10.04.1973
Sameinað þing: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3291 í B-deild Alþingistíðinda. (2765)

138. mál, Lífeyrissjóður allra landsmanna

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Hér hefur vissulega ekki aðeins verið hreyft nauðsynlegu máli, heldur líka afar viðkvæmu og erfiðu máli, eins og hefur komið fram í ræðu hæstv. forsrh. Um leið og sjálfsagt er að taka undir það, sem hann sagði um hans forgöngu á sínum tíma um flutning þeirrar þáltill., sem hann flutti 1957 eða allavega var samþ. þá, um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, þá finnst mér þó skylt að rekja þessa sögu nokkru nánar, þar sem mér virðist hún ekki hafa komið fram hjá viðkomandi aðilum. Áður en að þeim tíma kom, höfðu mörg iðnaðarmannafélög í landinu samið í sínum kjarasamningum um lífeyrissjóði. Þetta var hluti þeirra samninga. Það vissu allir um opinbera starfsmenn, einstaka hópa, og þegar þá var komið, vil ég leyfa mér að halda fram, nær alla opinbera starfsmenn, sem áttu þá aðild að lífeyrissjóði og strax þá jafnvel verðtryggðum lífeyrissjóði. En það var nokkuð nýtt þá, að hin almennu verkalýðsfélög og sjómannafélög eignuðust lífeyrissjóði. Ég held, að fyrsta stóra skrefið, sem var stigið í því efni, hafi verið frv. hinnar fyrri vinstri stjórnar í sambandi við lífeyrissjóð togarasjómanna, sem var einmitt flutt til þess að leysa ákaflega erfiða kjaradeilu. Þegar það frv. var flutt og því heitið framgangi, að mig minnir 1956, voru dregnar til baka ýmsar þær kröfur, sem á þeim tíma voru sambærilegar við það, sem önnur stéttarfélög höfðu fengið, sem höfðu samið fyrir sitt fólk, er í landi starfaði. Meðal sjómanna var þá talið, að þarna væri í fólginn nokkur hluti þeirra launa, sem þeir kannske hefðu átt alveg jafnmikla kröfu á að ná fram í sínum samningum og aðrir þegnar þjóðfélagsins höfðu þá fengið almennt.

Ég held, að það hafi verið 1957, að Iðja, félag verksmiðjufólks í Reykjavík, samdi um lífeyrissjóð fyrir sína meðlimi. Að vísu voru þeir samningar þá á nokkurn hátt eyðilagðir af skammsýnum mönnum, sem réðust gegn þessum samningum. Það var m.a. þá talað um, að sú stjórn. sem þá réð í þessu verkalýðsfélagi, hefði fengið sína samninga færða til sín á silfurdiski. En eitt þeirra stóru atriða, sem þá náðust fram, var einmitt þetta atriði, lífeyrissjóður fyrir félagana þar. Um það leyti sem núv. hæstv. forsrh. flutti sína þáltill., stóðu yfir samningar, sem ekki lyktaði fyrr en nær tveimur árum síðar, um lífeyrissjóð fyrir aðra meðlimi Sjómannafélags Reykjavíkur en bátasjómenn, þ.e. farmennina, og þetta var fengið fram á nákvæmlega sama hátt, að það var dregið í land með kröfugerð í sambandi við samninga til þess að ná þessu fram. M.a. þess vegna voru þessir menn nokkru lægri í almennum launum en sambærilegar stéttir í landi, sem tóku, eins og við sögðum alltaf, sem hlut áttum að máli í þessum samningum, allt kaupgjaldið á þeim tíma og eyddu því jafnóðum, meðan þeir aðilar, sem sömdu um þetta, lögðu það fyrir. En því miður varð stór hluti þess verðbólgunni þá eins og nú að bráð, vegna þess að engin verðtrygging var þá á þessum sjóðum og er ekki enn.

Þegar svo á sínum tíma fyrir nokkrum árum var samið um lífeyrissjóð fyrir alla sjómenn, bátasjómenn líka, var lífeyrissjóður togarasjómanna orðinn einn stærsti og öflugasti allra lífeyrissjóða hér á landi. Þá var öllum bátasjómönnum boðin aðild að þessum sjóði. En það voru þá heil landssvæði, sem ekki vildu taka þátt í honum, vildu vera með eigin sjóð. Þeim var samt boðin þátttaka í þessari miklu eign, sem þarna hefði skapazt, vissulega vegna ýmissa lagaákvæða í sambandi við þennan sjóð, en samt hefur ekki reynzt nægilegur vilji til þess að verðtryggja lífeyri þann, sem er greiddur úr honum.

Ég tel, að það sé fyrst og fremst vegna þess, að þeir, sem tilheyra þessum sjóði, búa kannske við mesta slysafargan og örorkufargan allra stétta, sem í slíkum sjóðum eru.

Um leið og lagt er til, að þessir sjóðir, sem hafa náðst fram á þennan hátt, verði sá grunnur, sem þeir byggi á, sem hafa ekki lagt sig eftir því, að fá slíka sjóði. Þá tek ég undir það með hæstv. forsrh., að það verður ábyggilega mjög viðkvæmt mál, að ná því fram. Hitt er annað mál, að það eru auðvitað margir hópar landsmanna, sem ekki hafa aðstöðu til að semja um slíkt, og það er sjálfsagt, að mínu mati, að bjóða þeim aðild að þeim sjóðum, sem fyrir eru, og jafnvel að koma nokkuð á móti skoðun flm. um það, að einhvers konar samvinna skapist á milli þeirra, þannig að það megi draga þá kannske minni og veikari sjóðina inn í þá stærri. En um leið og það er gert, leyfi ég mér aftur að vitna til orða hæstv. forsrh. um það, að þetta er orðið erfiðara nú en var fyrir nokkrum árum. Þetta er viðkvæmt mál, og þarna er fyrst og fremst verið að ræða um það, að löggjafinn með einhverjum öðrum aðilum eigi að fara að ráðstafa sparifé þessara manna. Þeir telja þetta sitt sparifé, sem það vissulega er.

En það er auðvitað mál málanna, eins og frsm. tók hér fram í fyrstu, að takist að verðtryggja þessa sjóði. Við gátum lesið það í einu dagblaðanna um daginn, að opinberir starfsmenn njóti í stað 4% greiðslna úr ríkissjóði, eins og í samningum þeirra og lögum, jafnvirðis 14%, og kemur hvergi fram í sambandi við samninga þeirra, laun eða kjör. Ég geri ráð fyrir, að ef að því væri hægt að vinna að verðtryggja alla vega þá mörgu, stóru og sterku lífeyrissjóði, sem eru til staðar, þá mundi ekki standa á þeim aðilum, sem þar stjórna og telja sig eigendur þeirra, að taka með sér þá hina tiltölulega fáu, sem ekki eiga aðild að slíkum lífeyrissjóðum í dag. Ég er hins vegar sammála flm. um, að það væri æskilegt, að það gæti orðið enn meiri samþjöppun, en ég tel það ekki neina nauðsyn eins og er.