09.04.1973
Efri deild: 87. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3280 í B-deild Alþingistíðinda. (2747)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég þykist vita, að hv. þdm. séu orðnir harla þreyttir á langri þingsetu hér í dag, þannig að ég vil ekki afla mér slæms hugar með því að fara að flytja langa ræðu við þessa 1. umr., enda hefur hæstv. fjmrh. ekki gefið tilefni til þess með þeim orðum, sem hann sagði hér. Hins vegar gæti margt af því, sem hann sagði ekki, gefið tilefni til allítarlegrar umr. Ég hef hins vegar hugsað mér að geyma mér hugleiðingar um þau atriði.

Ég hef að sjálfsögðu allmargt við þetta mál að athuga, bæði vinnubrögð í sambandi við undirbúning þess og hversu það hefur borið að nú á síðustu dögum þingsins og jafnframt varðandi ýmis önnur atriði efnislega. Þó að ég flytji ekki langt mál við þessa umr. ber því ekki að skilja það sem nein blessunarorð yfir því, hvernig frá þessu máli öllu er gengið, enda þótt ég út af fyrir sig hafi ekkert við meginatriði málsins að athuga, þ.e.a.s. hinar einstöku framkvæmdir, sem hér eru til í fjármögnunar. Það er allt gott og blessað og er jafnan svo. Það er sjaldan hægt að benda á það, þegar verið er að verja fé til og afla fjár til ýmissa framkvæmda á vegum ríkisins, að það sé verið að afla fjár til óþarfra hluta. Spurningin verður aðeins sú, hvað hægt sé að ganga langt í framkvæmdum og hvernig eigi að þeim að standa. Sama gildir að sjálfsögðu um annan þátt áætlunarinnar, sem er fjáröflun til hinna ýmsu framkvæmdasjóða atvinnuveganna. Þá verður einnig að gera sér grein fyrir því, hvernig haga á röðun framkvæmda, ef á þarf að halda, miðað við það ástand, sem er í þjóðfélaginu hverju sinni. Við vitum öll, að það er slík þensla í þjóðfélaginu nú, að það verður auðvitað að fara mjög varlega í þessum efnum, og vænti ég, að allir séu sammála um það, jafnt stjórnarliðar sem stjórnarandstaða. Hins vegar verður það alltaf matsatriði, hvað hægt er að komast hjá að gera og afla fjár til hverju sinni. Oft er það svo, að menn hrekjast til meiri útgjalda en þeir jafnvel vildu. Hin svokallaða niðurröðun framkvæmda var á sínum tíma vinsælt hugtak, og ríkisstj. taldi, að höfuðverkefni sitt væri að koma á breyttri tilhögun og skipulagningu, þar sem öllu væri raðað eftir einhverjum útreiknuðum formúlum og tekið á undan það, sem á undan skyldi koma, og með þessum hætti væri hægt að ná tökum á öllum hlutum. Reyndin hefur orðið sú, að þessi röðunarframkvæmd hæstv. ríkisstj. hefur tekið á sig ýmsar skringilegar myndir og reynslan auðvitað orðið sú, að viðfangsefnin eru ósköp svipuð, sem við er að fást, hver sem við völd er. Menn neyðast til þess að beygja sig fyrir þessum staðreyndum.

Ég ætla ekki við þessa umr. að hafa mál mitt lengra. Málið kemur til athugunar í n., þar sem ég á sæti, og gefst mér þá kostur á að koma að þeim sjónarmiðum og athugasemdum, sem þörf er á að koma fram. Mun það þá gerast við 2. umr. málsins, því að ég álít það ekki þjóna neinum tilgangi, eins og ég áðan sagði, að þreyta hv. þm. með því að vera að halda hér áfram í kvöld umr. þó að það hafi stundum verið gert, finnst mér það einhvern veginn ekki þjóna markmiði, úr því að fram undan er sá möguleiki að athuga málið nánar. Í rauninni væri nauðsynlegt að íhuga ýmislegt, sem hefur verið að gerast á síðustu tímum, og þess vegna ekki nema gott um það að segja að fá málið til nánari íhugunar. Og þar sem hæstv. ráðh. endaði með þeim orðum, sem hann sagði hér áðan, gafst ekki tilefni til þess, að ég færi sérstaklega að svara honum, en hann vitnaði til þeirrar skýrslu, sem hér liggur fyrir og við munum taka til meðferðar með eðlilegum hætti. Ég ætla ekki, herra forseti, að þreyta menn í þetta skipti með lengra máli, en áskil mér rétt til að tala nokkru lengur við 2. umr. málsins.