10.04.1973
Sameinað þing: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3294 í B-deild Alþingistíðinda. (2767)

138. mál, Lífeyrissjóður allra landsmanna

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal ekki þreyta ykkur á langri ræðu, en satt að segja finnst mér enginn þurfa að hæla sér af því að hafa átt þátt í þessu kerfi, eins og það er núna, eða haft frumkvæði í þeim málum, því að ég held, að það mætti lengi leita til að finna jafnvitlaust tryggingakerfi og er hjá Íslendingum. Ég verð satt að segja að bera blak af krötum, aldrei þessu vant, þá eiga þeir afar lítinn þátt í þessari vitleysu. Þeir greiddu raunar atkv. með þessu vitlausa lífeyrissjóðakerfi, en frumkvæðið eða upphaflegi samningurinn var milli hæstv. núv. félmrh. og fyrrv. forsrh. út af vinnudeilu. Það er allt annað frjálsir lífeyrissjóðir eða þessar skyldutryggingar, sem komið er á. Vitanlega eru ellitryggingarnar eða almannatryggingarnar ekkert nema lífeyrissjóður, þ.e. lífeyrir, sem gömlu fólki er greitt. Svo koma skyldutryggingarnar, svo koma alls konar aukasjóðir, og svo, eins og búið er að benda á, að sumir eru í 4—5 lífeyrissjóðum og fá allt að því fimmföld eftirlaun. Ég hygg, að séu dæmi til, að menn fái fimmföld eftirlaun. Haldið þið ekki, að væri meiri hagsýni að hafa þetta allt í einu kerfi. Svo geta menn tryggt sig frjálst þar fyrir utan, eins og gert er yfirleitt í nágrannalöndum okkar. Þar eru frjálsar tryggingar, en þær eru óhagkvæmar hér, af því að við erum alltaf að fella gengið. Lífeyrissjóðirnir eru gerðir hreinlega verðlausir. Og hvernig hefur verið farið með sjómennina? Tekið af þeim 10%. Svo þegar þeir hafa viljað fá endurgreitt það, sem þeir hafa lagt í sjóð, þá hafa þeir fengið 4%, en ekki 6%, og var þó auðvitað greitt vegna þeirra eigin vinnu. Afar margir tóku þessi 4%, sem þeir voru búnir að borga. Menn vinna nokkur ár við sjávarútveg, þeir hafa heimild til að taka sín 4%, en fengu ekki 6%. Enn þá er sami leikurinn leikinn við unga fólkið.

Ég hef skrifað og talað um þetta svo víða, að ég ætla ekki að orðlengja um það hér. Það er t.d. með fádæmum, að óbreyttur verkamaður þarf að fara að borga 16 ára gamall og borga til 67 ára aldurs, í 51 ár, en ríkisstarfsmenn borga yfirleitt ekki nema í 30 ár, og svo er allt verðtryggt hjá þeim. Hugmynd mín er sú, að allir landsmenn búi við sömu kjör, og svo má hækka lífeyrinn, ef þjóðin hefur efni á því. Ég hef látið mér detta í hug, að það yrði greitt eins og 2/3 af venjulegum starfslaunum og það hækkaði svipað og gerist hjá opinberum starfsmönnum, ef gengið breyttist. Ég geri ekki ráð fyrir, að þetta yrði jafnhátt fyrir alla, þeir fengju lægra, sem gætu verið í fullu starfi áfram, — verulega lægra. Ég álít þá hugmynd rétta, því að það er meira virði fyrir aldraða fólkið að hafa vinnu en að fá meiri tekjur fyrir að gera ekki neitt, því að við vitum ósköp vel, sem búnir erum að vinna alla ævina, að lífið er búið, þegar við hættum að vinna. Sama er að segja um sjúkra- og atvinnuleysistryggingarnar og örorkubætur. Það er miklu einfaldara að hafa eitt kerfi en margfalt. Ef fólk vill vera tryggja sig þar að auki getur það gert það.

Ég las skýrslu Haralds Guðmundssonar. Jú, þetta var vel orðað. Haraldur var gáfaður maður, og niðurstaðan var einfaldlega þessi: Íslendingar hafa efni á að koma á þessu tvöfalda kerfi? En því gera nágrannaþjóðir okkar þetta ekki, og höfum við efni á því? Af hverju var gengið lækkað í vetur? Af því að við vorum of fátækir. Ég hef lesið töluvert mikið af sagnritum um það, hvernig stóð á því, að frankinn lækkaði í verði eftir stríðið. Það var af því, að Frakkar voru of fátækir. Ríkissjóðurinn stóð sig of illa. Ef íslenzki ríkissjóðurinn hefði haft 2—3 milljarða í vetur, þegar gengið var lækkað um 10%, þurfti ekki að lækka gengið. Og allir lífeyrissjóðir eru einskis virði, ef alltaf er verið að lækka gengið. Við höfum ekki efni á að verðtryggja spariféð. Við þurfum að fara betur með fjármunina til þess að hafa efni á þessu.

Það eru sennilega allt að því 3 milljarðar, sem koma í lífeyrissjóðina í ár. Verið er að basla við framkvæmdaáætlun og ráðgera að taka erlend lán. Ef ríkisvaldið tæki á þessu af einhverju viti, ætti að skylda lífeyrissjóðina til að lána fé í þessar framkvæmdir, heldur en láta þá eyða því í alls konar brask og vitleysu. En það einfalda er að afnema hreinlega þessa tvöföldu og þreföldu skyldutryggingu og hafa bara einfalda skyldutryggingu, sem ríkiskerfið ræður yfir og borgararnir eru þannig tryggðir með hæfilegum tryggingum, eins háum og við höfum efni á og við álítum þörf á, þ.á.m. séu sjúkratryggingar og örorkubætur. Þetta ætti hverjum manni með heilbrigða skynsemi að vera alveg ljóst. Það yrði miklu ódýrara og viturlegra kerfi heldur en að hafa u.þ.b. 100 banka í kringum þessa lífeyrissjóði eins og Benedikt Gröndal minntist réttilega á hér áðan.

Ég skal ekki deila um þetta meira að sinni.