10.04.1973
Sameinað þing: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3288 í B-deild Alþingistíðinda. (2760)

192. mál, lífeyrisréttindi sjómanna

Flm. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér er flutt, þarfnast ekki langrar útskýringar í framsögu. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta semja og leggja fyrir næsta reglulegt Alþingi frv. til laga, er tryggi sjómönnum, er skrásettir hafa verið á íslenzk skip í tiltekinn árafjölda, full lífeyrisréttindi við 60 ára aldur.“.

Augljóst má öllum vera, að tilgangurinn með flutningi till. er fyrst og fremst sá að stuðla að því, að sjómenn fái full lífeyrisréttindi nokkrum árum áður en almennt gerist um lífeyrisþega. Hin almenna regla í dag er sú, að 67 ára aldri verður lífeyrisþegi að ná til að öðlast þennan rétt. Það er hins vegar einkum tvennt, sem styður það, að umrædd breyting eigi sér stað. Það er í fyrsta lagi sú þjóðarnauðsyn, sem á því er að gera sjómannsstarfið eftirsóknarverðara en það er í dag og ljósast kemur fram í því, að allt of víða eru skip við störf sín á hafinu án þess að vera fullmönnuð. Nægir í því efni að vitna til nýlegra upplýsinga frá sjútvrn. um, að á fiskveiðiflotann einan vanti nú nálega 500 manns fyrir utan annan eins fjölda til sjálfrar fiskvinnslunnar í landi. Og í öðru lagi: Sjómenn virðast eiga mun erfiðara en fólk úr öðrum starfsgreinum að fá viðunandi starf í landi að loknum áralöngum starfsdegi. Þetta eru staðreyndir, sem á síðari árum hafa orðið enn ljósari en fyrr vegna síaukinna krafna um hvers konar sérhæfingu til starfa í landi. Þegar því þrengist um á hinum almenna vinnumarkaði, nýtast ekki svo sem skyldi hæfileikar sjómanna til starfa í landi, sem þeir hafa e.t.v. öðlazt í áratugastarfi á sjó.

Fyrirhafnaminna hefði e.t.v. verið að flytja um þetta efni sérstakt frv. og breyta einfaldlega aldurstölum varðandi sjómenn, svo sem till. þessi gerir ráð fyrir. Eftir nokkra athugun var þó frá því ráði horfið, þar sem málið snertir fleiri atriði í starfsemi lífeyrissjóða sjómanna en í fyrstu kann að virðast. Þess vegna þarfnast till. haldgóðrar athugunar, svo að fyllsta samræmis verði gætt.

Af framangreindum ástæðum er gerð till. um sérstaka nefndarskipan til tryggingar nauðsynlegum undirbúningi málsins.

Herra forseti. Ég legg til að, að loknum umr. nú verði málinu vísað til hv. allshn.