hann hefur verið auglýstur í öðrum kjördæmum landsins, þótt honum hafi að vísu oft verið frestað, en hv. þm. sagði núna fyrir nokkrum mínútum í ræðustól, að slíkir fundir hefðu verið auglýstir í öllum kjördæmum landsins. (KP: Ég sagði haldnir.) Auglýstir og haldnir í öllum kjördæmum landsins. Þetta finnst mér auðvitað vera smáatriði í sambandi við málið sjálft. En það, sem mér þótti merkilegra, var, að hv. þm, sagði, að allir hagsmunahópar hefðu fengið að kynnast málinu og gætu fengið að segja hug sinn um það.

Nú má segja sem svo, að það eru vissar opinberar stofnanir á vegum ríkisins, sem geta verið kannske beztu aðilarnir til þess að segja til um ákveðið mál, ekki aðeins fyrir einstaka hagsmunahópa, heldur fyrir ákveðnar, stórar heildir. Ég á þar t.d. í þessu tilfelli við Fiskifélagið og Hafrannsóknastofnunina. Nú væri gaman að fá upplýst um það, hvort þessar stofnanir hafi fengið frv. í þeirri mynd, sem við höfum fengið það hér í dag. Hafa þeir séð frv. eins og það var lagt fram síðd. í dag fyrir hv. Alþ.? Ég efast um, að svo sé, og það er m.a. vegna þess, sem ég krefst þess sem þm. og vænti þess, að aðrir þm., a.m.k. meiri hl., taki undir það með mér, að málið verði sent til sjútvn. hv. d., þannig að hún geti látið slíka aðila segja til um frv. í þeirri mynd, sem það er núna. Ég er nefnilega viss um, að það eru ákveðin atriði í þessu frv., eins og það hefur verið lagt fram, sem þeir munu mæla mjög gegn, en jafnvel mæla með ákveðnum brtt., sem koma fram.