10.04.1973
Sameinað þing: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3311 í B-deild Alþingistíðinda. (2787)

184. mál, rannsókn á íbúðum og sameignum í Breiðholti

Flm. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Ég kom því miður 10 mínútum eða stundarfjórðungi of seint, þannig að ég heyrði ekki upphafsorð hæstv. félmrh., en það hafði verið tilkynnt í upphafi þingfundar í dag, að hann hefði fjarvistarleyfi. Engu að síður hygg ég, að ég hafi fengið nokkra hugmynd um megininntakið í ræðu hæstv. félmrh. Hann las upp grg. frá stjórn framkvæmdanefndar byggingaráætlunar, þar sem vikið er að þessum deilumálum milli annars vegar íbúðaeigenda og framkvæmdanefndarinnar, og í þessari skýrslu er síðan málið skýrt frá sjónarmiði framkvæmdanefndarinnar. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir þessa skýrslu, en hún kom mér ekki á óvart. Engum þm. gat dottið í hug, að framkvæmdanefnd byggingaráætlunar mundi á einn eða annan hátt játa á sig mistök í þessu máli. Hér eru aðilar, sem deila, og það, sem vekur furðu mína, er, að hæstv. félmrh. skuli taka gildan einhliða málflutning framkvæmdanefndar byggingaráætlunar og láta síðan málflutning íbúðaeigenda, um 250 manns að tölu, lönd og leið. Það kemur mér dálítið á óvart.

Málið liggur í raun og veru afskaplega einfaldlega fyrir, eins og ég gerði mér ljóst í upphafi. Þarna eru tveir aðilar, sem deila. Báðir bera fram ákveðin atriði, og þess vegna er þáltill. flutt til þess að óska eftir hlutlausri rannsókn á þessu máli. Í þessari þáltill. er ekki neins staðar fullyrt af frsm., að íbúðaeigendur fari einhlítt með rétt mál. Hins vegar er vikið að því, að þetta mál sé þannig vaxið, að eðlilegt sé, að það sé kannað niður í kjölinn. Það kom líka fram í skýrslu framkvæmdanefndarinnar, að ýmsum verkum var lokið, en þó ekki lokið. Ýmsum verkum var lokið „….að öðru leyti en því…..“ o.s.frv. Þetta ætlaði framkvæmdanefndin að gera í þetta skiptið, en það vantaði málara o.s.frv.,— endalausar úrtölur, hvergi hreinar línur. T.d. í grg. með þáltill. á bls. 2 stendur varðandi 1.1. um útveggi og þak, þar segir berlega í viðgerðarsamningnum: „Skipt verður um móðugler og sprungin gler.“ Nú kom fram í skýrslu hæstv. félmrh., að þessu máli hefði verið sinnt. Í skýrslu íbúðaeigenda segir um þetta atriði á bls. 4: „Hefur verið gert í nokkrum tilfellum, en mikið ógert enn þá.“ Við ætlum að fá úr þessu skorið. Það er vikið að lóðum. Það er deilt um lóðafrágang og kemur í ljós, að ein blokkin hefur látið gera lóðamat, og er það allmikil upphæð, en framkvæmdanefndin dregur þetta lóðamat í efa o.s.frv. Alla þessa hluti þarf að kanna. Yfirleitt má segja um þennan viðgerðarsamning, sem gerður var á milli framkvæmdanefndarinnar og íbúðaeigenda, að hvarvetna er eitthvað, sem ber á milli. Og þegar hæstv. félmrh. telur, að þarna sé eingöngu um einkamál að ræða, þá er það að vissu leyti rétt, en þó ekki öllu. Hér er öðrum þræði um það að ræða, að verkalýðshreyfingin sjálf hefur að nokkru leyti brugðizt þeirri skyldu sinni að styðja við bakið á þeim félögum sínum, sem þarna stóðu í húsakaupum. Og framkvæmdanefnd byggingaráætlunar er fjármögnuð af fé ríkissjóðs. Það er því eðlilegt, að félmrh., sem hefur opinberlega eftirlit með byggingu þessara íbúða öðrum þræði, beri að nokkru leyti ábyrgð á frágangi og smíðagöllum.

Það komu fram ýmsar aðdróttanir í garð íbúðaeigenda af hálfu framkvæmdanefndar byggingaráætlunar af því tagi, að starfsmenn hefðu verið hindraðir við störf sín, þessi viðgerðarstörf, og annarleg afstaða réði í ýmsum málum. Þetta eru náttúrlega dylgjur annars deiluaðilans. Og ég sé ekki betur en einmitt þessar deilur séu til þess fallnar að athuga, hver fari þarna með rétt mál og hvernig á þessum málum standi. Hæstv. félmrh. vék að því, að það væri eðlilegast, að þessi mál færu þá fyrir dómstólana, ef íbúðaeigendur væru ekki ánægðir. En við þetta er að athuga, að það er afskaplega torsóttur vegurinn til dómstóla í þessum málum. Það eru nokkrir íbúðaeigendur í málaferlum út af íbúðum sínum, og þau hafa staðið yfir í 3 ár og engan árangur borið enn. Þetta er það sem blasir við, í íslenzku þjóðfélagi, hvernig það er fyrir íbúðakaupendur að ná rétti sínum, ef þeim þykir brotið á sér. Hér er hins vegar um stóran hóp manna að ræða, um 250 íbúðaeigendur, og gagnaðilinn er í raun og veru ríkissjóður og félmrn., og þessvegna er eðlilegast, að félmrn. í eitt skipti fyrir öll láti fara fram hlutlausa könnun á þessum málum.

Hæstv. félmrh. vék að því, að það væri mál íbúðaeigendanna einna, ef þeir keyptu með opnum augum íbúðir, sem hefðu smíðagalla eða ef slíkir gallar kæmu síðar í ljós. Þetta þykir mér nokkuð mikið íhaldssjónarmið. Þetta er eiginlega afneitun þess, að neytendur þurfi einhverja tryggingu í þjóðfélaginu. Þetta er gamla sjónarmiðið, sem ríkti fyrir 30 árum, að ef seldur var hlutur og hann reyndist gallaður, bar neytandinn skaðann, því að hann sjálfur réð því, hvort hann keypti hlutinn eða ekki. Við þessi kaup er það að athuga, að þegar íbúðaeigendur keyptu sínar íbúðir, voru þær ekki til, þær voru í smíðum, og gallarnir komu fram síðar. Og þegar ýmsir gallar koma í ljós síðar, eftir að samningar hafa verið gerðir, þá er ekkert eðlilegra en íbúðaeigendur vilji sækja mál sitt til þess aðila, sem byggði íbúðirnar, þ.e.a.s. til framkvæmdanefndar byggingaráætlunar. Ég fæ ekki séð annað en það komi fram í skýrslu framkvæmdanefndar byggingaráætlunar viðurkenning á því, að ýmislegt sé enn ógert, að í íbúðunum séu ýmsir smíða- og frágangsgallar, sem þurfi að lagfæra, þrátt fyrir það að íbúðunum sé skilað fyrir þremur árum eða jafnvel fyrr, þannig að ég sé ekki, hversu lengi íbúðaeigendur eiga að búa við það, að það sé ekki gert við þá galla, sem eru fyrir löngu komnir fram í sambandi við íbúðirnar.

Ég skal nú ekki fjalla lengur um þetta. En það, sem ég vil vekja einkum athygli á, er þetta: Hér er eingöngu farið fram á hlutlausa rannsókn á því, sem ber á milli þessara deiluaðila. Hæstv. félmrh. tekur eindregna afstöðu með framkvæmdanefnd byggingaráætlunar og telur ekki ástæðu til að láta gera hlutlausa rannsókn, þó að hann lesi í skýrslunni, að það sé enn ýmislegt ábótavant við frágang á þessum íbúðum. Er félmrh. hæstv. fyrst og fremst umboðsmaður framkvæmdanefndar byggingaráætlunar eða er hann umboðsmaður fólksins í landinu? Eiga ráðh. sífellt að túlka sjónarmið þeirra manna, sem hafa fyrst og fremst aðstöðu í þjóðfélaginu, en láta neytandann lönd og leið? Ég hugsa, að það væri ráð fyrir hæstv. félmrh. að fara upp í Breiðholtsáfanga I og skoða íbúðirnar og sjá, hvernig stéttirnar hafa sigið frá húsunum, skoða móðuglerin. Þessi afstaða hæstv. félmrh., að láta þetta afskiptalaust, er að mínu viti óábyrg. Hún sýnir, að hann telur ekki ástæðu til að taka tillit til vilja þessara íbúðaeigenda, um 250 að tölu, þó að fram komi í skýrslunni viðurkenning á smíðagöllum, sem eru ólagaðir, þrátt fyrir að þau hafi verið 3 ár í smíðum, og allt og sumt, sem farið er fram á, er hlutlaus könnun á þessum vanda.

Um þetta er náttúrlega ekkert að fást. Hæstv. félmrh. skilur bersýnilega ekki hlutverk sitt sem ráðh., og hann afneitar þeim nýju hugtökum, sem felast í neytendasjónarmiðum, og telur, að neytendalöggjöf sé miðuð við það, að úr því að þú keyptir gallaðan grip, þá heldur þú honum og berð ábyrgð á því, — ógerningur er að leita réttar síns nema fyrir dómstólum. Þetta eru íhaldssjónarmið, enda á hann heima í flokki íhaldsmanna.