02.11.1972
Sameinað þing: 11. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

33. mál, efling Landhelgisgæslunnar

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég vil fagna þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir og er til umr. Þetta er annað málið, sem nú er lagt fram á Alþ. til eflingar landhelgisgæzlunni. Hitt er till., sem nokkrir sjálfstæðismenn báru hér fram og á hefur verið minnzt í þessum umr. um stóraukið fjárframlag til eflingar landhelgisgæzlunni. Hér er till., sem felur í sér, að byggt verði nýtt og fullkomið skip. Ég vil mega vona, að í þessari till. felist ekki það, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að það sé fyrst og fremst um endurnýjun að ræða. Ég álít, að það eigi að vera fyrst og fremst um aukningu og eflingu á landhelgisgæzlunni að ræða, og eitt skip er að sjálfsögðu of lítið. Við þyrftum að gera meira átak í þessum efnum heldur en að byggja eitt nýtt skip í viðbót.

Hæstv. forsrh. gerði grein fyrir því, hvað landhelgin hefði stækkað mikið við útfærsluna í 50 sjómílur, og það segir sig sjálft, að með svo stórauknum svæðum, sem gæta þarf, verður að bæta við fleiri skipum, enda þótt aðstaðan sé einnig bætt með fleiri flugvélum. Ég tel. að það þurfi að athuga sérstaklega í sambandi við gæzlu landhelginnar, hvort ekki sé hægt að komast af með ódýrari skip á vissum svæðum. Við vitum það, að innan landhelginnar verður komið á sérstökum friðunarsvæðum, og það eru allir sammála um, að á því sé brýn nauðsyn. Ef fylgja á eftir þeim friðunarreglum, sem settar verða, þurfa að koma til fleiri skip, sem hafa á hendi eftirlit og vörzlu. Íslendingar verða einnig sjálfir að skilja það, að þeir verða að fara eftir þeim reglum, sem settar verða um veiðar innan landhelginnar, og við þekkjum það af fyrri reynslu, að til þess að hægt sé að fylgja því eftir, þarf öflugt eftirlit. Ég er líka viss um, að það er hægt að komast af með mun ódýrari skip, bæði að stofnkostnaði og einnig í rekstri, til þess að hafa á hendi slíkt eftirlit. En eftir sem áður álít ég, að það sé sá þáttur í vörzlu landhelginnar, sem við eigum ekki að vanmeta og ekki að vanrækja.

Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hafa stærri og öflugri skip, sem hafa á hendi vörzluna á aðalvíglínunni, þar sem við þurfum fyrst og fremst að eiga við erlend skip, sem sækja á okkar fiskimið. Þess vegna mundi ég halda, að þótt það sé nokkur áfangi í áttina til þess að efla landhelgisgæzluna að fá eitt fullkomið og gott skip, þá þyrfti fyrr en síðar að huga að því að bæta við öðru stóru og öflugu skipi til þess að koma til viðbótar við landhelgisgæzluna.

Við heyrðum það í fréttunum núna í hádeginu, að norskir sjómenn væru að ræða landhelgismálin, eins og við höfum gert að undanförnu. Og við heyrðum, að skoðun þeirra er hin sama og Íslendinga. Þeim er það ljóst, að þeir geta ekki beðið eftir því, að erlendar ráðstefnur taki ákvarðanir um þessi mál, og horft aðgerðarlausir á, að erlend fiskiskip gangi á þeirra fiskimið og rányrki þau. Það er sýnilegt, að með þeirri auknu tækni, sem alls staðar á sér stað í heiminum, við byggingu nýrra fiskiskipa, þá verða, ef ekki verður spyrnt við fótum í þessum efnum, fiskimiðin gersamlega eydd og grundvellinum kippt undan lífsafkomu þess fólks, sem á afkomu sína undir fiskveiðunum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessa till., en lýsi eindregnum stuðningi mínum við framgang hennar.