11.04.1973
Efri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3344 í B-deild Alþingistíðinda. (2841)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Frsm. 2. minni hl. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki halda uppi löngum umr., enda ekki ætlun, hvorki mín né annarra, hér af hálfu stjórnarandstöðunnar að halda uppi neinu málþófi. Það eru þó viss atriði, sem ég kemst ekki hjá að drepa á.

Það vakti töluverða undrun mína, að hæstv. fjmrh., sem er gætinn maður, skyldi fara þeim orðum um skuldaaukninguna við útlönd, sem hann gerði áðan, því að það er vissulega ekki hægt að gera lítið úr þeirri geigvænlegu hættu, sem við stöndum þar andspænis. Þetta eru ekki mín orð, þetta eru orð allra sérfræðinga, sem um þessi mál fjalla, bæði Seðlabanka, hagrannsóknadeildar og allra aðila, sem ríkisstj. hlýtur að verða að taka mark á. Það eru hlutlausir aðilar, sem hafa varað mjög við þessari þróun, og það skipti engu máli í því sambandi, hvort um nytsemdarmál er að ræða eða ekki. Það er ekki höfuðatriðið, sem þeir vekja athygli á, heldur það, að þó að um það sé að ræða, sé þróunin á skömmum tíma orðin svo geigvænleg, að það horfi til stórfelldra vandræða. Hæstv. ráðh. veit einnig mjög gerla, að skip og flugvélar hafa sáralítil áhrif á þetta mál, þegar árin eru borin saman, vegna þess að það er fyrst á árinu 1973, sem skipakaupin koma verulega inn í dæmið. Það hefur einmitt verið bent á það, af hálfu Framkvæmdastofnunarinnar, að það verði að spara mjög aðrar lántökur vegna þess, að lántökur vegna innflutnings togara falli þungt á árið 1973. Þetta veit ég, að hæstv. ráðh. veit mætavel.

Varðandi hag ríkissjóðs gat ég þess í ræðu minni áðan, að það mundi verða um 60 millj. kr. greiðsluafgangur hjá ríkissjóði, en hygg, að tekjur hans, — ég hef ekki nákvæmlega þær tölur, — muni vera hátt á 18. milljarðinn. Ég held, að ég fari þar ekki með skakkt mál, þannig að það eru nú engin ósköp að hafa 60 millj. kr. afgang af nærri 18 milljörðum, en það er þó betra en að hafa halla. (Gripið fram í.) Er það tvöfalt þetta, tvöfaldar 60 millj., 120 millj.? Jæja, en þetta kemur á daginn. Ég hef þetta fyrir mér frá stofnuninni, og ég hélt, að hún vissi það. En það er slæmt, ef það þarf að fara að leiðrétta hana.

Mér er vel kunnugt um, að viðskiptahallinn við útlönd er 1.750 millj. eða nálægt tveim milljörðum. En ég vil vekja athygli ráðh. á því, að hann er raunverulega 4 milljarðar, og það veit hann, vegna þess að birgðabreytingar á þessu ári, sem Seðlabankinn reiknar með, að séu eðlilegar í mati á greiðslujöfnuði, hafa breytzt í óhag um 2 milljarða. Greiðsluhallinn við útlönd er því nálægt 4 milljörðum, eða nákvæmlega eins og spáð var, ekki af mér, heldur af sérfræðingum. Það voru þeir líka, sem spáðu í haust, að það yrði 200–300 millj. kr. halli hjá ríkissjóði. Það reyndist ekki, vegna þess að hæstv. fjmrh. fékk í reynd miklu meira upp úr tekjuskattinum en hann hafði reiknað út í dæmunum, þegar var verið að samþykkja lögin um tekjuskattinn. Þá átti að lækka skattana, en þeir reyndust bara álagðir, — ég tek það fram, — ekki innheimtir, 1.000 millj. kr. hærri en áætlað hafði verið. Tekjumoksturinn inn í ríkissjóðinn í des. var með þeim — ja, ég vil segja eindæmum, að það hefði þurft alveg stórfellt afrek til þess að koma því öllu í lóg. Það var tilkynnt með klóklegum hætti af hæstv. ráðh., að brennivínið ætti að hækka, ég veit ekki, hvort það hefur verið af hyggindum eða gáleysi, hingað til hefur slíkt ekki verið tilkynnt fyrir fram, — en þetta var það löngu fyrir jól, að menn birgðu sig til jólanna, en voru svo búnir með það fyrir jól og urðu að kaupa sér aftur, eftir að það var hækkað. Hæstv. ráðh. fékk þannig tekjur í des. af þessum hyggindum eða gáleysi ríkisstj., — ég veit ekki, hvort ég á heldur að kalla það. Alla vega var það búbót fyrir hæstv. fjmrh., að þetta skyldi gerast með þessum hætti.

Aðeins nokkur orð enn þá varðandi það, sem hæstv. fjmrh. sagði. Hann gat um, að Vestmannaeyjagosið hefði auðvitað orðið stórt áfall, sem hlyti að hafa mikil áhrif. (Gripið fram í.) Jú, jú, þetta er vafalaust alveg rétt. En hvernig stendur á því, að það segir í skýrslu fjmrh., að niðurstaðan hafi orðið sú að láta sem ekkert væri? Það er ákaflega erfitt að samrýma það. Í skýrslunni stendur, að það hafi orðið niðurstaðan eftir vangaveltur að láta sem ekkert hafi skeð. Það er ekki beinlínis orðað svona, heldur segir, að það eigi ekki að láta þetta hafa nein áhrif á þær till., sem búið var að gera um útgjöld til ýmiss konar framkvæmda á árinu. Þetta er niðurstaðan úr þessari skýrslu. Hún er nógu löng til að segja þetta. Það er skiljanlegt í skýrslunni. Ég er hæstv. ráðh. sammála um það, að ef hefði mátt nota fé viðlagasjóðs til þess að rétta hag sjóðanna, hefðu þeir auðvitað staðið miklu betur að vígi. Ég veit hins vegar, að hann átti hvorki við það í alvöru, að þetta hefði verið hægt, né heldur býst ég við, að við hefðum treyst okkur til þess að bera fram slíka till., vegna þess að fé til viðlagasjóðs fékkst með þessum sérstaka hætti, af því að um þessi einstöku óhöpp var að ræða. Við hefðum ekki getað, ekki hann, ég eða neinn annar, leyst vandann eða fengið skattaálögur með þessum hætti til þess að mæta vanda sjóðanna, þótt það hefði verið æskilegt.

Það var mjög fróðlegt að heyra það, þótt það væri ekki gleðilegt að tala um, að vegna Vestmannaeyja hefði þó rokið út í veður og vind hugmyndir um skattalækkanir, sem höfðu verið orðaðar í minnisblaði til Alþýðusambands Íslands. Hvort þetta gleður alla, skal ég ósagt láta, og ég er ekki alveg viss um, að þetta sé raunhæft eða stafi af Vestmannaeyjavandanum. Ég held, að þarna hafi bara verið varpað fram atriði, sem hæstv. ráðh. hefur ekki getað staðið við, m.a. vegna þess, að fjárlög voru afgreidd með greiðsluhalla. Það má kannske færa það honum til afsökunar í þessu efni, að það var einu sinni stungið upp á því við Alþýðusambandið að veita a.m.k. láglaunafólki þessi fríðindi.

Svo fékk ég alls ekki botn í ummæli hæstv. ráðh., — og bið ég hann að afsaka það, þau, sem hann viðhafði í framhaldi af þessu, en það var um byggðajafnvægið. Hann sagði, að það væri ekki hægt að fella niður neitt af því, sem stæði í frv., með hliðsjón af byggðajafnvægi. Þetta getur allt verið satt og rétt. En hvernig ætlar þá hæstv. ráðh. að skera niður ríkisútgjöldin um 600, 700, 800 millj. eða jafnvel 1.000 millj. til þess að ná saman endum, miðað við það, sem er búið að leggja á ríkissjóðinn eftir áramót? Hvernig er það hægt, án þess að það snerti byggðajafnvægið? Ég þekki það mikið til ríkisbúskaparins, að ég veit, hvað eru stórar fjárhæðir í fjárl., sem eru bundnar og ráðh. getur ekkert ráðið við. Og það hefur ætíð verið svo, þegar hefur verið um niðurskurð að ræða í fjárl., og það var svo raunar á s.l. ári, að það, sem skorið er niður, snertir að meginhluta opinberar framkvæmdir. Og meginhluti þeirra opinberu framkvæmda, er úti um hinar strjálu byggðir landsins, þannig að þarna fæ ég dæmið ekki til að ganga upp. Það má sem sagt ekki draga úr framkvæmdaáætluninni, bæði vegna sveitarafvæðingar og annars. Þetta er satt og rétt. En hvernig hæstv. ráðh. ætlar þá að ná saman endum með allt að 1.000 millj. kr. lækkun fjárl., án þess að það snerti framkvæmdir í strjálbýlinu, verður fróðlegt að sjá.