10.04.1973
Sameinað þing: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3293 í B-deild Alþingistíðinda. (2766)

138. mál, Lífeyrissjóður allra landsmanna

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það var flm. þessarar till. ekkert fjær skapi, þegar þeir sömdu hana og lögðu hana fram, en að ætla sér að reyta skrautfjaðrir af hæstv. forsrh. Við virðum hann fyrir áhuga hans á þessu máli, og ef hans hlutur er ekki nægilegur í grg. skal ég gjarnan biðja hann velvirðingar á því og biðja hann að taka viljann fyrir verkið. Það er þá ekki í fyrsta sinn, sem þm. er kunnugast um það, hvað þeirra eigin flokksmenn hafa áður gert. Þess vegna er okkur Alþfl.-mönnum minnisstætt það verk, sem Haraldur Guðmundsson á sínum tíma vann og var gott verk og þýðingarmikið, þó að fjölmargir aðrir aðilar hafi við þetta mál komið. Hæstv. forsrh. gaf í skyn, að undanfarinn áratug eða svo, hafi skort áhuga Alþfl. á þessu máli. Ég get sagt honum, ef hann veit það ekki, að fyrrv. ríkisstj. hafði þetta málefni hvað eftir annað til meðferðar og gerði margar tilraunir til að koma á einhverri heildarskipan lífeyrissjóða, enda þótt það reyndist ekki vera mögulegt. Á þessu tímabili höfðu sumar stéttir komið sér upp sjóðum, en aðrar ekki. Þær, sem ekki höfðu eignazt lífeyrissjóði, voru að reyna að koma þeim upp. Þess vegna var jarðvegur fyrir sameiginlega skipan þessara mála í heild mjög erfiður. Ég get t.d. minnt hæstv. forsrh. á tímabilið, þegar húsnæðismálalöggjöf var sett síðast í ráðherratíð Emils Jónssonar. Þá var gerð ein síðasta stórtilraunin til þess að koma þessari hugmynd fram, en hún mætti þeirri mótstöðu, að hún tókst ekki.

Það er rétt hjá hæstv. forsrh. og hv. 10. þm. Reykv., að þetta er mjög viðkvæmt og vandmeðfarið mál. Það munu vera rúmlega 100 lífeyrissjóðir í landinu, og þessir lífeyrissjóðir hafa hver sinn hóp félaga og hver sína stjórnendur. Þetta fólk mun að sjálfsögðu ekki hafa í huga að semja af sér réttindi, svo að ég noti orð hæstv. ráðh. Það er ekki heldur okkar ætlan að það þurfi að fara fram á, að það semji af sér réttindin. Einmitt vegna þess, hve erfitt er að sameina þessa 100 sjóði, sem raunverulega hafa 100 bankastjórnir, þó að bankarnir séu mismunandi stórir, vörpuðum við fram þessari hugmynd, hvort ekki sé hægt að koma sameiningu fram á þann hátt, að sjóðirnir verði til áfram og þeir verði aðilar að heildarsjóðnum og stjórni honum. Tilgangurinn með heildarsjóðnum er í fyrsta lagi að koma á meira samræmi en er á milli sjóðanna, þannig að það sé ekki mismunandi hvaða lífeyrissjóðsréttinda einstaklingar njóta í landinu, og í öðru lagi að gera ráðstafanir til þess, að þeir landsmenn, sem eru ekki í neinum sjóði, fái notið þeirra hlunninda að vera í lífeyrissjóði. Ég get tekið undir það með hv. 10. þm. Reykv., að í þeim efnum kemur mjög til greina að reyna að koma heilum starfshópum, sem enga lífeyrissjóði hafa, fyrir í einhverjum af þeim sjóðum, sem fyrir eru. Það er ein af þeim leiðum, sem sjálfsagt er að athuga.

Ég fagna því, að hæstv. forsrh. skyldi láta í ljós skoðanir sínar og áhuga, sem ég efast ekkert um að sé bæði mikill og einlægur í þessu máli, og ég vil leyfa mér að líta svo á, að undir forustu hans megi vænta alvarlegra tilrauna til þess að koma þessari gömlu hugsjón hans í verk. Ég held mér sé óhætt að lofa því, að það muni ekki standa á stuðningi míns flokks við heiðarlegar tilraunir í þá átt.