11.04.1973
Efri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3348 í B-deild Alþingistíðinda. (2848)

222. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að fagna því, að þetta frv. er fram komið, og þakka hæstv. trmrh. fyrir það, að hann hefur beitt sér fyrir framgangi þess á yfirstandandi þingi. Ég tel, að í þessu frv. sé um mjög verulegar réttarbætur að ræða fyrir þá, sem notið geta bóta úr atvinnuleysistryggingasjóði, og fleiri breytingar, sem þarna er um að ræða, séu mjög verulegt spor í rétta átt og til hins betra. Ég ætla þó ekki að hafa langt mál um það eða fara að telja upp þessar breytingar. Ég hygg, að þó að mikill hraði hafi verið hér á þingstörfum, sé mönnum það sæmilega ljóst. Málið hefur legið það lengi fyrir, og einnig hélt hæstv. trmrh. hér ítarlega ræðu um málið. En samandregið yfirlit um helztu breytingarnar er að finna á bls. 9 í aths. við frv. Þó vil ég nefna ein fjögur atriði, sem ég tel lang þýðingar mest í þessu efni.

Það er í fyrsta lagi sú breyting á l., að þau ná nú til landsins alls. Áður náðu þau aðeins til þéttbýlisstaða með yfir 300 íbúa, en gátu þó með nokkrum undantekningum og sérstökum leyfum ráðh. einnig náð til fleiri staða. En allverulegur hluti af landsbyggðinni var þarna út undan, og olli það oft ýmislegum vandkvæðum og réttindamissi manna, sem með eðlilegum hætti hefðu átt að njóta bóta úr atvinnuleysistryggingasjóði ekkert síður en aðrir. Nú er þessu breytt þannig, að gildi laganna er aukið, þannig að allir, sem vinna þau störf, sem undir lögin falla, hafa fyllsta rétt til bótanna, þ.e.a.s. með þeim skilyrðum öðrum, sem lögin í einstökum atriðum ákveða.

Í öðru lagi er svo um það að ræða, að gerðar eru sjálfsagðar breytingar á frv. í sambandi við þá breytingu, sem varð á vinnutímanum í samningunum í des. 1971, og jafnframt eru bætur hækkaðar verulega og biðtími eftir bótum felldur niður. Hér er um mjög miklar hækkanir á bótum að ræða, bæði með beinum og óbeinum hætti, því er ekki að leyna. En á það er að líta, að þessi sjóður er öflugur. Hann er orðinn einn öflugasti fjárfestingarsjóður í landinu og skilar árlega tekjum, sem nema, — ég vil segja: sem betur fer, — mörgum sinnum því, sem til bóta þarf, því að það hefur aldrei farið hærri upphæð til bótanna en nemur aðeins broti af vaxtatekjum sjóðsins. En í sjóðinn renna, eins og mönnum er kunnugt, um 4% af dagvinnutekjum almenns verkafólks. Það hefur þess vegna þótt við hæfi, og t.d. öll stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs verið algerlega sammála um, að bæturnar væru auknar mjög verulega frá því, sem verið hefur. Raunverulega hafa þær, miðað við almennt kaupgjald, verið að rýrna allverulega á undanförnum árum, en með l. 1969, en þá voru þau endurskoðuð að nokkru leyti, var svo ákveðið, að bætur skyldu breytast samkv. kaupgreiðsluvísitölu, en hins vegar ekki eftir breytingum á grunnkaupi. Grunnkaup hefur hækkað mjög verulega á þessu tímabili, þannig að sem prósentuhluti hafa bætur rýrnað ákaflega mikið á þessu tímabili og svo mikið, að óviðunandi var orðið. Nú er þessu breytt þannig, að dagpeningar trygginganna verða föst prósenta af 2. taxta Verkamannafélagsins Dagsbrúnar og munu þess vegna í framtíðinni fylgja vélrænt þeim breytingum, sem á kaupgjaldi verða. Þetta tel ég hiklaust til bóta og koma í veg fyrir, að það verði sífellt verið að fara ofan í þessi mál og taka nýjar og nýjar ákvarðanir þar um.

Ákvæði um biðtíma eru mjög flókin í núgildandi lögum. En það má segja, að almenna reglan sé sú, að menn þurfi að bíða 6 daga eftir bótum. Þetta er að vísu ekki í svo langan tíma, ef um hlaupavinnu svokallaða er að ræða, en það er hins vegar almenna reglan. Nú er það svo, að þeir sem bótarétt eiga úr atvinnuleysistryggingasjóði, hafa í langflestum tilvikum verið vikukaupsfólk, fólk, sem er á lágum launum og má ekki við miklum tekjumissi. Jafnvel einn eða tveir dagar í viku geta sett allt úr skorðum um möguleika heimilanna til að framfleyta sér. Þeim veitir því sannarlega ekki af því að hafa tekjur hvern dag: Í öðru lagi vil ég segja það sem mína skoðun, að hættan, sem sumir hafa gert nokkuð úr og m.a. kom hér fram við 1. umr. málsins hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., ef ég man rétt, á þeirri misnotkun, sem hann minntist á, og vissulega er ekki útilokað, að geti verið fyrir hendi, minnki mjög stórlega við það, að biðtími sé felldur niður. Nú er ekki lengur um það að ræða, að maður, sem fer í vinnu einn og einn dag, glati nokkru við það, hann fær þann dag sem kaupgjald. Ef gömlu ákvæðin hefðu gilt, féllu niður bótadagar í sambandi við slíka vinnu, þannig að hér er áreiðanlega um öryggisatriði að ræða hvað þetta snertir og ekki gerandi lítið úr því.

Þá er enn eitt nýmæli fyrir utan niðurfellingu biðtímans og hækkun bótanna, sem ég tel vera mjög mikils virði og geta komið að verulegu atvinnulegu gagni. Það er sú breyting, að stjórn sjóðsins er heimilað að veita sveitarfélögum styrk og einstaklingum vaxtalaust lán, þar sem um er að ræða verulegt og langvarandi atvinnuleysi, gegn því skilyrði m.a., að þeir sjái ákveðinni tölu atvinnulausra á staðnum fyrir vinnu tiltekinn tíma, sem goldin verði samkv. gildandi taxta á staðnum. Hér er auðvitað um að ræða heimild, ef hún er skynsamlega notuð, sem kann að leiða til þess, að atvinnuleysi verði minna. Jafnvel þó að sú vinna, sem um væri að ræða, væri ekki í öllum tilfellum fullkomlega arðbær, gæti hún orðið miklu hagkvæmari en að greiða mönnum laun fyrir að sitja heima hjá sér athafnalausir.

Fyrir utan þessi stærri atriði, sem ég hef nefnt, eru ýmis smærri atriði, sem eru til varanlegra bóta og gera ákvæði l. skýrari og auðveldari í framkvæmd.

Því er ekki að leyna, þó að það sé rétt, sem ég sagði, að í stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs var fullt samkomulag um málið, eins og það er nú lagt fyrir hv. Alþ., þá er þar ein undantekning á. Fulltrúi Vinnuveitendasambands Íslands, Kristján Ragnarsson, hafði þar sérstöðu. Hann mætti einnig á fundi hjá heilbr.— og trn., þegar hún hafði málið til meðferðar, og skýrði sitt mál. Það kom þó í ljós, og ég vil segja það vinnuveitendasamtökunum til hróss, að það voru í raun og veru ekki nema tvö atriði, sem þau höfðu sérstakar aths. við að gera. Það var annars vegar niðurfelling biðtímans og hins vegar hækkun bótanna. Þeir töldu að vissu marki, að hækkun bótanna væri eðlileg, en vildu, að sett væri sama prósenta og 1969, en nú er um að ræða 5% hækkun á bótunum frá því, sem þar var ákveðið. Í sérstakri grg., sem formaður Landssambands ísl. útvegsmanna, sem jafnframt er fulltrúi atvinnurekenda í sjóðsstjórninni, hefur sent n., segir m. a.:

„Með tilvísun til þess, að mikil vöntun er nú á fólki til starfa við sjávarútveg á öllu landinu, nema á Norður- og Norðausturlandi, sé ég ekki ástæðu til að auka rétt fólks til atvinnuleysisbóta. Þrátt fyrir þessa miklu vöntun á starfsfólki hefur fjöldi fólks verið á atvinnuleysisbótum. Gera má ráð fyrir, ef biðtímaákvæðið verður fellt niður og bótafjárhæðir hækka stórlega, að fólk leiti síður atvinnu utan heimabyggðar. Ef svo fer, er með öllu útilokað að gera út fiskiskip á vetrarvertíð með þeim hætti, sem tíðkazt hefur undanfarna áratugi, þ.e. að fjölga þurfi í áhöfnum bátanna um 1.000—1.200 menn í marz og apríl og á vetrarvertíð komi á land 60-70% af ársaflanum. Þessar staðreyndir verða menn að hafa í huga, þegar tekin verður afstaða til umræddra breytinga. Eins og ég hef tekið fram á fundi í sjóðsstjórninni, get ég fallizt á, að atvinnuleysisbætur hækki í það hlutfall, sem þær voru á árinu 1969, en ekki umfram það, eða til kvænts manns eða giftrar konu 75% af launum samkv. 2. taxta Verkamannafélagsins Dagsbrúnar“.

Eins og menn sjá af frv., er hér um að ræða, að þessar bætur verði 80% til kvænts manns eða giftrar konu, sem er fyrirvinna, en ekki 75%, eins og Kristján Ragnarsson leggur til. Ég tel auðsætt, að hér sé ekki um svo stórkostlegan mun að ræða, að það geti ráðið úrslitum um það, hvort stórkostlegir fólksflutningar fara fram í sambandi við vetrarvertíð á Suðvesturlandi frá þeim stöðum á Norður- og Austurlandi, þar sem atvinnuleysi er að einhverju leyti landlægt að vetrinum til. Auk þess stríðir það að mínu viti líka á móti öllu eðli málsins og réttlæti, að atvinnuleysisbæturnar séu notaðar sem einhver sérstök þvingun á menn til þess að flytja sig búferlum í landinu. Ég held líka, að þessar bætur, eins og þær nú eru ákveðnar, hindri á engan hátt unga og vaska menn að fara í verið, eins og það var kallað hér, meðan það var og hét. Hins vegar hafa atvinnuhættir breytzt. Menn una því verr en áður og komast verr af með það að vera atvinnulausir langtímum saman og gera þess vegna vaxandi kröfur til þess að hafa atvinnu í sinni heimabyggð. Það tel ég vera þá meginreglu, sem stefna beri að.

Ég hef áður í þessu sambandi minnt á greiðslugetu sjóðsins, sem er það mikil, að ég tel ekki verjandi, að bæturnar séu lægri en hér er lagt til. Menn verða að minnast þess, að þessi sjóður var þannig tilkominn upphaflega, að hér var raunverulega um hluta af kaupi verkafólks að ræða. Sú skoðun er a.m.k. almenn í verkalýðsfélögunum, að hér sé raunverulega um eign verkalýðssamtakanna að ræða, enda er það svo, að tekjur sjóðsins eru færðar á sérstaka reikninga á nafni viðkomandi verkalýðsfélags. Þegar þetta er haft í huga, get ég ekki séð, að nein veruleg rök séu fyrir því, að bæturnar séu lægri en hér er lagt til.

Það var mér mikið ánægjuefni, að í hv. heilbr.— og trn. var full samstaða um málið og n. mælir einróma með því, að frv. verði samþ. Á hinn bóginn áskildu menn sér rétt til þess að fylgja eða flytja brtt., ef fram kynnu að koma.