11.04.1973
Efri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3327 í B-deild Alþingistíðinda. (2836)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Frsm. 1. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Þetta mál er í eðli sínu stórmál og frv. var lagt fyrir hv. Alþ. 13. des. s.l. Í umr. við afgreiðslu fjárl. voru um það höfð orð, að það yrði látið fylgja fremur skjótt á eftir fjárl., en það var útskýrt hér áðan af frsm. meiri hl., að aðrar ástæður hefðu valdið því, að nokkur dráttur varð á, og í þessa hv. d. kemur það nú á síðustu dögum þingsins. Svo mikið lá við, að við vorum boðaðir á stuttan nefndarfund á sama tíma og fundir voru í Sþ. og beðnir að taka afstöðu til málsins. Auðvitað var okkur ekki efnislega ókunnugt í stórum dráttum, hvað í frv. fólst. Það var löngu ljóst. Hins vegar er þetta mál þannig vaxið, að miðað við þær aðstæður, sem ríkja í fjármálum þjóðarinnar í dag, var eðlilegt, að við bæðum um nokkrar upplýsingar, sem ekki reyndist tök á að veita á þessum stutta fundi, einkum varðandi það atriði, hvernig framkvæma á 15% niðurskurð frá gildandi fjárl. Heimild um það efni var veitt, þegar fjárlög voru afgreidd rétt fyrir jólafrí þm.

Um þetta frv. mætti fara mörgum orðum, og það hafa þegar orðið langar og harðar umr. í Nd. um frv. og áhrif þess ásamt stefnu í fjármálum þjóðarinnar, verðbólgu og þar fram eftir götunum. Ég ætla mér ekki að tefja þessar umr. meira. Ég segi í nál. mínu á þskj. 634, að við í þingflokki Alþfl. munum ekki greiða atkv. um þetta frv. Við teljum eðlilegt, eins og málum er háttað, að þetta sé einungis á ábyrgð hæstv. ríkisstj., úr því sem komið er. Það hefur reynzt svo, því miður, að þrátt fyrir fsp. um ýmis atriði, sem frv. fjallar um, og önnur atriði varðandi fjárl. sjálf, er mjög erfitt að fá upplýsingar. Ég veit ekki, hverju það sætir, að okkur, sem sitjum bæði í fjh.— og viðskn. d. og einnig í fjvn., skuli ekki vera treyst fyrir því, að fá a.m.k. hugmyndir um, hvað er á floti til þess að leysa þessi vandamál, bæði til aukningar útgjalda og til niðurskurðar útgjalda. Það gerist nú hvort tveggja í senn hér í þessari d., að frv. eru lögð fram um stóraukin útgjöld úr ríkissjóði, þau eru farin að nema núna um hundrað millj. á sama tíma og er boðað, að nauðsynlegt sé að skera niður á öðrum sviðum úr ríkissjóði. Þetta gengur nú mjög á víxl. Það er því ekkert undarlegt, þó að einn og einn þm. spyrji nokkuð um þessi atriði og vilji fá að vita, hvar öxin skuli ríða á, þegar við sjáum, að aðrir ráðh. geta komið fram fyrir sín rn. álögum á ríkissjóð, svo að nemur mörgum tugum millj. og jafnvel hátt í 200 millj. á ársgrundvelli. En hæstv. fjmrh. verður að sætta sig við það að senda út bréf, sem felur í sér þann boðskap, að mjög margar stofnanir þjóðfélagsins skeri niður kostnað sinn utan launa, að því er mér skilst, um l5%. Hans hlutverk er því erfitt í þessu tilfelli, þegar aðrir fá að safna saman handa sínum rn. óvænt og í lok þingsins álögum, sem nema tugum millj. Sem sagt, ég ætla ekki að þreyta hv. d. á löngum umr. um frv., vegna þess að það ber þannig að, að það væri sæmst fyrir okkur að taka ekki þátt í umr. undir neinum kringumstæðum og mótmæla með því afdráttarlaust þeim vinnubrögðum, sem við eru höfð við lokaafgreiðslu málsins. Ég mun því ekki hafa mín orð fleiri og undirstrika mótmæli mín með því móti.