11.04.1973
Efri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3340 í B-deild Alþingistíðinda. (2840)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Út af því, sem hv. 1. þm. Vestf. tók fram, vil ég taka það fram, að skilningur hans á þessu atriði er réttur. Þess vegna er hér ekki um sundurliðaða heimild að ræða, heldur er hún miðuð við að geta greitt það, sem á vantar til þess að koma áfram þeim verkefnum, sem unnið er að hjá Rafmagnsveitunum.

Út af ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. mun ég ekki fara út í almennar umr., þó að kannske væri ástæða til þess. En við höfum þreytt umræður svo oft sinn hvorum megin við borðið, að við getum kannske lesið hvor upp úr annars ræðum á víxl, eftir því sem við á í það og það skiptið.

Út af því, að skýrslan, sem kennd er við fjmrh. eða Framkvæmdastofnunina, væri snubbótt, þykir það góðra manna háttur að koma máli sínu fram í fáum orðum og á skiljanlegan hátt. Ég skildi þetta svo, að hv. 2. þm. Norðurl. e. hefði tekið málið þannig, og telst það þeim til lofs, sem verkið vann.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. vék að framkvæmdaáætluninni og því, sem þar væri, en áður en ég kem að því, vildi ég víkja að Ólafsfjarðarhöfn. Hún var til athugunar við fjárlagaafgreiðsluna á s.l. hausti. Ástæðan til þess, að hún var ekki tekin með við þá fjárlagaafgreiðslu var sú, að það verk, sem unnið hefði verið, hefði fallið undir 40% framlagið. Það var ekki í andstöðu við Ólafsfjörð, að það var fellt niður, heldur talið rétt að bíða með það þangað til hafnalög, sem var verið að afgreiða í dag, tækju gildi, svo að Ólafsfjörður nyti þá hærra framlags, sem ég og við, sem um fjölluðum, töldum, að því byggðarlagi mundi ekki af veita. Ég vil líka segja það, að á mínum stutta tíma í ráðherrastól hef ég ekki haft neitt samvizkubit út af því að sinna ekki málefnum Ólafsfjarðarhafnar með fullkomnum skilningi og velvilja. Það lá ekki heldur í orðum hv. þm., en ég vildi bara gefa honum þessa skýringu á málinu.

Út af Framkvæmdaáætluninni skal ég ekki verða langorður. Það er mér ljóst eins og honum og okkur öllum, að það væri á margan hátt æskilegt, að hún hefði getað komið til afgreiðslu fyrr, hvað sem menn segja, getur aldrei farið hjá því, að Vestmannaeyja áfallið hafi stórkostleg áhrif í efnahagslífi þjóðarinnar, hvernig sem á málið er litið. Það er sama, þó að aflað hafi verið tekna til þess að mæta áfallinu að nokkru leyti, þá er það nú ekki minni fjárhæð en sú, sem ætluð er til allra sjóðanna. Það hefði verið hægt að leysa þeirra mál með eigin framlagi þjóðarinnar á sama hátt, ef ekki hefði þurft að grípa til þess arna, og að sjálfsögðu hefði það verið bæði bezta og skemmtilegasta leiðin, að þannig hefði verið á sjóðamálunum tekið. En það var ekki hægt að gera hvort tveggja, að nota þessa peninga vegna Vestmannaeyja áfallsins og til annarrar fjármögnunar. Það var líka í ráði hjá ríkisstj. og kom fram í samtölum mínum m.a. við Alþýðusambandið að endurskoða skattakerfið á þessu ári á þann veg að lækka að einhverju leyti beinu skattana með tilliti til samkomulags um óbeina skatta. Öll slík áform urðu að hverfa vegna Vestmannaeyja áfallsins. Það er einn þáttur enn, sem hefur sitt að segja að hverfi, svo að ég undirstriki það, því að lífið heldur áfram og þá verður tekið á verkefnunum. En ég vil líka segja, að það, sem hefur veruleg áhrif í sambandi við það mál, er byggðajafnvægismálið. Gera má ráð fyrir því, að einmitt þær framkvæmdir, sem tengdar verða Vestmannaeyjum, verði fyrst og fremst unnar hér á suðvesturhorninu, þeim hluta landsins, þar sem þær framkvæmdir eru ekki unnar, sem eiga að stuðla að byggðajafnvægi. Þess vegna, þó að það hefði verið nauðsynlegt að draga úr framkvæmdum, gat mjög orkað tvímælis að gera það einmitt á þeim hluta landsins, en ekki í þeim byggðarlögum landsins, sem sízt máttu án framkvæmdanna vera vegna byggðajafnvægisins. Þess vegna hefur þessi þáttur leitt til þess, að ríkisstj. taldi sér þrátt fyrir allt ekki fært að draga úr framkvæmdum á þeim stöðum landsins, þar sem fyrst og fremst er unnið að byggðajafnvægismálum, en svo er með megnið af þeim framkvæmdum, sem hér er átt við. Enn fremur er svo líka unnið að því að halda áfram við verk, sem ekki er hægt að stöðva, úr því sem komið er. Þar vil ég nefna mál eins og hjá Rafmagnsveitunum, Lagarfossvirkjun, Mjólkárvirkjun og Laxárvirkjun. Allt eru þetta verkefni, sem þegar er búið að setja stórkostlega fjármuni í, og það er ekki forsvaranlegt að hætta við þau án þess að ljúka þeim verkum að fullu. Sama er að segja um sveitarafvæðinguna, það er verkefni, sem er búið að vinna lengi að og var ætlazt til að yrði búið, en nú er verið að reyna að taka endasprettinn. Svona get ég haldið áfram. Sama er að segja um Skeiðarársand. Það má segja, eins og sumir gera, að það væri hægt að láta einhvern hluta verksins bíða, en því er ekki að neita, að það er búið að panta verulegt efni til framkvæmda á Skeiðarársandi á yfirstandandi ári. Það varð ekki komizt hjá því að fjármagna það og ekki hefði verið betra að láta framkvæmdirnar bíða, eftir að búið var að festa eins mikið fjármagn í efninu og gert var. Þannig er það, að flest af þessum verkefnum eru verkefni, sem eru þegar í gangi og nauðsyn ber til að ljúka. Hitt tek ég undir með hv. 2. þm. Norðurl. e., sem og öðrum, að í þessum efnum verður að gæta þess, að framkvæmdirnar fari ekki inn á það svið, að dragi úr framleiðslunni, því að framleiðslutekjum þjóðarinnar þarf fyrst og fremst að huga að. Þess vegna eru nú fengnar heimildir til þess að reyna að hafa vald á hlutunum, eftir því sem aðstæður gefa tilefni til á hverjum tíma.

Þá skal ég ekki eyða fleiri orðum að sjálfri framkvæmdaáætluninni. Hv. þm. vék svo að viðskiptunum við útlönd og hallanum á þjóðarbúskapnum við útlönd á s.l. ári. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að uppi voru miklar spár um afkomu bæði ríkissjóðs og þjóðarbúskaparins fyrir árið 1972. Nú er það um allar spár að segja, að þær geta verið breytilegar til beggja handa, bæði til hins betra og til hins verra. Það, sem maður óttast alltaf, er, að það snúist til hins verra, því að hið góða skaðar mann aldrei. Það er svo með okkar ágætu sérfræðinga, sem eru hinir færustu og ágætustu menn, að þeir telja sér skylt að lifa eftir reglunni um að hið góða skaði ekki og þess vegna sýna þeir hámark hins versta.

Í sambandi við fjárl. og það, sem hv. þm. sagði þar um, skal ég ekki eyða mörgum orðum, vegna þess að ég mun nú á næstu dögum láta útbýta, hér á hv. Alþ. hluta ríkisreikningsins fyrir árið 1972, A-hlutanum, fullgerðum og frágengnum. Mun það þá verða í fyrsta sinn, sem ríkisreikningur verður það snemma á ferðinni. B-hlutanum er ekki lokið, en þar er um að ræða fyrirtæki ríkisins, svo að fullkomin niðurstaða fæst af ríkisbúskapnum við þennan reikning, sem nú verður lagður fram. Mér og öðrum hv. þm. til ánægju vil ég segja það, að sá spádómur, sem klingdi allt s.l. ár, að ríkissjóður yrði rekinn með halla, bæði rekstrarlega og greiðslulega séð, mun ekki reynast réttur. Það mun verða bæði rekstrar- og tekjuafgangur hjá ríkissjóði á s.l. ári. Það kemur í ljós, og skal ég ekki fara lengra út í það, þar sem stutt er í, að það liggi alveg fyrir. Um þjóðarbúskapinn út á við vil ég hins vegar vekja athygli á því, að því var spáð, að viðskiptahallinn yrði um 4.300 millj. kr. Viðskiptahallinn reyndist hins vegar 1.770 millj. kr., og þegar dæmið er gert upp í heild, lán, sem tekin voru á árinu, afborganir af lánum og gjaldeyrisstaðan, þá reynist skuldaaukning þjóðarinnar út á við tæpar 2.000 millj. á árinu 1972. Þetta er hin raunverulega niðurstaða af þessum viðskiptum. Í sambandi við þetta vil ég vekja athygli á því, að á s.l. ári var gengið frá láni vegna Landsvirkjunar, sem að sumu leyti var breyting á lausaskuldum í fast lán, sem var 1.470 millj. Svo var gengið frá láni vegna Straumsvíkurhafnar, sem var 367 millj. kr., og vegna hraðbrautaframkvæmda 132 millj. Föst lán, sem tekin voru á s.l. ári, voru tæpar 4.700 millj. kr., en afborganirnar voru 2.040 millj. kr., og gjaldeyrisvarasjóðurinn hækkaði um tæpar 700 millj. kr., svo að nettóstaðan eru tæpar 2.000 millj. Vörukaupalán á árinu 1972 voru í árslok 2.000 millj., og aukningin var 97 millj. kr. Er það minnsta aukning um árabil. 1971 var hún 184 millj. kr. og 1970 449 millj. kr. Þegar á þetta er litið í ljósi staðreyndanna, mun fara svo, að menn sannfærast um, að afkoma þjóðarinnar á árinu sem leið reyndist betur en spáð var. Kom það til, að innflutningurinn reyndist minni en reiknað var með og útflutningurinn reyndist meiri. Þetta vildi ég upplýsa hér á hv. Alþ. nú vegna þess, sem fram hefur komið þar um. Hitt er svo annað mál, að skuldaaukning okkar er nóg. En hinu er ekki að neita, að þessar lántökur eru fyrst og fremst vegna framkvæmda, sem spara gjaldeyri, eða vegna skipakaupa og annarra slíkra framkvæmda, sem auka gjaldeyristekjurnar. Ég vil t.d. geta þess, að skip, sem keypt voru síðan núv. ríkisstj. kom til valda og tekin voru erlend lán fyrir á s.l. ári og eru í þessari tölu, sem ég gat um áðan, höfðu aflað gjaldeyristekna upp á 336 millj. kr., þegar ég fékk þessa grg. nú fyrir nokkrum dögum, og hafa sum þeirra bætt við síðan verulegum gjaldeyristekjum. Þess vegna held ég, að það megi ljóst vera, að þó að það sé auðvelt að slá upp háum tölum um skuldaaukningu og annað því um líkt, verð ég að segja eins og er, að skuldaaukning vegna framkvæmda við tekjuöflunartæki, eins og fiskiskipaflotann, vegna endurbóta á frystihúsum eða framkvæmda eins og á vegum Landsvirkjunar, er ekki af því, að þjóðin hagi fjármálum sínum illa, heldur er hún að undirbúa sig betur undir framtíðina, og að því ber þjóðinni og ríkisstj. að vinna.