10.04.1973
Sameinað þing: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3315 í B-deild Alþingistíðinda. (2789)

184. mál, rannsókn á íbúðum og sameignum í Breiðholti

Flm. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð. Í fyrsta lagi vil ég benda á það, að þessar íbúðir í Breiðholti voru fjármagnaðar 80% með fé úr ríkissjóði. Það er ríkissjóður, sem er þarna megin byggingaraðilinn, þó að það sé falið n., sem heitir framkvæmdanefnd byggingaráætlunar. Þess vegna er eðlilegt, að það sé ríkissjóður — og þá félmrn., sem þar kemur fram fyrir hönd ríkissjóðs, — sem láti sig það varða, ef þessar íbúðir reynast hafa verið með smíða— og frágangsgöllum. Það er ekki sambærilegt, þegar einstaklingur selur einstaklingi í þjóðfélaginu. Hér horfir málið allt öðru vísi við. Og það eru, eins og tekið er fram í reglugerð um þessi hús, eftirlitsmenn frá félmrn., sem fylgjast með frágangi og hafa eftirlit með þessum húsum, þannig að ábyrgðin liggur verulega á félmrn., og þá er ekkert óeðlilegt við það, þó að félmrn. grípi inn í, ef eitthvert misferli á sér stað. Þetta liggur alveg ljóst fyrir.

Í annan stað vil ég segja það, að þessi viðgerðarsamningur var gerður 1969. Hvaða ár er núna, hæstv. félmrh.? 1973, og enn er ekki búið að ganga frá þeim viðgerðarákvæðum, sem kveðið var á um í viðgerðarsamningnum. Er nokkur furða, þó að fólkið fari að ókyrrast? Ég vil líka benda á það, eins og ég hef sagt reyndar áður, að hér eru tveir aðilar, sem deila, og af hverju þá ekki að fá hlutlausa rannsókn í þessum málum? Er nokkuð athugavert við það? Er það ekki skylda félmrn. beinlínis að kanna þessi mál, úr því að eftirlitsmenn frá félmrn. hafa fylgzt með byggingu íbúðanna í Breiðholti? (Félmrh.: Hverjir eru þeir? Hverjir eru frá félmrn. þarna?) Lestu reglugerðina. Þetta er ósköp einfalt mál, sem ég legg áherzlu á. Það er beinlínis að fá hlutlausa rannsókn, það er allt og sumt. En eins og ég lauk máli mínu síðast, það er von, að það standi dálítið á því að fá þessa hlutlausu rannsókn, af því að hæstv. félmrh. skilur ekki inntak nútíma neytendaverndar og er íhaldsmaður.