10.04.1973
Sameinað þing: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3300 í B-deild Alþingistíðinda. (2782)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft þessa till. til þál. um innheimtu veggjalds af hraðbrautum til athugunar. N. ræddi till. á fundum og fékk vegamálastjóra til fundar við sig, og gaf hann nefndinni svör við ýmsum spurningum hennar, sem eru vissulega mikilvæg, þegar efnisleg afstaða er tekin til málsins. N. náði ekki samstöðu um afgreiðslu þess.

Sá meiri hl. fjvn., sem stendur að því nál., sem ég mæli hér fyrir, hefur ekki tekið afstöðu til till. efnislega, og mun ég þess vegna ekki ræða þann þáttinn að þessu sinni. Hins vegar teljum við, sem stöndum að nál. á þskj. 559, ekki rétt að taka till. til afgreiðslu nú, þar sem okkur sýnist eðlilegast, að allir þættir vegáætlunar séu ákvarðaðir samtímis, og þar sem svo er mælt fyrir í lögum, að vegáætlun skuli gerð til fjögurra ára í senn, og ákvæði eru um, að hún skuli endurskoðuð á tveggja ára fresti, þá er það með öllu óeðlilegt að taka þennan eina þátt vegáætlunarinnar til endurskoðunar á árs fresti, enda ekki gert ráð fyrir þeirri vinnutilhögun, eins og ég sagði áðan. Því er það till. meiri hl., að þáltill. á þskj. 97 verði afgreidd með rökst. dagskrá, eins og tilgreint er á þskj. 559.

Ég tel ekki ástæðu til að svo stöddu að hafa öllu fleiri orð um afgreiðslu málsins. En ég vil að lokum leggja á það áherzlu, að ekki er með till. okkar í meiri hl. tekin efnisafstaða til þáltill., enda ekki kominn sá tími, að það geti talizt tímabært, heldur viljum við með dagskrártill. undirstrika þá skoðun okkar, að málið beri ekki að með eðlilegum hætti, og ber því ekki að afgreiða það efnislega á þessum tíma.

Meiri hl. mælir því með, að þáltill. verði afgr. með þeirri rökstuddu dagskrá, sem er að finna á þskj. 559.