11.04.1973
Efri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3324 í B-deild Alþingistíðinda. (2826)

233. mál, Iðnlánasjóður

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls lýsti ég þeirri skoðun minni, að það væri mjög tímabært og nauðsynlegt að efla iðnlánasjóð. Hins vegar tjáði ég mig enn fremur þeirrar skoðunar, að það kæmi til álita, hvort það væri rétt að farið í þessu frv. og sérstaklega að hækka iðnlánasjóðsgjaldið úr 0,4% í 0,5%. Ég vakti athygli á því, að það væri ekki líklegt, að þessi aðgerð, að hækka iðnlánasjóðsgjaldið, væri lækning á þeirri meinsemd, sem fram væri komin í sambandi við fjárfestingarsjóðina almennt. Eins og segir í grg. frv., hefur ástandi þeirra hrakað svo, frá því að núv. ríkisstj. kom til valda, að undir útlánum þeirra er nú aðeins staðið með eigin fé, sem nemur 33%, en áður var það 55%. Ég minnti enn fremur á það, að upphæð iðnlánasjóðsgjaldsins hefði ekki verið breytt frá því 1963, að iðnlánasjóðsgjaldið var fyrst sett, þrátt fyrir þá verðbólguþróun, sem síðan hefur verið. En svo mjög hefur keyrt um þverbak nú á síðustu misserum, að ríkisstj. telur sig knúða til að grípa til þessa ráðs.

Ég lagði til, að málið fengi ítarlega athugun í n. En það er svo um þetta mál eins og önnur stór og mikilvæg mál, sem lögð hafa verið fyrir þingið nú á síðustu dögum, að það fást engin eðlileg vinnuskilyrði til að athuga málin. Iðnn. hélt skyndifund í gær til þess að setja stimpil á þetta frv., og auðvitað fór þar engin raunveruleg athugun fram á þessu mikilvæga máli. Því miður var ég forfallaður og gat ekki mætt á þessum fundi, en auðvitað hefði það engu breytt, þó að ég hefði mætt, það hefði ekki verið gefinn lengri tími til athugunar á málinu fyrir því.

Ég gerði þá fsp. við 1. umr. til hæstv. iðnrh., hvort það hefði verið haft samráð við samtök iðnaðarins varðandi hækkun iðnlánasjóðsgjaldsins, en ráðherra lýsti því yfir, að það hefði verið haft samráð við Félag íslenzkra iðnrekenda. Hv. frsm. iðnn. staðfesti þetta í ræðu sinni áðan og sagði enn fremur, að n. hefði haft samband við stjórn iðnlánasjóðs. (Grípið fram í: Formann Félags íslenzkra iðnrekenda, sem er í stjórn.) Nú, ég hélt, að n. hefði gefið sér tíma til þess að hafa formlegt samband við stjórn iðnlánasjóðs, en hv. frsm. leiðréttir það. Það var ekki einu sinni tími til þess. En það vill svo til, að formaður Félags íslenzkra iðnrekenda er í stjórn iðnlánasjóðs.

En ég vil láta þess getið hér, að ég hef haft samband við Landssamband iðnaðarmanna, sem þetta mál snertir ekki síður en Félag íslenzkra iðnrekenda. Ég vil upplýsa það, að Landssambandið hefur einnig samþykkt þessa hækkun. Þeir aðilar, sem þetta mál varðar mest, hafa lýst samþykki sínu við hækkun iðnlánasjóðsgjaldsins.

Þetta breytir ekki skoðun minni á því, að þetta mál þurfi miklu betri athugun, en með því að samtök iðnaðarins hafa fyrir sitt leyti samþ. hækkun iðnlánasjóðsgjaldsins, mun ég greiða þessu frv. atkv. Hins vegar legg ég áherzlu á það, að sú athugun þessa máls, sem ég taldi að væri nauðsynleg nú, verður að koma til síðar og helzt á næsta þingi.