11.04.1973
Efri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3347 í B-deild Alþingistíðinda. (2844)

219. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég fagna þessu frv. Í fyrsta lagi fagna ég því atriði, að nú skuli það ekki verða eftirleiðis eins og er nú, að það sé annar gjalddagi hjá ríkissjóði til jöfnunarsjóðs en gert er ráð fyrir, að jöfnunarsjóður greiði sveitarfélögum. Þetta olli mörgum sveitarfélögum miklum óþægindum um síðustu áramót. Þau höfðu treyst á, að ákvæði tekjustofnalaganna, sem samþ. voru á síðasta Alþ., væri í samræmi, en því miður, vil ég segja, var fyrir vangá hygg ég, greiðsludagur ríkissjóðs annar til jöfnunarsjóðs en var svo aftur gert ráð fyrir, að jöfnunarsjóður greiddi sveitarfélögum. Eðlilega gat hann ekki greitt úr sínum sjóði, fyrr en tekjurnar voru komnar þar inn.

Um hitt atriðið, sem hæstv. ráðh. kom inn á, þ.e. reikningsskil sveitarfélaganna, er ég líka mjög sammála, þekki það úr samtökum sveitarfélaga á Reykjanesi. Þetta er ekki mjög einfalt mál. Smærri sveitarfélögin eiga sér í lagi í vissum erfiðleikum með að fá þetta starf unnið. Þetta er einn af mörgum þýðingarmiklum þáttum í starfsemi sveitarfélaganna, sem samtök þeirra geta máske örlítið komið til hjálpar með og orðið til þess, að frekar sé hægt að fá starfskrafta til þess að vinna þetta, þannig að það geti orðið sómasamleg skil á þessu. Eins og hæstv. ráðh. drap á og ég veit, að er hárrétt, er þetta náttúrulega algerlega óviðunandi. En ég endurtek, að ég fagna því, að þetta frv. er komið fram.