02.11.1972
Sameinað þing: 11. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

33. mál, efling Landhelgisgæslunnar

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð. — Ég vildi segja mitt álit á þessari till. og lýsa fylgi mínu við hana, og ég reikna með því, að Sjálfstfl. standi að þessari till., enda hafa sjálfstæðismenn sýnt það áður, að þeir vilja efla Landhelgisgæzluna. Má minna á till., sem hv. þm. Jóhann Hafstein, formaður Sjálfstfl., og hv. þm. Geir Hallgrímsson, varaformaður Sjálfstfl, fluttu hér á hv. Alþ. í fyrra um kaup á nýju skipi og allsherjareflingu Landhelgisgæzlunnar. Í framhaldi af því hljóta sjálfstæðismenn að fylgja þessari till., sem leiðir til þess, að það verður keypt nýtt skip til Landhelgisgæzlunnar. Ég geri ráð fyrir, að flestir geri sér ljóst, að það þarf að efla Landhelgisgæzluna, ekki sízt eftir útfærslu landhelginnar og vegna þeirrar óvissu, sem er í þessum málum. Við þurfum að hafa öfluga landhelgisgæzlu, enda þótt samningar náist við Breta og Vestur-Þjóðverja, vegna þess að svæðið er stórt, sem þarf að verja, og það er talað um friðunarráðstafanir á ýmsum sviðum. Það þarf þá einnig að fylgjast með því, að friðunarreglurnar verði ekki brotnar. Hygg ég, að allir hv. alþm. geri sér grein fyrir þessu.

Það er ánægjulegt til þess að vita, að nú standa fyrir dyrum samningatilraunir við Breta á ráðherragrundvelli. Við skulum vona, að þær samningatilraunir beri árangur. Ég er sömu skoðunar og hæstv. forsrh. um það, að öllum muni vera fyrir beztu að taka upp samninga, um leið og ég vil taka fram, að við getum vitanlega ekki gengið of langt í því efni. En þegar að samningaborði kemur, verðum við vitanlega að gera okkur grein fyrir því, að þorskastríð gæti orðið langt, það gæti orðið kostnaðarsamt og það gæti orðið örlagaríkt fyrir báða aðila. Og þorskastríð, sem stendur í mörg ár og ef Bretar halda áfram að veiða á miðunum eins og þeir geta, takmarkalítið, það getur líka orðið örlagaríkt fyrir okkar veiðisvæði.

Nú er það fjarri mér að fara að vekja upp nokkrar deilur í landhelgismálinu. Alþingi íslendinga hefur haft samstöðu í því, og það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, þjóðin öll stendur sambuga í þessu máli. En ég vil alveg ádeilulaust eigi að síður minna á það, að ef farið hefði verið að till. okkar sjálfstæðismanna og landgrunnið allt tekið í einu, þá hefðum við frekar haft efni á því að gefa meira eftir í samningum við Breta og Vestur-Þjóðverja og okkar aðstaða hefði orðið betri. Ég segi þetta alveg ádeilulaust, en það kemur upp í hugann, að þegar við höfum unnið þessar 50 mílur, þá verðum við eftir tiltölulega stuttan tíma að taka upp aðra baráttu til þess að ná sneiðinni undan Vestfjörðum, sem eru 20 mílur á breidd utan 50 mílnanna, og til þess að ná svæðinu fyrir suðausturhorninu, vegna þess að þegar þessar 50 mílur okkar eru orðnar gildandi, þá vex ásókn hinna erlendu togara á landgrunnið utan 50 mílnanna, þannig að búast má við, að botninn þar verði sópaður, og það getur orðið örlagaríkt fyrir fiskgöngurnar á leiðinni á bátamiðin hér í kringum landið. En þetta er önnur saga. Í dag þýðir ekkert að tala um þetta. Í dag er takmarkið að vinna 50 mílurnar og gera það sem fyrst. Það þarf að hefja samningatilraunir, og góðar óskir fylgja hæstv. utanrrh. og þeim, sem honum fylgja í samningaumræðunum, að góður árangur náist í þessu efni. En ég undrast, að það skuli ekki enn vera ákveðið, hvort teknar verði upp samningaviðræður við Vestur-Þjóðverja, sem hafa þó verið miklu meinlausari hér á miðunum heldur en Bretar, og ég óska þess, að það verði reyndar samningatilraunir við þá. Ég hefði trúað því, að það hefði verið hægara að ná samkomulagi við þá heldur en Breta. Og ég hefði trúað því, að okkar aðstaða til samninga við Breta hefði orðið auðveldari og sterkari, ef við hefðum áður verið búnir að ná samningum við Vestur-Þjóðverja.

Það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að það tekur nokkurn tíma að smiða nýtt skip, ég skal ekki segja hve langan tíma, e.t.v. tvö ár. Og það er bagalegt að þurfa að bíða svo lengi eftir því. Þess vegna verður að vekja athygli á ábendingu forstjóra Landhelgisgæzlunnar, þar sem hann tekur fram, að það beri ekki að útiloka þann möguleika að kaupa skip, hraðskreitt skip, enda þótt það verði e.t.v. ekki eins hentugt til björgunarstarfa og skip, sem væri beinlínis smíðað í þeim tilgangi að stunda landhelgisgæzlu og björgunarstörf hér við land. Ég veit, að hæstv. forsrh. hefur þetta í huga, og hann tók það reyndar fram áðan. Ef skip yrði keypt, gæti það komið fljótt hér á miðin. Og þegar við hugsum um það, að við höfum ekki raunverulega nema þrjú skip, Óðin, Ægi og Þór, sem ganga hraðar en togarar, þá gerum við okkur ljóst, að enda þótt mannskapurinn um borð í Tý og Árvakri sé allur af vilja gerður, þá hlýtur aðstaðan að vera mjög erfið til gæzlustarfa, þegar þessi skip ganga ekki hraðar en togararnir, sem á að taka. Þetta vita menn vitanlega, án þess að hér sé frekar um það rætt. Við vonum, að Týr komi að gagni á miðunum, enda þótt það skip sé eins og við vitum, og við vonum, að Týr og Árvakur, ef þessi skip koma nálægt brezkum togurum og reyna klippingar, geti þá forðað sér undan þeim.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég kom hér aðeins upp í pontuna til þess að lýsa fylgi mínu við þessa till. og vil leggja áherzlu á, að það verði gert allt, sem í okkar valdi stendur til þess að efla Landhelgisgæzluna.